Á Eurofence búinu. Vísundar og hundur sem eru algengir til að vara við hættum vegna úlfa og skógarbjarna.
Á Eurofence búinu. Vísundar og hundur sem eru algengir til að vara við hættum vegna úlfa og skógarbjarna.
Mynd / aðsend
Á faglegum nótum 6. janúar 2026

Heimsókn til Rúmeníu og fleiri fréttir af DIGI-Rangeland verkefninu

Höfundur: Jóhannes Sveinbjörnsson, bóndi og dósent við LbhÍ, Eyjólfur Kristinn Örnólfsson, aðjunkt við LbhÍ, Kristinn Knörr Jóhannesson, ungbóndi, landfræðingur og nemi við LbhÍ, Oddný Steina Valsdóttir, bóndi og ráðunautur hjá RML, og Eyjólfur Ingvi Bjarnason, bóndi og ráðunautur hjá RML.

Dagana 18.–20. nóvember síðastliðinn sóttu höfundar þessarar greinar þverþjóðlega vinnustofu í DIGI-Rangeland verkefninu þar sem Landbúnaðarháskóli Íslands er þátttakandi. Verkefnið er samstarfsverkefni 11 Evrópulanda og stendur yfir í fjögur ár, 2025– 2028. Verkefnið gengur út á að miðla þekkingu um notkun stafrænnar tækni í búfjárrækt með sauðfé, nautgripi, geitur og önnur jórturdýr. Í brennidepli eru þrjú meginsvið þar sem talið er að stafræna tæknin geti komið að gagni:

  • Bætt einstaklingsmiðuð fóðrun, meðferð og meðhöndlun gripa, almenn bústjórn og rekstur.
  • Til að stuðla að meiri sátt og samvinnu um landnýtingu ólíkra hagsmunaaðila.
  • Að styðja við vöruþróun og markaðssetningu afurða og þjónustu sem þessi framleiðslukerfi gefa af sér.
Rúmenía

Vinnustofan var haldin í borginni Braşov sem er miðsvæðis í Rúmeníu, umkringd suðurhluta Karpatafjallanna, byggð af þýskum söxum á 12. öld. Svæðið var og er mikilvæg miðstöð verslunar og menningar í Transylvaníu. Eftir fall kommúnismans hefur Braşov blómstrað sem ferðamannaborg. Þá (1989) var landi í eigu ríkisins endurúthlutað til einkaaðila, með hliðsjón af landeign eins og hún hafði verið um 1920. Þetta ferli var umfangsmikið og flókið og enn eru mörg mál óleyst. Tætt eignarhald á landi setur nú um 35 árum síðar enn sitt mark á skipulag landbúnaðar og nýtingu lands. Á þeim dreifbýlissvæðum sem við ferðuðumst um var mjög algengt að sjá húsalengjur beggja vegna götunnar en landbúnaðarland í bakgarðinum.

Frá 2007 varð Rúmenía hluti af Evrópusambandinu og stuðningskerfið þar byggist á stefnu um fjárfestingar í innviðum í dreifbýli Rúmeníu (AFIR) sem er hluti af dreifbýlissjóði ESB (FEADR) sem er hluti af sameiginlegri landbúnaðarstefnu ESB (CAP). FEADR kerfið er meira notað í löndum AusturEvrópu en í VesturEvrópu því efnahagur landanna þar er veikari og stærri hluti íbúa er búsettur í sveitum. Fjárfestingarstuðningur innan FEADR er 70-90% af heildarfjárfestingu í Austur-Evrópu en 40-60% í Vestur-Evrópu.

Í Rúmeníu er eitt frjósamasta og víðfeðmasta landbúnaðarland Evrópu, og um þriðjungur EU-bænda býr þar. Uppbygging landbúnaðar er mjög tvískipt. Um 90% bænda reka smábú á innan við 5 ha. Á hinn bóginn eru stærri bú með mikla framleiðslugetu sem eiga eða leigja mörg hundruð eða þúsundir hektara lands. Hestvagnar nýttir til heyflutninga báru fyrir augu en einnig dráttarvélaflotar stærri búa sem hefðu sómað sér vel á hvaða stórbýli sem væri hvar sem er í heiminum. Mikill fókus er á sjálfbærni, búskap með jórturdýr og að varðveita graslendi með hátt náttúruverndargildi. Rúmenía á því vel heima í DIGI-Rangeland verkefninu sem hefur einmitt þessar áherslur. Það er eftir einhverju að slægjast fyrir Evrópu og heiminn að efla landbúnað í Rúmeníu. Af jórturdýrum eru í landinu um 10 milljónir sauðfjár og geita, tæpar 2 milljónir nautgripa og um 10 þúsund buffalar.

Heimsóknir á bú í nágrenni Braşov

Vinnustofan í Braşov var brotin upp með heimsóknum á þrjú ólík bú í nágrenninu. Fyrsta heimsóknin var á Eurofence búið í Aita Mare. Eigendur búsins eru girðingarverktakar að aðalatvinnu og nota rafgirðingar frá Gallagher með snjalltækni sem hefur dregið úr vinnuálagi og gert eftirlit skilvirkara. Búið hefur yfir 52 ha að ráða sem er skipt upp í nokkur hólf og notuð skiptibeit. Á búinu eru vísundar af amerískum stofni sem geta verið úti allt árið án húsaskjóls. Yfir vetrartímann er gripunum gefið hey með sem er frekar létt að fóðurgildi. Meginmarkmið ábúenda með þessum búskap er að halda hjörðina við sem náttúrulegastar aðstæður og skapa aðdráttarafl fyrir ferðamenn.

Næsta bú sem var heimsótt var Măieruș Angus með 250 Black Angus kýr. Búið nýtir rúmlega 200 hektara, beit og fóðurframleiðsla fer að mestu fram innan búsins. Flestir gripirnir voru enn úti en þarna var stór bygging sem er notuð fjóra mánuði á ári. Á búinu er einnig talsvert af svínum. Til stendur að byggja lífgasvinnslu sem á að safna búfjáráburði á þessu búi og öðrum í næsta nágrenni til að vinna gasið en bændurnir fá síðan áburðarefni til baka og nýta við fóðurframleiðslu á sínum búum. Uppbygging þessarar vinnslu var eitt þeirra verkefna sem styrkt er af AFIR sjóði ESB.

Síðasta heimsóknin var á Ferma Cățean, fjölskyldurekið bú sem hefur yfir um 350 hekturum að ráða, að stærstum hluta graslendi í fjallahlíðum og dölum. Búið hefur verið í eigu sömu fjölskyldunnar lengi og meginuppistaða búskaparins eru 150 mjólkurkýr og 1500 kindur. Beitartímabilið er frá apríl og vel fram á haust. Búið vinnur mikið af eigin afurðum, m.a. osta sem eru blanda af kúa- og sauðamjólk. Hæsta verðið fyrir dilkakjöt er kringum páska og tekur burðartíminn því mið af því. Miðað er við að slátra lömbum um tveggja mánaða, í 10–12 kg fallþunga og í framhaldinu eru ærnar reknar uppí fjöllin til beitar og mjólkaðar tvisvar á dag. Fjárhirðar annast kindurnar allan sólarhringinn ásamt varðhundum sem ekki væri gaman að mæta í myrkri; úlfar og skógarbirnir eru helstu ógn beitardýra á svæðinu. Samhliða þessum hefðbundna búskap er lagt mikið uppúr fræðslu þar sem gestir fá innsýn í dagleg bústörf og matvælaframleiðslu. Framtíðaráform búsins eru að gera virðiskeðjuna stærri með auknu samtali framleiðenda við neytendur. Þau reka búð og taka við pöntunum. Á svæðinu kringum Braşov hefur verið byggt upp staðbundið vörumerki, „cu bun gust“, sem þýðir bragðgott úr héraði. Búið hefur fengið allmarga styrki úr sjóðum ESB til mismunandi verkefna. Á búinu voru 22 stöðugildi og af þeim voru 20 heimamenn.

Heimsóknirnar í nágrenni Braşov gáfu góða mynd af því hvernig búskapur í Transylvaníu mótast af náttúrulegum aðstæðum, sviptingum sögunnar, hefðum og stuðningskerfi landbúnaðar. Fyrir Íslendinga var áhugavert að sjá hvernig ríkulegur framkvæmdastuðningur getur fleytt þróun búanna mjög hratt fram. Það er þó ekki hægt að horfa fram hjá því að stór hluti bænda og íbúa svæðanna búa við mjög vanþróuð skilyrði og kröpp kjör. Vonandi munu þessi verkefni skila öflugra samfélagi og kraftmiklum landbúnaði í Rúmeníu til lengri tíma.

DIGI-Rangeland verkefnið - Fjölþætt hlutverk úthagabeitar

Úthagi þekur meir en helming þurrlendis jarðarinnar og megnið af beitilöndum heimsins eru í úthaga. Beitilönd eru mikilvæg til framleiðslu fæðu en þau gegna einnig gríðarlega mikilvægu hlutverki sem fjölbreytt búsvæði, oft með hátt verndargildi, sem myndu glatast ef hætt yrði að stunda úthagabeit. Þessi svæði og nýting þeirra móta samfélagsgerð, hagkerfi og þróun dreifbýlis, ferðaþjónustu og framleiðslu staðbundinna gæðavara, verndun líffræðilegs fjölbreytileika og fjölbreyttra vistkerfisþjónustu sem samfélagið er háð. Hefðbundin nýting beitilanda á undir högg að sækja vegna náttúrufarslegra áskorana, hnattvæðingar, samkeppni um land og fleiri þátta. Til að sporna við þessari þróun er horft til innleiðingar stafrænna tæknilausna, þar sem það á við, í framleiðslukerfi sem byggja á úthagabeit. DIGI-Rangeland verkefnið snýst um allt þetta.

Aðferðafræðin – hvar erum við stödd í verkefninu?

Í fyrri verkefnum sem róið hafa á svipuð mið hefur komið fram að í búfjárrækt sem byggir á úthagabeit eru mörg vannýtt tækifæri í notkun stafrænnar tækni. Nú á fyrstu misserum DIGI-Rangeland verkefnisins er áhersla á að skoða hvað þarf til:

  • Hverjar eru helstu áskoranirnar í búskap sem byggir á úthagabeit – burtséð frá notkun stafrænnar tækni?
  • Hvaða lausnir og tækifæri til að mæta þessum áskorunum býður stafræna tæknin upp á?
  • Hvaða hindranir standa helst í vegi fyrir innleiðingu stafrænnar tækni í þessum greinum?

Í haust voru vinnustofur innanlands í öllum ellefu löndunum, þar sem tekist var á við þessar spurningar, með hliðsjón af meginsviðunum þremur sem talin voru upp í upphafi þessarar greinar. Á vinnustofunni í Braşov fóru fulltrúar hvers lands yfir helstu atriði sem komu þarna fram. Bændur standa frammi fyrir vaxandi áskorunum vegna loftslagsbreytinga, rándýra, skorts á vinnuafli, flókins regluverks og eignarhalds á landi, og vegna árekstra við aðra landnotendur, svo sem ferðaþjónustu, náttúruvernd og orkuframkvæmdir. Hlutverk beitarnýtingar í varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika, landslags og brunavarna er oft lítt sýnilegt í samfélaginu – og sjaldan endurspeglað í verði afurða.

Þátttakendur lögðu áherslu á að stafræna tæknin þyrfti að vera einföld, áreiðanleg og sniðin að raunverulegum aðstæðum – þar sem nettenging er oft takmörkuð og búin lítil og fjölskyldurekin. Lausnir eins og örmerki, staðsetningarbúnaður og sýndargirðingar, drónar, stafræn kort og skýrsluhald geta dregið úr álagi, bætt yfirsýn og stutt við sjálfbæra nýtingu lands. Einnig kom sterkt fram þörf fyrir betri samskipti og samhæfingu milli ólíkra hagsmunaaðila. Stafrænar tæknilausnir geta þar gegnt mikilvægu hlutverki. Áhersla var á að auka sýnileika afurða úr afurðum úthagabeitar; þar með talið vistkerfisþjónustu sem þessi kerfi veita, svo sem kolefnisbindingu, verndun líffræðilegs fjölbreytileika og mótun menningarlandslags. Stafræn miðlun opnar möguleika varðandi rekjanleika, gæða- og upprunamerkingar og miðlun á frásögnum bænda, og getur þannig gegnt lykilhlutverki í að styrkja virðiskeðjuna og réttlæta sanngjarnt verð fyrir afurðirnar.

Spurningakönnun lögð fyrir bændur og aðra sem starfa náið með bændum

Eins og kynnt var í gegnum tölvupóstkerfi BÍ fyrr í haust er í gangi spurningakönnun á netinu sem ætluð er að efla skilning á þörfum, hindrunum og væntingum varðandi notkun stafrænnar tækni hjá bændum og öðrum aðilum er vinna í umhverfi búanna.

Rétt er að vekja athygli á því að til að gera úrvinnsluna markvissari er spurningakönnunin hönnuð miðað við að svarendur skilgreini sig út frá einu starfi í einu og út frá einni búfjártegund í einu. Það er mjög mikilvægt fyrir framhald DIGI-Rangeland verkefnisins að svörun verði góð í löndunum öllum. Töluvert hefur borist af svörum, en enn þá má gera mikið betur. Könnunin verður opin a.m.k. fram til áramóta, og er alveg kjörið að ná sér niður eftir allar haustannirnar í þægilega jólastemningu með því að fá sér smákökur og mandarínur, glugga í jólablað Bændablaðsins og svara könnuninni ef því er ekki þegar lokið. Könnunina má opna með meðfylgjandi QR-kóða.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...