Snjókorn
Nú birtist síðasta uppskriftin frá Ullarversluninni Þingborg. Mynstur í Íslensku sjónabókinni voru höfð til hliðsjónar við hönnun þessarar peysu. Það hefur verið krefjandi verkefni en jafnframt mjög gefandi að finna uppskriftir í blaðið og vonandi eru lesendur Bændablaðsins ánægðir með það sem birst hefur frá Ullarversluninni undanfarin ár. Þingborg þakkar lesendum Bændablaðsins kærlega fyrir áhugann, en nú er mál að linni og aðrir taka við keflinu.
Þingborg óskar öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.
Stærðir: XS S M L XL 87 97 103 111 120
Efni: 450-450-500-500-550 g Þingborgarlopi í aðallit. 50 g af 3 litum af lopa, eða einn litur í öllu mynstrinu. Eins má nota litaðan lopa, t.d. Slettuskjótt og Hörpugull sem fást í Þingborg. Ef notaður er lopi frá Ístex í aðallit verður að gæta að prjónfestu, ekki er sami grófleiki á honum og á Þingborgarlopanum.
Sokkaprjónar nr 3.5 og 5 Hringprjónar nr 3.5 40 og 80 cm langir
Hringprjónar nr 5, 40, 60 og 80 cm langir
Prjónfesta: 14 l og 23 umf í sléttu prjóni = 10 x 10 cm Önnur prjónastærð getur hentað, allt eftir því hvort prjónað er fast eða laust, finnið það út með því að prjóna prufu. Prjónað er úr plötulopanum tvöföldum. Bolur og ermar eru prjónuð í hring.
Bolur: Fitjið upp 126-136-144- 156-168 l á 80 sm hringprjón nr 3.5, prjónið stroff í hring 6-8 sm 2 sléttar og 2 brugðnar með þriðju hverja umferð brugðna. Skipt yfir á 80 sm hringprjón nr. 5. Prjónað slétt uns bolur mælist 38-46 sm. (Lengd á bol er smekksatriði, mælið viðkomandi og metið bolsídd).
Á dömupeysu er fallegt að gera ,,mitti“ á peysuna með því að taka úr á bol. Setjið merki í báðar hliðar, takið úr 2 lykkjur hvoru megin, *prjónið 2 l saman, prjónið 1 lykkju, prj 2 lykkjur saman*. Fyrst er tekið úr er bolur mælist 8-12 sm og síðan 2x aftur með 5 sm á milli. Alls eru teknar úr 12 lykkjur. Prj 5 sm, þá er aukið út aftur samsvarandi og með sama millibili og tekið var úr og endað með sama lykkjufjölda og var.
Ermar: Fitjið upp 32-32-36-36- 40 lykkjur á sokkaprjóna nr. 3.5, prjónið stroff í hring 6-8 sm. Skiptið yfir á sokkaprjóna nr. 5 þegar stroffi er lokið og aukið strax um 2 lykkjur undir miðri ermi, (1 lykkju eftir fyrstu lykkju og 1 lykkju fyrir síðustu lykkju í umf). Endurtakið aukningu 7-8-8-9-9 x upp ermi, með u.þ.b. 8 umferðum á milli, þar til 48-50-54-56-60 l eru á prjóninum. Skiptið yfir á stutta hringprjóninn nr. 5 á u.þ.b. miðri ermi. Gott er að nota prjónamerki til að merkja þar sem aukið er út. Prjónið uns ermi mælist 44-52 sm. (Mælið handlegg og metið hve ermin á að vera löng)
Axlastykki: Sameinið nú bol og ermar á langa hringprjóninn nr 5. Setjið 5-5-5-5-6- síðustu l og 5-5- 5-6-6- fyrstu l á báðum ermum á prjónanælu. Setjið 10-10-10-11- 12 af bol á prjónanælu þar sem umferð byrjar vinstra megin á bol. Prjónið fyrri ermina við bolinn 38-40-44-45-48 lykkjur, prjónið næstu 53-58-62-67-72 lykkjur af bol og setjið næstu 10-10-10-11- 12 lykkjur á prjónanælu. Prjónið seinni ermina við og gerið eins og með hana. Prjónið síðan 53-58- 62-67-72 lykkjur af bol, þá eru 182-196-212-224-240 lykkjur á prjóninum. Í hverju mynstri á axlastykki eru í byrjun 14 lykkjur og til að það stemmi, þarf að fækka um 2 lykkjur í st M og XL áður en byrjað er á mynstri. Prjónið eftir teikningu. Eftir fyrstu úrtöku eiga að vera á prjóninum 156-168- 180-192-204 l. Í næstu snjókornum gengur talan 10 upp í mynstrið og því þarf taka aðeins meira úr eða bæta aðeins við svo dæmið gangi upp. Áður en síðasta mynstrið er prjónað þurfa að vera 104-112-120- 128-136 lykkjur á prjóninum. Takið úr aukalega til að mynstur stemmi. Það gerir ekkert til þó það séu teknar fleiri úr eða jafnvel örfáum bætt í hringinn til að allt gangi upp. Notið styttri hringprjóna eftir því sem lykkjum fækkar. Þegar mynstri lýkur er tekið úr aukalega þar til 64-72 lykkjur eru eftir á prjóninum, (4 verða að ganga upp í) þá er skipt á 40 cm hringprjón nr 3.5 og prj 6-8 sm stroff og 4 umferðir slétt prjón, fellt af. Gangið vel frá öllum endum og lykkjið saman undir höndum.
Þvottur: Þvoið peysuna í höndum með mildri sápu í 30 °C heitu vatni. Kreistið vatnið úr og setjið peysuna í annað vatn til að skola sápuna úr. Kreistið vel og leggið til þerris. Eins er hægt að þvo peysuna í þvottavél á ullarkerfi, prófið kerfið þó fyrst á einhverju öðru en uppáhaldspeysunni, því ekki má flíkin þófna.

