Sindri Gíslason, nautahirðir á norsku nautastöðinni Geno, með nautið 12387 NR Sandbu-P sem er á leið til sæðistöku. Hann er hrifinn af starfsemi nautastöðvarinnar og segir Íslendinga geta tekið sér sitthvað til fyrirmyndar úr norska landbúnaðarkerfinu.
Sindri Gíslason, nautahirðir á norsku nautastöðinni Geno, með nautið 12387 NR Sandbu-P sem er á leið til sæðistöku. Hann er hrifinn af starfsemi nautastöðvarinnar og segir Íslendinga geta tekið sér sitthvað til fyrirmyndar úr norska landbúnaðarkerfinu.
Mynd / Aðsendar
Viðtal 30. desember 2025

Taka fósturvísa augljós ávinningur

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Sindri Gíslason hefur búið ásamt fjölskyldu sinni í Noregi í liðlega sjö ár og unir hag sínum vel við að annast hátt í tvö hundruð nautgripi og gæta að frjósemi þeirra.

Sindri er Skagfirðingur, fæddur 1970 og ólst upp á Vöglum í Blönduhlíð, í Akrahreppi hinum forna. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri og menntaði sig síðan í matvælafræði við Háskóla Íslands.

„Eftir útskrift var ég í atvinnuleit og var þá haft samband við mig að vestan af bónda sem þurfti nauðsynlega á afleysingu að halda. Ævintýraþráin sagði til sín og mér þótti gaman að kíkja á Vestfirðina. Þar ílengdist ég næstu fjögur árin, fyrst í afleysingarhring bænda í Önundarfirði, sem fékk nafnið Önundur staurfótur, og svo við kennslu tvo vetur við grunnskóla Flateyrar og barnaskólans í Holti,“ lýsir Sindri.

Þar hóf hann sinn búskap og flutti með bústofn og tæki í Skagafjörðinn vorið 1998.

„Ég bjó þar félagsbúi með tveimur bræðrum mínum og móður til ársins 2005 og réð mig að Hvanneyri í fjósið hjá Landbúnaðarháskóla Íslands. Takandi á móti búfræðinemendum og ekki sjálfur búfræðingur skráði ég mig í fjarnám og útskrifaðist sem búfræðingur vorið 2012. Svo sótti ég um starf fjósameistara Nautastöðvar Bændasamtakanna og vann þar til haustsins 2018 er við fluttum til Noregs,“ segir hann jafnframt.

Nautgripahirðir hjá Geno
Hjónin Sindri og Anna í suðrænni sælu með barnabarnið Björn Óla Kristjánsson.

Um það af hverju hann lenti í Noregi segir hann það hafa verið ævintýraþrá í þeim hjónum, að búa í öðru landi í nokkur ár. Þau eru orðin rúmlega sjö árin þar ytra.

Sindri er kvæntur Önnu Baldrúnu Garðarsdóttur hjúkrunarfræðingi og þau eiga þrjá spræka stráka; Kristján, fæddan 1997, Heiðar Sigurmon, fæddan 2001 og Gísla Garðar, 2004 árgerð. „Tveir þeir yngri fluttu með okkur til Noregs en Kristján var að byrja nám í Háskólanum í Reykjavík, varð því eftir á Íslandi og er útskrifaður byggingartæknifræðingur í dag. Hinir hafa verið í skóla og nú sem stendur vinna þeir báðir í Norsvin sem er ræktunarstöð fyrir svín,“ upplýsir Sindri.

Hann starfar sem nautgripahirðir hjá norska fyrirtækinu Geno. „Ég sé um fóðrun og hirðingu, ásamt sæðistöku og almennu viðhaldi tækja og húsakosts. Gegnumgangandi eru um það bil 70 naut og 100 kvígur hverju sinni. Ég er mikið í kvígufjósinu þar sem ég fylgist með fóðrun og kjarnfóðurgjöf þeirra, holdastiga þær reglulega ásamt því að sæða þær,“ útskýrir hann.

Selja sæði um allan heim

Geno er nautastöð þeirra Norðmanna, stofnuð árið 1935. Sindri segir að þar fari fram sæðistaka, pökkun og frysting á sæði, kyngreining sæðis, Spermvital sem er langlíft sæði og framleiðsla fósturvísa.

„Nautgripakynið NRF (norsk røtt fe) er aðalsmerki Geno en einnig tökum við inn gömlu nautgripakynin, forfeður íslenska kúastofnsins. Áttatíu prósent mjólkurframleiðslu Noregs kemur frá NRF og helstu kostir þess eru góð frjósemi og góð ending,“ segir hann og kveður Geno selja sæði til yfir 30 landa í öllum heimsálfum, í gegnum dótturfyrirtæki Geno Global AS.

„Einnig tökum við á móti holdanautum í samvinnu við TYR. Þar fáum við 20 ársgömul naut af Aberdeen Angus, Limosin, Charole, Hereford og Simendal kyni árlega,“ bætir hann við.

Fyrir sjö árum síðan hóf Geno að taka fósturvísa og segir Sindri að í dag sé augljós ávinningur þess kominn í ljós. „Æ fleiri nautkálfar og kvígur koma til okkar úr fósturvísum og kynbótamatið hefur hækkað töluvert með tilkomu þeirra. Geno kaupir árlega 110 kvígur af bændum og stendur til að fjölga þeim í 130 á næsta ári. Bændurnir hafa svo forkaupsrétt á kvígunum og þá með fangi, og reynslan sýnir að þetta hefur engin neikvæð áhrif á þær. Þetta er eitthvað sem gæti komið ræktunarstarfinu heima á Íslandi til góða.“

Munur á íslenskum og norskum búskap

Inntur eftir hver sé helsti munurinn á búskaparháttum á Íslandi og í Noregi, segir Sindri muninn ekki svo ýkja mikinn.

„Ræktunarskilyrði eru mun betri þannig að sums staðar í Noregi geta menn lifað af akuryrkju. Í kringum mig hér í innlandinu er gríðarlega mikil kornrækt, hveiti og bygg ásamt kartöflurækt og laukrækt.“

Íslendingar gætu þó kannski nýtt sér hvernig Norðmenn byggja landbúnaðarkerfi sín.

„Hér er mikið um styrkjakerfi t.d., en fer eftir því hvaða svæði þú býrð á eða ef þú býrð fyrir ofan ákveðna hæðarlínu. Einnig fá menn styrki fyrir að rækta gömlu kynin svo þau deyi ekki út. Það er pólitísk ákvörðun að sett er kvótaþak á mjólk upp á 750.000 lítra til að koma í veg fyrir verksmiðjubúskap. Til að mynda eru bara tvö fjós með þrjá róbóta í öllu landinu. Meðalfjöldi kúa á býli er 34 kýr,“ segir hann. Norðmenn glíma auðvitað við mörg sömu vandamál í búskap og íslenskir bændur.

Þannig segir Sindri að lausaganga verði skylda árið 2034 svo margir bændur sem eru með gömul fjós standi frammi fyrir þeirri ákvörðun að fara annaðhvort í breytingar eða hætta þá búskap. „Sauðfjárbændur glíma við mikil afföll yfir beitartímann. Áttatíu prósent þeirra eru af völdum sjúkdóma, slysa og eitrunar en tuttugu prósent af völdum rándýra, s.s. jarfa, gaupa, bjarna, úlfa og kóngaarna,“ segir hann.

Synir Sindra og Önnu; þeir Heiðar og Gísli, að sækja eldivið í skóginn.

Stefna brátt heim

Þau stefna á að koma aftur til Íslands eftir svo sem tvö ár. Afaog ömmuhlutverkið togi í þau. En næst á dagskrá er að halda jól.

„Við höldum í okkar íslensku hefðir og höfum venjulega hamborgarhrygg eða léttreyktan lambahrygg í matinn á aðfangadagskvöld. Hangikjöt er svo á borðum annan í jólum. Norðmenn hringja inn jólin klukkan fimm og jólamaturinn er eftir því hvar þú ert í landinu. Margir hafa purusteik, aðrir pinnekjøtt, enn aðrir lutefisk og svo er það jólaþorskurinn hjá sumum. Norðmenn eru æstir í pylsur og medisterkökur og svo er það stór hópur sem fær sér Grandiosa-pitsu!“ segir Sindri sposkur að lokum. 

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt