Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Aukin umferð í júlí á Hringveginum
Mynd / Vegagerðinn
Fréttir 6. ágúst 2014

Aukin umferð í júlí á Hringveginum

Höfundur: Vilmundur Hansen

Umferðin á völdum talningarpunktum jókst á Hringveginum um 1,8 prósent í júlí og stefnir í að árið verið það annað umferðarmesta með 4 prósenta aukningu allt árið.

Milli mánaða 2013 og 2014

Umferðin í júlí jókst um 1,8% frá sama mánuði síðasta árs. Er þetta annar stærsti júlímánuður, í umferðinni, frá því að talningar hófust. Einungis júlí 2009 mældist stærri.  Mest jókst umferðin um Suðurland eða 7,4% en 2,1% samdráttur varð um Norðurland, sem jafnframt var eina landsvæðið þar sem samdráttur mældist.

Það sem af er ári hefur umferð aukist um 4,5% en mest hefur aukningin orðið um Suðurland eða um 7,7% en minnst um höfuðborgarsvæðið eða um 3,5%.

Horfur út árið 2014
Horfur eru mjög svipaðar og áður þ.e.a.s. búist er við um 4% aukningu á umferð um Hringveginn núna í ár miðað við árið á undan.  Verði það niðurstaðan þá er þetta annað stærsta umferðarár á Hringveginum, sem yrði þá aðeins brot úr prósenti stærra en mælingar sýndu árið 2008.