Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Fuglaflensusýni rannsökuð í Bandaríkjunum.
Fuglaflensusýni rannsökuð í Bandaríkjunum.
Mynd / Duluth News Tribune
Fréttir 18. apríl 2017

Fuglaflensa hefur greinst í minnst þremur ríkjum í Bandaríkjunum

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Um 18.000 kjúklingum var eytt í norðvestur-Georgíuríki í Bandaríkjunum á dögunum vegna fuglaflensusmits. Alls hefur 225.000 fuglum verið eytt í Suðurríkjunum vegna fuglaflensu að undanförnu.
 
Greint var frá þessu í The New Zealand Herald 28. mars sl. og sagt að þetta væri í fyrsta sinn sem fuglaflensa hafi greinst í alifuglum í Georgíuríki í Bandaríkjunum. Fjölmiðlar í Bandaríkjunum hafa mikið fjallað um málið að undanförnu. Star Tribune segir þetta m.a. vera versta fuglaflensufaraldur í Bandaríkjunum síðan 2015. Eigi að síður fullyrða yfirvöld að engin hætta sé á ferðum fyrir fæðukeðjuna vestra. 
 
Í Georgíu urðu menn varir við sýkinguna í hefðbundnu eftirliti á kjúklingabúi í Chattooga-sýslu. Engir fuglanna sýndu þó sérstök útlitseinkenni um veikina. Sagði Julie McPeake, talsmaður landbúnaðarráðuneytis Georgíu, að öll alifuglastarfsemi í sex mílna radíus út frá búinu hafi verið skoðuð, en ekkert frekara smit hafi greinst. Þá var fyrirhugað að kanna stöðuna hjá öllum í nágrenni við búið sem eru með alifugla í bakgarði sínum. McPeake sagði að fuglaflensusmit hafi aldrei áður greinst í ríkinu. 
 
Stærsta landbúnaðargreinin í Georgíu
 
Er þetta litið mjög alvarlegum augum þar sem alifuglarækt og vinnsla á alifuglakjöti er helsta landbúnaðargreinin í ríkinu. Er árleg velta þessarar greinar í Georgíu um 25,9 milljarðar dollara. 
Chattooga-sýsla er í um 145 km norðvestur af Atlanta. Þetta er á mótum Georgíu og Alabama og ekki fjarri Tennesee. Tilkynnt hefur verið um fuglaflensu í alifuglahópum á undanförnum vikum bæði í Alabama og Tennessee.  
 
Yfirvöld reyna að slá á óttann
 
Yfirvöld fullyrða að engir smitaðir fuglar hafi ratað í vinnslukeðjuna og inn á matvælamarkað í Bandaríkjunum. Einnig er sagt að þótt fuglaflensan geti farið illa með fuglastofna, þá sé varla líkur á að hún smitist í menn. 
 
Í yfirlýsingu sem sjúkdómaeftirlitsmiðstöð CDC sendi út 8. apríl í samráði við landbúnaðarráðuneyti Bandaríkjanna (USDA) er sagt að um sé að ræða fuglaflensu af stofni A(H7N9) og hættan á að fólk smitist af þessari pest sé í lágmarki. Þetta smitaafbrigði er ekki alveg það sama og Matvælastofnun varar nú við hér á landi.
 
Þótt fuglarnir í Georgíu hafi ekki sýnt sjáanleg merki þess að þeir væru smitaðir, þá gegnir öðru máli um fugla sem greindust í Tennessee. Þeir voru með hátt hlutfall smitefnis og þar voru 145.000 fuglum eytt.
Yfir 225.000 fuglum hefur verið eytt í Suðurríkjunum vegna fuglaflensu að undanförnu samkvæmt upplýsingum sem landbúnaðarráðuneyti Bandaríkjanna hefur látið frá sér. Þá greindi ráðuneytið frá því fyrr í mars, að smitefni í litlum mæli hafi greinst í 84.000 kalkúnum í Wisconsin. Þess má geta að um 50 milljónum fugla í eggjaframleiðslu, kjúklinga- og kalkúnarækt var fargað í Miðvesturríkjunum 2014 og 2015 vegna fuglaflensu. 
 
Einnig voru fregnir af því á vefmiðlum að fuglaflensa hafi greinst í hópi 22.000 hænsna í Vestur- Kentucky og hafi þeim verið eytt. Mun landbúnaðarráðuneyti ríkisins hafa bannað alla flutninga á alifuglum á svæðinu. Ef rétt reynist er þetta í fjórða ríki Bandaríkjanna sem fuglaflensa hefur komið upp að undanförnu.