Klashyrndur hrútur. Þetta er hann Sexi frá Ósabakka. Hann er fæddur með sex horn, sem nú hafa vaxið saman og myndað klasa.
Stundum trúir maður ekki sínum eigin augum. Þetta grá-jakobsbíldótta lamb er frá Sölvholti og er hringeygt á báðum augum, eins og algengt er hjá hrossum, en er algjör undantekning í sauðfé.
Blákolóttur lambhrútur frá Skarði. Það kallast kolótt þegar haus og leggir á hvítu fé eru dökklituð. Til eru fjögur afbrigði af kolóttu, blákolótt, grákolótt, mókolótt og dröfnukolótt, sem er kannski það sama og sumir kalla vellótt.
Grá ær frá Villingavatni í forgrunni og dóttir hennar grábotnótt. Þær eru báðar saffranóttar. Það kallast saffranótt þegar dökkírauð hár koma fyrir með svörtum og gráum lit. Saffranótt er algengast á haus og leggjum en sést sjaldan á bolnum.
Tveir ferhyrndir hrútar á Ósabakka með sitt hvora hornagerðina, annar hringhyrndur en hinn spjóthyrndur.
Tvær írauðar ær í Sölvholti hafa það notalegt í snjónum. Önnur er dökk írauð en hin ljós. Víðast hvar er þetta kallað gult en á Suðausturlandi heitir það frá fornu fari írautt og ættum við að taka það orð upp sem almennt heiti á litnum í stað þess að nota
Ellert frá Baldurshaga er undantekning frá öllu sem við þekkjum í litaflóru íslenskra hesta. Við getnað hans átti sér stað stökkbreyting sem framkallaði nýtt hvítt litmynstur, ýruskjótt. Enginn getur skipulagt slíka uppákomu.
Alur frá Ártúnum er alhvítur og fæddur þannig. Hér er hann í snjónum vestur í Flóa eftir að hafa sinnt fyrstu hryssunum sínum niðri á Eyrarbakka. Folöldin hans sönnuðu að hann er móvindóttur á bak við alla hvítuna.
Mjölvað folald í Árbæjarhjáleigu. Þetta er afbrigði í rauða hrossalitarófinu. Það einkennist af miklum fölva að neðan, á fótum og kvið, en nær mishátt upp, sjaldan eins hátt og á þessu folaldi.
Sérkennilega skjótt folald á Ægissíðu. Það er syrjótt. Syrjur eru smáir óreglulega lagaðir litblettir í hvítu hlutum skrokksins á skjóttum hrossum. Syrjur merkir grugg eða botnfall. Syrjótt hross eru yfirleitt arfhrein um hefðbundna skjótta litmynstrið.
Skrautlegur folaldahópur á Tindum. Sums staðar eru til stóð sem búa yfir mikilli lita- og litmynstrafjölbreytni. Þó er yfirgnæfandi fjöldi hrossa hérlendis orðinn brúnn, rauður og jarpur, eins og flestir langræktuðu hrossastofnarnir erlendis.
Tvær jarpvindóttar systur frá Röðli. Vindótt er til í nokkrum afbrigðum. Algengast er móvindótt, en sumum finnst jarpvindótt fallegast. Bleikálótt vindótt og móálótt vindótt eru sjaldgæfari afbrigði, en sjaldgæfast er þó moldvindótt.
Tveir stóðhestar meta stöðu sína og styrk hvor annars, nýkomnir í merahólfum. Þeir eru Landi frá Skarði, móálóttur, og Gauti frá Gautavík, bleikálóttur. Þeir fundu sig vera jafningja í þessu tilviki og tókust ekki á. Þess gerðist ekki þörf.
Uppgötvun Botnahrossanna og hið einstaka tækifæri sem þau veita okkur til rannsókna á íslenska hrossastofninum, eins og hann var þegar ráðunautastýrð ræktun hans var að festast í sessi um miðja síðustu öld er gullið tækifæri til að auka skilning okkar á á
Haddur frá Bár, brúnlitföróttur stóðhestur. Hér hefur Haddur brugðið sér í feluliti sem leyna því algjörlega hvernig hann er í raun á litinn. Með því að velta sér upp úr mold og mýrarrauða hefur hann komið sér upp fullkomnu felugervi.
Hér eru alhvítar kýr, litlausar, sem er afar fágætt.
Ekki veit ég hvað þessi litur kallast, kannski kolóttur hélóttur.
Ös í mjólkurbúinu. Er kannski verið að hamstra fyrir jólin?
Ekki leynir ættarsvipurinn sér hjá þessum grönóttu landeysku kúm.