Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Pierre Alexandre Beloeil, sérfræðingur Matvælaöryggisstofnunarinnar, fór yfir stöðu sýklalyfjaónæmis í matvælum, dýrum og fólki.
Pierre Alexandre Beloeil, sérfræðingur Matvælaöryggisstofnunarinnar, fór yfir stöðu sýklalyfjaónæmis í matvælum, dýrum og fólki.
Mynd / ghp
Fréttir 24. maí 2017

Amerískur verslunarrisi nemur land

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
Breytingar hafa þegar orðið í smásölu­verslun á Íslandi með opnun ameríska verslunarfyrirtækisins Costco í Garðabæ. Eldsneytisverð fyrirtækisins er talsvert lægra en annars staðar, þó að íbúar hinna dreifðu byggða hafi vissulega takmarkaða möguleika á að nýta sér það. Verðlag á öðrum vörum virðist í sumum tilvikum vera verulega lægra líka, þótt það eigi eftir að koma betur í ljós.
 
Bændur vonast eftir því að fyrirtækið leggi áherslu á íslenskar landbúnaðarvörur eins og kostur er og selji þær á sanngjörnu verði til neytenda. Bændasamtökin gáfu út skýrslu á síðasta ári um matvælaverð á Íslandi og í Evrópu. Þar var farið yfir stöðu þeirra mála með ítarlegum hætti og meðal annars kom fram það mat samtakanna að það væri hægt að ná árangri við að lækka verð á matvörum á Íslandi. Til þess þyrfti að auka samkeppni á dagvörumarkaði og tryggja að ágóði af breytingum á ýmsum gjöldum og álögum skili sér til neytenda. Sama á við um það þegar árangur næst í hagræðingu í landbúnaði – þá eiga neytendur og bændur að njóta hans en ekki einvörðungu verslunin.
 
Í skýrslunni kom fram að lækkun gjalda, hagstæð þróun á gengi íslensku krónunnar og lægra innkaupaverð hefði ekki skilað sér með eðlilegum hætti með lægra verði til neytenda. Ágóðinn hefði að mestu runnið til fyrirtækja í verslunarrekstri. Síðan skýrslan kom út hefur gengið styrkst enn meira, reyndar svo mjög að það er farið að valda útflutningsfyrirtækjum verulegum vandkvæðum, þar á meðal útflutningi á landbúnaðarvörum. En Costco er boðið velkomið á íslenskan markað og bændur vonast, eins og áður segir, eftir því að fyrirtækið geri íslenskri landbúnaðarframleiðslu hátt undir höfði.
 
Baráttan gegn sýklalyfjaónæmi
 
Í liðinni viku var haldin ráðstefna á vegum Matvælastofnunar um baráttuna gegn sýklalyfjaónæmi. Þar var kynnt skýrsla starfshóps heilbrigðisráðherra um málið. Ráðstefnan og skýrslan fjölluðu bæði um notkun manna og dýra á sýklalyfjum. Notkunin er fremur há hérlendis í mönnum en í lágmarki í dýrum.
 
Í skýrslunni kemur meðal annars fram að útbreiðsla sýklalyfjaofnæmis er ein helsta heilbrigðisógn sem steðjar að mönnum í dag. Þetta er mat stofnana eins og Alþjóðaheilbrigðistofnunarinnar (WHO), Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) og fleiri.
 
Ónæmi getur borist með afurðum, en fleiri atriði skipta þar máli og fullt eins mikilvægt að fylgja þeim eftir. Það þarf að fylgjast betur með bæði innlendum og erlendum afurðum og bæta þarf hreinlætisaðstöðu fyrir ferðamenn. Almennt þarf að standa betur að gagnasöfnun og birtingu gagna er varða sýklalyfjaónæmi og áhrif þess. Síðast en ekki síst þurfa stjórnvöld að setja sér skýra stefnu í málaflokknum.Taka má undir allar þær 10 tillögur sem skýrsluhöfundar leggja til og ástæða er til þess að hvetja stjórnvöld til að hrinda þeim í framkvæmd. 
 
Fimmta hvert kjötkíló sem selt er hérlendis er innflutt
 
Um það er ekki deilt að notkun sýklalyfja í landbúnaði er lítil hér, en það ber lítið á upplýsingum um magn sýklalyfja í innfluttu kjöti. Neytendur fá engar slíkar upplýsingar, sem þeir ættu þó skilyrðislaust að fá. Það mætti byrja á því að upplýsa um lyfjanotkun við framleiðslu þeirra 5.000 tonna af kjöti sem nú þegar eru flutt inn. Það er ekki víst að allir geri sér grein fyrir því að fimmta hvert kjötkíló sem selt er hérlendis er innflutt, sé miðað við árið í fyrra.  
 
En þetta er ekki flókið reikningsdæmi. Ef að sýklalyfjanotkun er með því minnsta sem þekkist, þá eykst magn hennar í matvælum ef flutt er inn vara annars staðar frá. 
 
Ástæða er til að hvetja neytendur til að spyrja ávallt eftir uppruna ef ekki er gerð skýr grein fyrir honum. Karl G. Kristinsson og Vilhjálmur Svansson hafa gert skýra grein fyrir áhættunni við innflutning á ferskum matvælum á fjölmennum fundum sem Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra, hefur staðið fyrir. Áhættan er veruleg og framleiðslan hérlendis býr yfir verðmætri sérstöðu vegna lítillar lyfjanotkunar. Það er vandalaust að glata henni, en við þurfum ekki að gera það ef við gleymum ekki að hugsa til hennar þegar við erum að versla.
 
Samtök innflutningsfyrirtækja leika tveimur skjöldum
 
Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, sem er ákaflega öflugur talsmaður þeirra innflutningsfyrirtækja sem hann starfar fyrir, fór í viðtal í tengslum við ráðstefnuna þar sem hann gerði lítið úr hættunni sem fylgir innflutningi og boðaði skýrslu frá félaginu um málið.  Það er þeirra hagsmunabarátta. Barátta samtaka innflutningsfyrirtækja er gjarnan sett fram á grunni þeirra hugmynda að það þurfi meira frelsi, en þau eru samt ekki yfir það hafin að leggjast gegn því ef það hentar. Fróðlegt er að rýna í umsagnir boðbera frelsis annars vegar um frumvarp um búvörusamninga og hins vegar um opinber innkaup sem lagðar voru fram á svipuðum tíma í fyrrahaust. Ráðist var harkalega gegn búvörusamningum á grundvelli þess að markaðurinn fengi ekki að ráða öllu. Þegar kom að innkaupum hins opinbera átti það ekki við að sama skapi. Því máli var ætlað að opna leið fyrir Ríkiskaup til að taka þátt í útboðum með innkaupastofnunum annarra landa. Þá brá  svo við að allir talsmenn aukins frelsis sneru við blaðinu. Ríkið væri gríðarstór kaupandi á innanlandsmarkaði og það gæti valdið miklu tjóni ef keypt yrði beint af erlendum birgjum. Hér á landi væri lítill og viðkvæmur markaður. Þekking gæti tapast, þjónustustig lækkað og lágt verð gæti leitt til aukins kostnaðar til lengri tíma litið. Taka þyrfti tillit til þess – og það var gert við afgreiðslu málsins. Innkaupum ríkisins voru settar meiri skorður en til stóð í upphafi.
 
Landbúnaðarframleiðslan hefur ekki viljað beygja sig undir óhefta markaðshyggju. Markaðurinn ræður þó miklu – bara ekki öllu. Bændur gera ekki athugasemdir við að tekið sé tillit til innlendra hagsmuna þegar það á við, en væri ekki skynsamlegra að vera samkvæmari sjálfum sér? Ef það á að vera samkeppni þá þarf hún að vera sanngjörn og ná yfir alla, en ekki bara suma. Það er ekkert að því að nýta aðrar aðferðir ef þær skila árangri.