Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Benz eða bújörð
Lesendarýni 31. ágúst 2018

Benz eða bújörð

Að undanförnu hefur spunnist talsverð umræða um eignarhald erlendra auðmanna á íslenskum bújörðum. Því miður hefur umræðan verið því marki brennd að þjóðerni viðkomandi auðmanna er gert að aðalatriði í málinu en hvorki litið til hagsmuna bænda sem nytja viðkomandi jarðir né hagsmuna almennings sem á rétt á því að vel sé farið með náttúruauðlindir landsins hvort sem þær tilheyra bújörð eða ekki. 
 
Mest áberandi í umræðunni hafa verið landakaup James Ratcliffe á bújörðum við gjöfular laxveiðiár í Vopnafirði og nærsveitum og er jafnvel býsnast yfir því að bændur séu að selja erlendum auðmönnum þessar jarðir. Í þessu máli eru það samt ekki bændur sem er helst við að sakast.
 
Það vill svo til að ég ólst upp á bújörð í Vopnafirði sem á land að Hofsá. Faðir minn bjó þar með fjölskyldu sinni með blandaðan búskap, kýr og kindur.  Á árunum 1960–70 var mikið rætt um erfiðleika í íslenskum landbúnaði sem síðan þá hefur verið sígilt umræðuefni. 
 
Á þessum tíma kom heildsali úr Reykjavík á svörtum Benz og fékk að veiða hjá föður mínum í Hofsá.  Ekki fer sögum af veiðiskap heildsalans en þegar hann kvaddi bauð hann föður mínum slétt skipti á Benzinum og bújörðinni. Eitthvað var stutt um kveðjur og ekki varð úr þeim viðskiptum.
 
Nokkrum árum síðar stóð faðir minn fyrir því ásamt öðrum bændum sem áttu land að Hofsá að stofna veiðifélag um ána sem var grundvöllurinn að því að gera Hofsá að þeirri laxveiðiperlu sem hún er  í dag.
Verðmætamat heildsalans frá Reykjavík á bújörð föður míns er því miður dæmigert fyrir mat fámenns en áhrifamikils hóps á höfuðborgarsvæðinu á bújörðum og náttúrauðlindum sem þeim fylgja. Reykvískir auðmenn hafa löngum sóst eftir slíkum jörðum fyrir hrakvirði og íslenskir ráðamenn hafa sýnt þessari þróun sem staðið hefur í áratugi algert fálæti. 
 
Í sveitum landsins hefur því skapast ákveðið tómarúm, sem erlendir auðmenn m.a. James Ratcliffe hafa sótt inn í. Bændur eru í brothættri stöðu. Kröfur um aukna hagræðingu í landbúnaði, sérstaklega í sauðfjárrækt, gerir hefðbundinn landbúnað lítt eftirsóknarverðan fyrir ungt fólk. En víða um land eru laxveiðihlunnindi mikilvægur grundvöllur fyrir því að sveitir hafa haldist í byggð. 
 
Fyrir framtíð mikilvægrar atvinnugreinar eins og ferðaþjónustu er mikilvægt að sveitir landsins haldist í byggð og þar sé rekinn blómlegur og framsækinn landbúnaður. Landbúnaður hefur líka margs konar önnur gildi er snerta m.a. menningu, lífsstíl, fæðuöryggi og umhverfisvernd. Uppkaup auðmanna á bújörðum er því ekki einkamál þeirra og viðkomandi bænda heldur varða þau almannahagsmuni. 
 
Íslenskir bændur eru að mörgu leyti í því lykilhlutverki að vera gæslumenn íslenskra náttúruauðlinda. Örar þjóðfélagsbreytingar og ójöfn skipting auðs og valda í samfélaginu gerir það að verkum að þeir eiga sífellt erfiðara með að rísa undir því hlutverki.
 
Eign á landi er nátengd fullveldi þjóðarinnar. Eitt mikilvægasta hlutverk stjórnvalda er að standa vörð um fullveldi þjóðarinnar og þá sérstaklega náttúruauðlindir sem eru arfur okkar og fyrri kynslóða til eftirkomandi kynslóða.
 
Stjórnvöld verða að ræða við hagsmunaaðila, sérstaklega bændur, um það hvernig við ætlum að koma landinu okkar og náttúruauðlindum þess óskertum og ósködduðum til næstu kynslóða.  Síðan má vona að aðgerðir fylgi í kjölfarið.
 
Þorsteinn Gunnarsson
sérfræðingur hjá Rannís
og var rektor Háskólans
á Akureyri 1994-2009.
Ósonlagið er klárt, hvað næst?
Lesendarýni 23. apríl 2024

Ósonlagið er klárt, hvað næst?

Dóttir mín kom heim um daginn og hafði verulegar áhyggjur. Jörðin væri víst að e...

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...