Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Meðal fyrirtækja sem koma að stofnun nýju samtakanna eru Auðhumla, Mjólkursamsalan, Mjólkursamlag KS, Sölufélag garðyrkjumanna, Sláturfélag Suðurlands, Kaupfélag Skagfirðinga, Kjarnafæði/Norðlenska, SAH afurðir, Ísfugl, Norðlenska matborðið, Matfugl, Síld og fiskur, Sláturhús KVH, Kjötafurðastöð KS, Stjörnugrís og Fóðurblandan.
Meðal fyrirtækja sem koma að stofnun nýju samtakanna eru Auðhumla, Mjólkursamsalan, Mjólkursamlag KS, Sölufélag garðyrkjumanna, Sláturfélag Suðurlands, Kaupfélag Skagfirðinga, Kjarnafæði/Norðlenska, SAH afurðir, Ísfugl, Norðlenska matborðið, Matfugl, Síld og fiskur, Sláturhús KVH, Kjötafurðastöð KS, Stjörnugrís og Fóðurblandan.
Fréttir 8. júní 2022

Aðstaða bænda og fyrirtækja í landbúnaði á Íslandi er lakari en í öðrum ríkjum Evrópu

Höfundur: Vilmundur Hansen

Rúmlega tuttugu íslensk fyrirtæki sem tengjast landbúnaði og matvælaframleiðslu hafa stofnað Samtök fyrirtækja í landbúnaði.

„Markmið samtakanna er meðal annars að stuðla að því að íslenskum landbúnaði og fyrirtækjum í landbúnaði verði búin svipuð starfsaðstaða og gerist í Evrópusambandinu og Noregi,“ segir Sigurjón Rafnsson, formaður nýju samtakanna.

„Við erum enn að fullmóta stefnu og formleg markmið samtakanna og hvernig þau munu koma til með að starfa en við vitum hverjar lykiláherslurnar eru.“

Sigurjón segir að í dag halli verulega á íslenska bændur og fyrirtæki í landbúnaði í aðstöðu og samanburði við þá umgjörð sem landbúnaður í Evrópu býr við.

„Á síðustu tveimur áratugum hefur umhverfi íslenskra bænda og íslenskra landbúnaðarfyrirtækja versnað mjög mikið í samanburði við þá aðstöðu og umgjörð sem sambærilegum aðilum er búin annars staðar í Evrópu.

Þetta er líklega þvert á þá almennu skoðun sem ríkir í þjóðfélaginu. Þegar lagðar eru saman víðtækar undanþágur frá samkeppnislögum, aðlögun reglugerða að aðstæðum hvers ríkis, beinn stuðningur tengdur framleiðslu, tollvernd, tollaeftirlit, stuðningur sem tengist ekki framleiðslu, svo sem vegna byggðamála og grænna lausna í landbúnaði, tollasamningar við önnur ríki og markaðsinngrip, svo eitthvað sé nefnt, þá er óhætt að fullyrða að Ísland rekur lestina þegar kemur að því að skapa landbúnaðinum sambærilega umgjörð og þau ríki sem við viljum bera okkur saman við. Reiknaður stuðningur, eins og tollvernd, hefur hrapað á síðustu árum vegna samninga sem gerðir hafa verið við önnur ríki og eru okkur óhagstæðir.

Ef skoðuð er framkvæmd tolla­eftirlits á Íslandi og undanþágur frá samkeppnislögum, sem eru mjög víðtækar í Evrópusambandinu og í Noregi, þá kemur upp sorgleg mynd sem sýnir að aðstaða íslenskra bænda og landbúnaðarfyrirtækja er mun verri en í öðrum ríkjum í Evrópu. Þessi mismunur og staðreyndir um hann hefur að okkar mati aldrei náð upp á yfirborðið hér á landi og því gætir iðulega mikils misskilnings í umræðunni um landbúnað og greininni alls ekki sinnt sem skyldi.“

Að sögn Sigurjóns eru ástæðurnar fjölmargar breytingar sem hafa átt sér stað í samfélaginu og að einnig hafi samtök bænda og fyrirtæki í landbúnaði og stjórnvöld sofnað á verðinum undanfarin ár. Úr þessu þarf að bæta og færa rekstrarskilyrði íslensks landbúnaðar til samræmis við rekstrarskilyrði í Noregi og í aðildarríkjum Evrópusambandsins.

Ísland rekur lestina

„Greiningarvinna fyrirtækja í landbúnaði og Bændasamtaka Íslands síðustu tveggja til þriggja ára hefur skýrt þessa mynd og það er hlutverk okkar að koma henni á framfæri, íslenskri þjóð til hagsbóta. Margir halda að á Íslandi sé enn í gildi sjóða- og millifærslukerfi í landbúnaði, sem hefur ekki verið til staðar í fjöldamörg ár,“ segir Sigurjón.

Hann fullyrðir að á Íslandi sé ríkjandi gagnsæjasta stuðningskerfi við landbúnað sem fyrirfinnist í Evrópu.

„Hér er í gildi einn búvörusamningur milli bænda og ríkisins sem er opinbert plagg. Þannig er því ekki farið innan Evrópusambandsins þar sem stuðningur við landbúnað er ógegnsær og ekki nema á færi þeirra sem hafa aðgang að stjórnsýslunni og með mikilli vinnu að fá aðgang og upplýsingar um hver stuðningurinn raunverulega er. Hitt er svo annað mál að við megum horfa mun meira til þess hvernig Evrópusambandið og Noregur hlúa að sínum landbúnaði og tengja hann fæðuöryggi, byggðamálum og félagslegum þáttum. Lífið er aldrei bara hvítt eða svart. Þvert á móti gera bæði Noregur og Evrópusambandið sér grein fyrir því að framleiðsla landbúnaðarafurða sé ekki raunhæfur kostur nema með aðkomu ríkisvaldsins og sér þess merki í allri laga- og reglugerðarsetningu. Íslensk stjórnvöld þurfa að tileinka sér sömu aðferðafræði til að gera rekstrarskilyrði íslenskra bænda sambærileg þeim sem gilda í Noregi og á meginlandi Evrópu. Það þarf að jafna aðstöðumun milli íslenskra bænda annars vegar og norskra og evrópskra bænda hins vegar, eins og boðað hefur verið í drögum að nýrri landbúnaðarstefnu fyrir Ísland.

Við verðum líka að horfa til þess að gagnrýni frá aðilum sem tengjast landbúnaði og matvælaframleiðslu gagnvart versluninni hér er alls ekki sanngjörn. Þótt hagsmunasamtök verslunarinnar tali stundum af vanþekkingu um landbúnaðarmál, þá finnst mér að stjórnendur stóru verslanakeðjanna hér á landi hafi oft meiri skilning á landbúnaðarmálum en stjórnvöld. Þeir skilja mikilvægi íslenskrar landbúnaðarframleiðslu og við þurfum að vinna mun þéttara með versluninni í að auglýsa íslenskan landbúnað. Við megum heldur ekki gleyma því að á Íslandi er framlegð verslunar af innlendri landbúnaðarframleiðslu sú langminnsta í hinum vestræna heimi og líklega þótt víðar væri leitað samanburðar.“

Beina aðild að Samtökum atvinnulífsins

„Þeir sem standa að Samtökum fyrirtækja í landbúnaði telja að samtökin eigi að hafa beina aðild að Samtökum atvinnulífsins eins og aðrar lykilstarfsgreinar samfélagsins, eins og til dæmis Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök fyrirtækja í ferðaþjónustu og Samtök iðnaðarins. Það eitt og sér er mjög mikilvægt til að greinin fái þá rödd og sess sem henni ber sem einni af mikilvægustu atvinnugreinum þjóðarinnar. Stofnun samtakanna er því liður í því að koma umræðunni um landbúnað á þann stað í samfélaginu sem hún á skilið. Það má ekki gleyma því að einungis tvær atvinnugreinar hafa fylgt þjóðinni frá landnámi, sjávarútvegur og landbúnaður. Í því sambandi þarf að rétta hlut landbúnaðar. Samstaða þeirra sem standa að samtökunum er mikil enda gera þeir sér grein fyrir því að það er komið að úrslitastund um það hvort ákveðnar greinar landbúnaðarins leggist hreinlega af, eins og nautakjötsframleiðsla og dilkakjötsframleiðsla, svo alvarleg er staðan,“ segir Sigurjón.

Öll helstu fyrirtæki í landbúnaði

Samkvæmt upplýsingum Bænda­blaðsins er fyrirmynd samtakanna dönsk samtök sem kallast Landbrug & Fødevarer, auk þess sem horft er til Bondelaget í Noregi. Hér er um að ræða samtök sem koma fram fyrir hönd virðiskeðja í landbúnaði, nánar tiltekið frá „jörð til borðs“, eins og það er orðað í Danmörku, eða frá „bónda til borðs“ eins og það er orðað í Evrópusambandinu.

Meðal fyrirtækja sem koma að stofnun nýju samtakanna eru Auðhumla, Mjólkursamsalan, Mjólkursamlag KS, Sölufélag garðyrkjumanna, Sláturfélag Suðurlands, Kaupfélag Skagfirðinga, Kjarnafæði/Norðlenska, SAH afurðir, Ísfugl, Norðlenska matborðið, Matfugl, Síld og fiskur, Sláturhús KVH, Kjötafurðastöð KS, Stjörnugrís og Fóðurblandan, auk annarra sem átt er í samræðum við. Samhliða stofnun nýju samtakanna munu mörg fyrirtækjanna ganga úr Samtökum iðnaðarins.

Samtal við Bændasamtökin

„Við höfum þegar hafið viðræður við Bændasamtökin um það hvort við getum sameiginlega unnið að lykilhagsmunamálum landbúnaðarins og BÍ hefur tekið vel í það. Tilgangur SAFL er ekki að fara inn á starfssvið Bændasamtakanna, þar sem þau hafa sínum tilgangi að sinna, bæði félagslega og gagnvart ríkinu. Við sjáum fyrir okkur að gera samstarfssamning við Bændasamtökin til að vinna sameiginlega að hagsmunamálum. Við erum sterkari saman, Bændasamtökin og Samtök fyrirtækja í landbúnaði, þar sem við komum sameiginlega fram fyrir allt framleiðsluferli landbúnaðarvara – fyrir alla virðiskeðjuna eins og þekkist í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Einn lykiltilgangur Samtaka fyrirtækja í landbúnaði er að tryggja að bændum og fyrirtækjum í landbúnaði verði búin svipuð starfsaðstaða og gerist annars staðar í Evrópu, auk þess að stuðla að aukinni fræðslu um málefni landbúnaðarins í samfélaginu,“ segir Sigurjón.

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...