Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Heimsframleiðsla á alfalfa er um 450 milljón tonn á ári.
Heimsframleiðsla á alfalfa er um 450 milljón tonn á ári.
Á faglegum nótum 19. október 2018

Alfalfa – mest ræktaða fóður í heimi

Höfundur: Vilmundur Hansen

Ræktun á alfalfa sem fóður hefur margfaldast undanfarna áratugi. Plantan þykir gott fóður, hvort sem er fyrir nautgripi, sauðfé, hesta eða kanínur. Alfalfa er einnig ræktað til manneldis. Á íslensku kallast alfalfa refasmári.

Framleiðsla á alfalfa hefur aukist jafnt og þétt frá síðustu aldamótum og er í dag mest ræktaða fóðurjurt í heimi, auk þess sem plantan er ræktuð til manneldis. Undanfarin ár hafa verið ræktuð um það bil 450 milljón tonn af alfalfa á ári og um það bil 30 milljón hektarar notaðir til ræktunarinnar.

Sé ræktuninni skipt niður á heimsálfur er 41% hennar í Bandaríkjum Norður-Ameríku, 25% í Evrópu, 23% Suður-Ameríku og 8% í Asíu, Afríku og í Eyjaálfunni. Ef litið er til landnotkunar er alfalfa ræktað á um 11,9 milljón hektara í Bandaríkjunum, 6.9 milljónum hektara í Argentínu, tveim milljónum í Kanada, 1,8 í Rússlandi, 1,3 milljónum hektara á Ítalíu og í Kína og minna mæli annars staðar í heiminum.

Stærstu ræktunarsvæðin alfalfa í Bandaríkjunum eru í  Kaliforníu, Suður-Dakóta, Wisconsin Idaho og Montana.

Uppskera á alfalfa.

Bandaríki Norður-Ameríku eru stærsti útflytjandi alfalfa í heiminum og fluttu út 2,7 milljón tonn af þurru alfalfa sem fóður árið 2017. Kína er stærsti innflytjandinn og flutti inn tæp tvö milljón tonn af þurru alfalfa fóðri. Næststærstu innflytjendurnir er Japan með rúmlega 0,5 milljón tonn. Í þriðja sæti er svo Sádi-Arabía með 0,3 milljón tonn.

Samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofu Íslands voru árið 2017 flutt inn rúm 118,4 tonn af refasmára sem mjöl og kögglar til fóðurs, 73,8 frá Danmörk og 44,6 tonn frá Hollandi. Auk þess sem eitthvað er flutt inn af refasmárafræjum bæði til ræktunar og spíra til manneldis.

Fóður fyrir kýr í Sádi-Arabíu ræktað í Bandaríkjunum

Í grein sem birtist í Bændablaðinu í maí 2016 segir að fjárfestar frá Sádi-Arabíu og fleiri ríkjum við Persaflóa hafi verið að skófla til sín ræktarlandi í suðvesturhluta Bandaríkjanna, einkum í Kaliforníu og  Arizona. Eru íbúar sagðir vera farnir að þrútna af bræði út í þessa erlendu fjárfesta. Það er á þeim svæðum sem hafa orðið fyrir hvað mestum áhrifum af langvarandi þurrkum. Þar hefur einnig verið gengið mjög á grunnvatnsbirgðir, meðal annars vegna mikillar ávaxtaræktunar.

Á vegum arabísku fjárfestanna er nú ræktað alfalfa í stórum stíl á bandarísku landi og með grunnvatni sem hratt gengur á. Refasmárinn er einstaklega orkuríkur sem fóður fyrir húsdýr og er plantan oft kölluð drottning fóðurjurtanna. Er uppskeran svo flutt þurrkuð sem hey með skipum í stórum stíl til Sádi-Arabíu.

Alfalfaræktun í Kalaharíeyðimörkinni.

Þar er það nýtt til að fóðra mjólkurkýr sem aldar eru þar á gróðursnauðu landi sem býður ekki upp á möguleika til ræktunar á refasmára, né öðru nauðsynlegu fóðri. Ræktun á refasmára tekur til sín hlutfallslega mesta vatnsnotkun í Kaliforníu samkvæmt tölum California Department og Water Resource. Nam vatnsnotkun vegna ræktunar á refasmára í ríkinu á árinu 2013 um 6,2 milljörðum tonna af vatni. Meðaltal þriggja ára vatnsnotkunar vegna refasmáraræktunar var um 6,8 milljarðar tonna. Um 95% af þessu vatni gufar svo upp við þurrkun á refasmáranum til útflutnings.

Með öfluga stólparót

Alfalfa, eða refasmári, er fjölær belgjurt af ertublómaætt, eins og hvít- og rauðsmári, sem kallast Medicago sativa á latínu. Plöntur innan ættkvíslarinnar Medicago teljast 87 og finnast flestar villtar í löndunum í kringum Miðjarðarhafið. Flestar tegundir innan ættkvíslarinnar eru lágvaxnar að alfalfa undanskilinni.

Rótarkerfi alfalfa er öflugt og nær allt að sex metra niður í jörðina.

Refasmári þykir gott fóður fyrir búfé, hvort sem það eru nautgripir, hross, sauðfé eða geitur. Þar sem refasmári er niturbindandi er hann einnig ræktaður til að bæta jarðveg og í samplöntun til að auka uppskeru.

Plantan er með öfluga stólparót, með mörgum hliðarrótum, sem á fullvöxnum plöntum getur teygt sig rúma sex metra niður í jörðina í leit að vatni. Dæmi er um að hliðarrót refasmára hafi teygt sig 15 metra frá meginrótinni. Stöngullinn sléttur viðkomu, 30 til 100 sentímetra hár og með mörgum greinum. Blöðin þrífingruð, smáblöðin ílöng og lengdin þrisvar til fjórum sinnum breidd þeirra og saxtennt í endann.

Blómin blá, 10 til 20 saman í hnapp. Fræbelgirnir spírallaga, grænir í fyrstu en verða brúnir með þroska, hver með 10 til 20 fræjum.

Fræbelgirnir eru spírallaga.

Nafnaspeki

Í Bandaríkjum Norður-Ameríku kallast refasmári alfalfa og er talið að heitið sé þangað komið frá Íran, aspastor eða  ispist, eftir margs konar framburðarbreytingar, með Spánverjum sem kölluðu plöntuna fyrst alfalfez eða al-fisfisa og síðan alfalfa. Heitið buffalóagras þekkist einnig í Norður-Ameríku.

Á Bretlandseyjum og í Danmörku kallast plantan lucerne, á sænsku lusern og á frönsku og þýsku luzerne. Á íslensku eru heitin refasmári og alfalfa algengust en heitið lúserna þekkist einnig. Heitið lucerna mun komið í latínu og táknar ljóshring. Lucerna er algengt kvenmannsheiti á rómönskum tungumálum.

Latneska ættkvíslarheitið Medicago er upprunnið úr grísku median og tengist Medesum sem lifðu í Íran eða Persíu á áttundu  öld fyrir upphaf okkar tímatals. Tegundaheitið sativa þýðir að plantan sé ræktuð.

Á kínversku kallast refasmári zi mu.

Saga

Talið er að uppruna refasmára sé að finna í suðurhluta Mið-Asíu og að hann hafi fyrst verið ræktaður í Íran til forna. Samkvæmt gríska sagnamanninum Pliny sem var uppi á fyrstu öld eftir Krist kynntust Grikkir ræktun á refasmára 490 fyrir Krist þegar Persar hertóku grísk landsvæði og ræktuðu plöntuna þar.

Bandaríki Norður-Ameríku er stærsti útflytjandi alfalfa í heiminum. 

Í bókinni Opus Agricultura eftir fimmtu aldar rithöfundinn Palladius segir að refasmári gefi uppskeru í tíu ár eftir að honum er sáð og að það sé óhætt að slá hann fjórum til sex sinnum á ári. Þar segir að refasmári sé gott fóður fyrir hesta og nautgripi en að nautgripir eigi til að fá þembu éti þeir mikið af honum.

Bæði Pliny og Palladius nefndu plöntuna medica og vísa þannig til Medesa í Persíu.

Sagt er frá alfalfa fræjum og spírum í fornum indverskum lækningaritum og sagt að hvoru tveggja sé næringarríkt og gott til að bæta blóðflæði líkamans. Samkvæmt Máranum Ibn al-'Awwam ræktuðu Spánverjar al-fisfisa eða alfalfa sem skepnufóður á 16. öld.

Plantan barst með spænskum landnemum vestur um haf til nýja heimsins á 16. öld sem fóður fyrir hesta. Ræktun plöntunnar hófst vestanhafs á austurströnd Bandaríkja Norður-Ameríku á 18. öld en án mikils árangurs. Árið 1850 voru flutt fræ frá Síle til Kaliforníu og eftir það jókst ræktunin hratt. 

Nytja

Alfalfa er langmest notað í fóður og þurrkað sem hey eða verkað í súrhey. Uppskerumagn á hektara er mikið og plantan þykir bæði næringarrík og gott fóður fyrir mjólkurkýr. Auk þess sem það er sagt gott fyrir kanínur til kjöteldis.

Til manneldis þykja alfalfaspírur góðar í salat og á samlokur og eru með vægum hnetukeim. Þurrkað alfalfa er selt sem te og í töflu- og duftformi sem megrunarvara. Líkt og í búfé getur alfalfa valdið þembu í fólki.

Ræktun

Erlendis þar sem alfalfaræktun er mest er fræjum plöntunnar sáð bæði vor og haust. Plantan er mislanglíf í ræktun eftir veðurfari og getur enst frá tveimur og upp í tuttugu ár. Þar sem best lætur gefur plantan nokkrar, allt upp í tólf, uppskerur á ári. Hæfilegt sáðmagn er 13 til 20 kíló á hektara

Plantan kýs sólríkan stað og vel framræstan jarðveg með pH 6,8 til 7,5. Refasmári dafnar best í fosfór- og kalíríkum jarðvegi en vinnur sjálfur nitur úr andrúmsloftinu með hjálp jarðvegsgerla.

Ræktun á alfalfa er vatnsfrek. 

Líkt og í annarri stórræktun leggst margs konar óværa á refasmára og getur hún ráðist á hvort sem er stöngla, lauf eða rætur. Talsverður kokteill af mishollum varnarefnum fer því í að verja uppskeruna.

Eftir slátt er heyið bundið í bagga eða rúllað í rúllur og geymt og flutt þannig. 

Afbrigði og erfðabreytingar

Fjöldi afbrigða og yrkja að refasmára er í ræktun. Af eldri yrkjum má nefna 'Vernal' sem hefur verið í ræktun í áratugi og telst klassískt. Undanfarin ár hafa komið á markað ný yrki sem eru betur aðlöguð að ákveðunum ræktunarsvæðum. Má þar nefna yrkið 'Nondormant' sem er kuldaþolið og getur haldið áfram að vaxa yfir vetrarmánuðina í mörgum suðurríkjum Bandaríkjanna þar sem önnur yrki leggjast í dvala.

Meðaluppskera alfalfa á hektara.

 

Eins og með flestar nytjaplöntur hefur talsvert verið fitlað við erfðavísa alfalfa. Mikið af erfðabreytingunum hafa verið til að auka þol og hreysti plöntunnar gegn kulda og auka uppskeru. Einnig hefur með kynbótum tekist að ná fram auknum fjölda laufa á hverri plöntu sem veldur bæði hraðari vexti og meiri uppskeru.

Á markaði eru yrki sem eru það sem kallast Roundup Ready og því ónæm fyrir glyphsate sem er eitt mest notaða plöntueitur í heimi.

Refasmári til manneldis

Alfalfaspírur eru próteinríkar og sagðar ríkar af karótíni, kalsíum, steinefnum, járni og vítamínum. Þær eru sagðar góðar til að draga úr háu kólesteróli í blóði og krankleika í nýrum og þvagblöðru og draga úr einkennum sykursýki, astma og liðagigt.

Plantan er þekkt í bæði kínverskum og vestrænum alþýðulækningum.

Ekki er mælt með að fólk neyti mikið að alfalfa-fræi eða laufblöðum ekki frekar en að borða hey.

Alfalfaspírur eru góðar í salat. 

Refasmári á Íslandi

Í tímaritinu Leifur, 3. árgangur 1885–1886, sem var gefið út í Winnipeg í Kanada á íslensku fyrir Vestur-Íslendinga, er að finna undir lið sem kallast Ýmislegt umfjöllun um nýja grastegund og vitnað til reynslu á því vestanhafs í Dakota.

„Alfalfa eða Chilian. grasteg., er fyrir mjög skömmu orðin kunn almenningi, er á stuttum tíma hefir rutt sjer mjög mikið til rúms hjer norðvestra. Það er vonandi, að hinir íslenzku bændur einnig gefi hinni nýju grastegund athygli.

Mr. J. R. Lowe, bóndi í Dakota, segir svo: „Fyrir fimm árum síðan var mjer sent frá búnaðarfjelagi nokkru litið eitt af „Alfalfa“-fræi, sem jeg þegar sáði í akurblett, er var tveggja ára gamall. Hið fyrsta ár hafði illgresið yfirhönd, og þar er jeg hirti ekkert um blettinn, fór svo á sömu leið í 3 ár, en samt sem áður jókst hið nýja gras ár frá ári, og vorið 1885 náði það algjörlega yfirhönd, og var farið að gróa þrem vikum á undan öllu öðru grasi, áður en naut gátu lifað úti á hinu villta grasi, var hið áðurnefnda orðið 6 þuml. hátt“. Enn fremur segir hann : „Alfalfa" er ein hin bezta fóður tegund fyrir allan kvikfjenað; það er engu síðra til holda og mjólkur en maiskorn. Og er það von mín, að þegar þessi hin nýja grastegund verður orðin almenn hjer i Dakota, að vjer ekki munum lita neinum öfundar augum til hinna bylgjandi maískornakra annarra fylkja. Því einn kostur þess er, að ekki þurfum vjer að vera hræddir um það á akrinum fyrir hagli, frosti nje þerri. það er óhult fyrir öllu þessu.

Maískorn er bezt allra korntegunda til gripaeldis, en sakir veðráttu hjer norðvestra er það mjög erfitt til ræktunar. og þar er „Alfalfa“ er jafnt því að kostum, þá ættu hinir vestlenzku bændur að setja það í sæti þess, og fría sig þannig við kostnað og fyrirhöfn.“

Refasmára er getið í 33. árgangi, 1963 til 1964, Náttúru­fræðingsins í slæðingaskrá Ingólfs Davíðssonar.

Í Morgunblaðinu sunnudaginn 14. ágúst 1949 er viðtal við Olaf S. Aamodt, sem sagður er vera einn fremsti búfræðingur Bandaríkjanna. Í viðtalinu segist Aamodt hafa kynnt sér búnaðarsögu Íslands og skoðað búnaðarhætti og skýrslur. „Hefi jeg borið þetta saman við kynni mín af búnaði í löndum þar sem svipuð skilyrði eru og hjer á landi. Sjerstaklega hafa komið mjer að gagni fyrri rannsóknir mínar í Alaska.“ Þegar Aamodt er spurður hvort hægt sé að rækta alfalfa hér á landi segir hann: „Það er til alfalfa tegund, kölluð gulblóma alfalfa [Medicago falcata], sem ættuð er frá Síberíu. Fyrir fjörutíu árum var hún flutt til Alaska. Þar hefir hún dafnað ágætlega við svipuð skilyrði og hjer, og hefir orðið mikill búhnykkur að henni. Jeg tel, að nauðsynlegt sje að gera tilraunir með ræktun gulblóma alfalfa hjer á íslandi, því að hún er mjög góð fóðurjurt.“

Upp úr 1990 fer að bera talsvert á alfalfa, eða refasmára, í mataruppskriftum á síðum dagblaða og tímarita og segja má að alfalfaspírur hafi verið í tísku á þeim tíma. 

Gulblóma alfalfa, Medicago falcata,  hefur reynst vel í ræktun í Alaska.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...