Söguminjasafn Hraunhálsi

Nýuppgerður Massey Ferguson 35X af árgerð 1963. Dráttarvél sem Sigurður Hjartarson, faðir Guðlaugar, fékk með jörðinni þegar hann keypti Staðarbakka 1964.
Hjónin Guðlaug Sigurðardóttir og Jóhannes Eyberg Ragnarsson á Hraunhálsi í Helgafellssveit. Auk þess að reka þar kúabú og stunda sauðfjárbúskap sér til gamans, sem þau hafa reyndar fengið aragrúa verðlauna fyrir, þá hafa þau mikinn metnað fyrir að varðveita sögu sveitarinnar. Hafa þau lagt í þetta áhugamál sitt gríðarlega vinnu og peninga og eru hægt og bítandi að koma upp söguminjasafni á bænum, algjörlega að eigin frumkvæði.
Hér er horft yfir hluta skemmunnar sem geymir tækjabúnað búsins og nokkrar dráttarvélar, jeppa og tæki sem Eyberg er að gera upp.
Meðal gripa sem er að finna í skemmu þeirra Hraunhálsbænda er fyrsta dráttarvélin sem kom á Snæfellsnes. Hún er af gerðinni International 1020 McCormick Deering, árgerð 1929 og var á stálhjólum. Búnaðarfélag Eyja- og Miklaholtshrepps keyptu þennan traktor 1929 og aftan í honum var þá hengt herfi.
Eyberg við fyrstu dráttarvélina sem kom á Hraunháls. Hún er af gerðinni Ferguson og kom að Hraunhálsi vorið 1964 og var keypt frá Svefneyjum. Hún er af árgerð 1952 og ber tegundarheitið Ferguson TE20 og var hönnuð af Harry Ferguson. – Við hliðina er Willis-jeppi, árgerð 1946, sem Eyberg er að gera upp. Hann er frá Slitvindastöðum í Staðarsveit á sunnanverðu Snæfellsnesi.
Guðlaug Sigurðardóttir við Ford 4100. Þessi vél bíður uppgerðar, en hún er af sömu gerð og fyrsta vélin sem hún ók á sínum unglingsárum heima á Staðarbakka.
Skemman vinstra megin á myndinni er dótakassi hjónanna á Hraunhálsi og verðandi söguminjasafn sveitarinnar.
International 1020 McCormick Deering. Svona litu þessar vélar út.
Á loftinu sem er yfir um helming skemmunnar hafa þau hjón safnað fjölda sögulegra muna frá bæjum í sveitinni og ýmis merkileg skjöl og fundargerðarbækur. Hér er Eyberg með tréspaðann af rafmagns-vindmyllunni sem eitt sinn var á Hraunhálsi.
Guðlaug Sigurðardóttir og Jóhannes Eyberg Ragnarsson á Hraunhálsi í Helgafellssveit