Landsins gagn og nauðsynjar

Þórustaðapiltar renndu sér alsælir í fyrstu snjóum meðan fullorðna fólkið sýndi vélar og tæki til kartöfluuppskeru og ræktar: Gabríel Máni, Aron Máni, Fannar Máni, Birkir Logi og Óliver Kári.
Heimasætan í Garðshorni, Yrsa Líf, strýkur hér gæðingi og vini um granir í hesthúsi foreldra sinna meðan gestir skoðuðu sig um þar og í fjárhúsum.
Hér stinga Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og María Rut Kristinsdóttir saman nefjum en til hliðar við þær eru m.a. Hrund Pétursdóttir, Halldóra Hauksdóttir, Hermann Ingi Gunnarsson og Jón Gunnarsson.
Bændur á Syðri-Bægisá í Hörgársveit buðu gesti velkomna að skoða mjólkurframleiðsluna. Kýr og kálfar létu gestina þó ekki raska ró sinni heldur jöpluðu í rólegheitum á töðunni.
Kindurnar í Garðshorni voru óttalega strípaðar að sjá eftir rúningu en undu greinilega hag sínum vel og var nokkuð sama um gestaganginn. Veitið dröfnóttu kindinni fyrir miðri mynd sérstaka athygli!
Á Sölvastöðum í Eyjafjarðarsveit er gríðarstórt svínahús í byggingu og þótt húsið sé risið er margt eftir að gera innanstokks áður en u.þ.b. 300 gyltur fá þar pláss.
Ræktaðar eru kartöflur á Þórustöðum í Eyjafjarðarsveit. Auk þess að sjá kartöflurnar skoppa um vatnstromlur, færibönd og stærðaflokkara var til sýnis ein heilmikil kartöfluupptökuvél.
Hér eru framkvæmdastjóri og formaður Bændasamtaka Íslands í þungum þönkum fyrir málþingið.