Flaggar ólíkum fánum daglega
Ólafur Sverrisson fánasafnari á 214 ólíka fána, bæði þjóðfána ásamt fánum sem tilheyra borgum, ríkjum, íþróttaliðum og fleiru.
„Ég er eiginlega alinn upp í Vatnaskógi þar sem pabbi minn vann og þar er mikil fánahefð – flaggað á hverjum degi og fánahylling. Heima hjá mér var ekki fánastöng, en lengi býr að fyrstu gerð og þessi fánaáhugi blundaði í mér. Þegar ég var að byggja sumarbústað rambaði ég í fánabúð á ferðalagi í Seattle og ákvað að kaupa fimm fána til að flagga við reisugilið árið 1999. Það voru sá íslenski, danski af því að ég hafði lært í Danmörku, sænski af því að þáverandi konan mín var fædd í Svíþjóð, namibíski af því að þar bjuggu tengdaforeldrar mínir, og bandaríski af því að mágur minn var að læra þar.
Vekur jákvæða athygli
Þegar ég varð fertugur árið 2005 gáfu systkini mín mér fánastöng sem ég reisti við sumarbústaðinn. Um þetta leyti vann ég sem innkaupastjóri hjá Jarðborunum og þá var ég alltaf í einhverjum erlendum samskiptum. Þegar ég bauð gestum upp í sumarbústað í tengslum við viðskiptin keypti ég þeirra fána og flaggaði. Það hitti greinilega í mark og maður vann sér inn mörg prik. Í öðrum samskiptum við viðskiptavini barst talið oft að þessu áhugamáli sem endaði oft með því að þeir sendu mér fána sinnar þjóðar eða fylkis.“
Ólafur segir þetta hafa verið hæga þróun síðan þá og hann hafi byrjað að flagga oftar þegar núverandi kona hans fékk fánastöng í fimmtugsgjöf sem var svo reist á pallinum við heimili þeirra. „Síðan kom Covid og við vorum rekin heim til að vinna og þá ákvað ég að vera búinn að flagga á hverjum morgni fyrir klukkan níu til þess að pressa á mig að fara fram úr. Þá átti ég nálægt hundrað fánum og þetta fór að vekja jákvæða athygli í hverfinu. Síðan hef ég reynt að flagga á hverjum degi allt árið.
Fánar í tengslum við viðburði
Ég flagga þeim íslenska alltaf á sunnudögum og svo reyni ég að flagga á þjóðhátíðardegi þeirra landa sem ég á fána fyrir. Oft flagga ég í tengslum við atburði sem eru í fréttum, eins og þegar það var kosinn bandarískur páfi flaggaði ég fyrir honum. Ég flaggaði vatíkanska fánanum í hálfa stöng þegar hinn páfinn dó. Ég flagga oft fyrir Úkraínu en ég flagga ekki fána Rússlands lengur. Ég flagga oft fána Tíbet, en aldrei Kína af pólitískum ástæðum. Svo á ég liðsfána, en ég held með Víking og Leeds og flagga oft fyrir þeim. Konan heldur með Liverpool og af því að hún á stöngina hefur hún neitunarvald. Fánar eru rosalega pólitískt merki og maður verður að passa sig líka.
Vonandi kemur að því að ég eignist alla þjóðfána. Ég á fána frá öllum Evrópuríkjum, en ég á langt í land víða. Ég hef haldið aftur af mér við að panta fána á netinu. Það er miklu meiri stemning að fá einn og einn fána og njóta þess og svo er mun skemmtilegra ef það er einhver saga á bak við fánann. Ef ég veit af einhverjum sem eru að fara til lands þar sem ég á ekki fánann bið ég fólk um að kaupa. Við eigum samtals fimm börn og þrjú af þeim hafa farið í heimsreisu og ég hef notið góðs af því. Svo er auðvelt að gefa mér gjöf og þetta er ekki dýrt. Ég er nýlega orðinn sextugur og fékk nokkra fána í afmælisgjöf.

Mótmælendafáni verðmætastur
Ég er með heimskort uppi á vegg þar sem ég er búinn að merkja inn þjóðir þeirra fána sem ég á. Það sem ég á er líka skráð í Excel-skali, þar sem má sjá að ég á 214 fána alls, þar af 124 og Louisiana, og borgafánar eins og Amsterdam.
Aðspurður um hvort fánarnir uppfylli einhverja staðla segir Ólafur: Fánarnir þurfa að passa á sex metra langa stöng og vera 90 sinnum 150 sentímetrar. Flestir fánar eru eitthvert nælon-dót og þola ekki mikinn vind. Þegar það er vont veður reyni ég að flagga einhverjum sterkum fánum sem ég á.“
Verðmætasta eintakið í safninu telur Ólafur vera fána sem hann fékk í London árið 2012. „Þar voru mótmæli eftir að byltingin var nýhafin í Sýrlandi og fólk var með sýrlenska fánann, sem var svartur hvítur og rauður með tveimur stjörnum, en rauða litnum hafði verið skipt út fyrir grænan og fjölgað um eina stjörnu. Ég ræddi við mótmælendurna og fékk að kaupa einn fána af þeim sem mér þykir mjög vænt um. Síðan var svipuðum fána flaggað í Sýrlandi þegar Assad var steypt af stóli. Sérstakasti fáninn er frá Nepal, en hann er eini þjóðfáninn sem er ekki ferhyrndur. Sonur minn keypti þann fána sérsaumaðan þegar hann var í heimsreisu og kom við í Nepal.“