Ísólfur Gylfi og Steinunn Ósk eru ekki bara skógarbændur  lagahöfundar og söngvarar, nei, þau eru líka bæði í Rótarýklúbbi Rangæinga þar sem Ísólfur er forseti klúbbsins.
Ísólfur Gylfi og Steinunn Ósk eru ekki bara skógarbændur lagahöfundar og söngvarar, nei, þau eru líka bæði í Rótarýklúbbi Rangæinga þar sem Ísólfur er forseti klúbbsins.
Viðtal 30. desember 2025

Skógarbændurnir og tónlistarhjónin á Uppsölum

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson

Skógarbændurnir og hjónin á bænum Uppsölum í Fljótshlíð í Rangárþingi eystra kalla ekki allt ömmu sína þegar kemur að fjölbreyttum verkefnum en það nýjasta hjá þeim er vinna í hljóðveri þar sem þau tóku upp fimm hressileg lög og hafa gefið út á Spotify.

Hér erum við að tala um þau Ísólf Gylfa Pálmason, fyrrverandi alþingismann og sveitarstjóra, og Steinunni Ósk Kolbeinsdóttur, sem vann til margra ára hjá Fræðsluneti Suðurlands. Hjónin hafa haft fasta búsetu á Uppsölum síðan haustið 2018 en þá seldu þau húsið sitt á Hvolsvelli og létu byggja fyrir sig íbúðarhús. „Við hófum skógrækt 2001 og höfum plantað hátt í 200.000 plöntum. Ætli það liggi ekki 50 hektarar undir í skógræktinni. Síðan hefur fjölgað á torfunni og nú búa hér einnig Margrét dóttir okkar og fjölskylda og sonur okkar Kolbeinn og hans fjölskylda. Það eru mikil forréttindi að vera í svona mikilli nálægð við fjölskylduna og barnabörnin veita okkur ómælda ánægju. Það gleður okkur á hverjum morgni að sjá skólabílinn renna í hlað,“ segir Ísólfur Gylfi og bætir við. „Svo má ekki gleyma því að dóttir okkar og tengdasonur hafa verið með býflugnarækt í mörg ár og nú hafa þau komið sér upp svokallaðri „Gusu“, sem er viðarkynt sána. Þar kemur eldiviður úr skóginum sér að góðum notum og gusan veitir ómælda heilsubót.“

Fyrsta grisjun fram undan

En hvernig hefur skógræktin gengið og hvað er nú skemmtilegast við hana? „Skógræktin hefur gengið ótrúlega vel, nú er hér orðinn myndarlegur skógur og við þurfum að fara að huga að fyrstu grisjun. Skemmtilegast er að fara um skóginn og dást að plöntunum, sum tré verða uppáhalds og önnur bíða eftir söginni. Það er líka mjög gaman og gefandi að planta út. Þreytan að loknum vinnudegi er svo góð. Við höfum hægt verulega á okkur við útplöntun, því svæðið sem er eftir er ekki eins vel fallið til skógræktar, einkum vegna berangurs á fjallinu og vegna veðurs. En það er líka nóg að gera við að hirða um skóginn, klippa tvítoppa tré, fjarlægja greinar og svo framvegis,“ segir Steinunn Ósk.

Útivistarsvæði með góðum göngustígum

Getið þið eitthvað nýtt skóginn fyrir ykkur, eða hvað? „Já, já, skógurinn er strax orðinn að góðu útivistarsvæði, með góðum göngustígum sem gaman er að ganga um. Við höfum einnig útbúið lundi þar sem fjölskyldan kemur saman og á sínar góðu samverustundir. Við teljum það mjög mikilvægt að nýta skóginn sem yndisskóg. Enn eru ekki miklar nýtilegar afurðir úr skóginum, ef við erum að tala um viðarafurðir. Hins vegar höfum við tekið jólatré í mörg ár og eldivið eigum við nóg af. Það eru líka farnar að vaxa margar sveppategundir í skóginum, sem við erum reyndar ekki nægilega dugleg að nýta,“ segir Ísólfur.

Gamall hljómsveitatöffari

En þið eruð ekki bara skógarbændur, þið eruð líka söngbændur. Hvað er að frétta þar og hvað kom til að þið fóruð að taka upp lög og setja á Spotify? „Já, Ísólfur Gylfi hefur í gegnum tíðina samið nokkur lög og hann var reyndar í nokkrum hljómsveitum í gamla daga og spilaði á sveitaböllum, sannkallaður hljómsveitartöffari. Hann á mörg hljóðfæri og spilar á bassa, gítar og trommur. Draumurinn var alltaf að koma nokkrum af þessum lögum í varanlegt form, láta útsetja þau og taka upp,“ segir Steinunn Ósk og Ísólfur bætir strax við: „Þegar Steinunn fór á eftirlaun fyrr á þessu ári ákváðum við að láta slag standa og fara að vinna í þessu. Enda er gott við þau tímamót að líta til baka og skoða hvaða draumar hafa ekki ræst og fara að vinna í að láta þá rætast. Ég hitti Sigurgeir Sigmundsson, gítarleikara og tónlistarkennara, á tónleikum í fyrrasumar og fór að ræða málið við hann. Þá kom í ljós að hann aðstoðar fólk við að koma svona hugmyndum áfram. Það varð því úr að ég fór með lögin til Sigurgeirs og hann tók að sér að útsetja þau og skrifa upp á nótur,“ segir Ísólfur.

Stúdíó bassaleikarans í Mezzoforte

Hjónin fóru svo síðastliðið vor í Stúdíó Paradís, sem er í eigu Jóhanns Ásmundssonar, bassaleikara úr Mezzoforte, og hann tók lögin upp. Þau fengu svo til liðs við sig úrvals hljóðfæraleikara, eða þá Pálma Sigurhjartarson hljómborðsleikara, Sigfús Óttarsson trommuleikara og Hjörleif Valsson fiðluleikara. „Við vorum sko ekki svikin af þessum eðal mönnum. Við hjónin syngjum lagið, „Sveitasamba“ saman, Ísólfur syngur lagið „Indæl ævisaga“ og ég syng svo hin þrjú lögin. Við fengum svo mæðgur, þær Elfu Margréti Ingvadóttur og Hjördísi Tinnu Pálmadóttur, til að syngja bakraddir en þær eru báðar ættaðar frá Hvolsvelli,“ segir Steinunn Ósk, stolt og sæl með útkomuna.

Allt komið á Spotify

Hjónin segja að í fyrstu hafi verkefnið eiginlega bara verið hugsað fyrir fjölskylduna en úr því að þau lögðu af stað í þetta ferðalag, þá var bara ákveðið að fara alla leið. Lögin eru nú öll komin á Spotify undir heitinu „Indæl ævisaga“, og þau eru einnig komin á útvarpsstöðvarnar.

100 ára Rangæingur

Þegar þau eru spurð um lögin, hvernig þau eru og eftir hverja, þá verður Steinunn Ósk til svars.

„Lögin eru öll eftir Ísólf Gylfa og tveir af textunum, „Kveðjustund“ og „Morgunljóð til Margrétar“ eru eftir föður hans, Pálma Eyjólfsson, sem var mjög góður hagyrðingur og gaf m.a. út tvær ljóðabækur. Einn texti, „Talað við barn“ er eftir konu sem hét Ingibjörg Björgvinsdóttir. Hún var Rangæingur og lést á þessu ári 100 ára gömul. Ísólfur Gylfi fékk svo Kristján Hreinsson til að semja texta við tvö lög, þ.e. „Sveitasömbuna“ og „Indæla ævisögu“, segir Steinunn og Ísólfur bætir við: „Lögin eru í fjölbreyttum tónlistarstíl, allt frá sveitatónlist til trúarlegrar tónlistar. Þau eru útsett í frekar léttum dægurlagastíl. Þetta er tónlist sem er alveg „orginal“ ef svo má segja, það er spilað á venjuleg hljóðfæri og söngurinn er nánast tekinn upp „live“ eins og sagt er. Það er ekkert tölvudæmi í þessu og því má segja að þetta sé frekar tímalaus tónlist sem ætti að eldast vel. Til gamans má geta þess að Sigurgeir Óli Sigurgeirsson, áhugamaður um tónlist og góður harmonikkuleikari, hefur útsett tvö laganna fyrir harmonikku og sent Harmonikkufélagi Íslands,“ segir Ísólfur og þá hlær Steinunn Ósk og segir: „Það er svolítið gott á Ísólf Gylfa því á bítlaárunum var hann ekki sérlega hrifinn af því hljóðfæri. Það er löngu liðin tíð því harmonikkan er dásamlegt hljóðfæri ef vel er leikið á það. Reynir Jónasson og Grétar Geirsson eru í sérstöku uppáhaldi sem harmonikkuleikarar. Við erum þakklát Sigurgeiri Óla fyrir þetta og þann áhuga sem hann hefur sýnt þessu uppátæki okkar.“

Heilmikið mál að opinbera sig

Var þetta ekki mjög skemmtilegt verkefni og gefandi, eða hvað?

„Jú, það verður að segjast eins og er að þetta var alveg áskorun. Það er heilmikið mál að opinbera sig með þessum hætti. Þegar ég fór til Sigurgeirs með lögin var ég eiginlega titrandi á beinunum. Hann var bara svo hvetjandi að á endanum þorði ég að spila fyrir hann öll þessi fimm lög. Þetta er eiginlega eins og að láta smiði taka við fokheldu húsi. Sigurgeir sá um að teikna innréttingarnar og svo komu tónlistarmennirnir eins og smiðir sem fullkráruðu verkið,“ segir Ísólfur og heldur áfram. „Auðvitað er þetta gefandi verkefni, bæði að yfirvinna feimnina og óttann um að mistakast. Svo er bæði heilandi og gefandi að flytja tónlist. Við þurftum að æfa okkur heilmikið til þess að geta sungið þessi lög og það var bara gaman. Svo má ekki vanmeta það, að það skiptir miklu máli að við hjónin gerum þetta saman. Það er því enginn sem hangir heima og er orðinn hundleiður eða leið á þessum lögum,“ segir Ísólfur Gylfi og hlær.

Spilað og spilað á útvarpsstöðvunum

Hvernig viðtökur hafið þið fengið við lögunum og þessu uppátæki ykkar?

„Við gáfum „Sveitasömbuna“ út í sumar og hún hefur bara fengið góðar viðtökur, er þó nokkuð spiluð á Spotify og hefur einnig verið spiluð á Rás 1, Rás 2, Bylgjunni og ekki má gleyma Útvarpi Suðurlands og Útvarpi Sögu. Hin lögin eru bara nýkomin út svo það á kannski eftir að reyna á það. Það er heilmikið mál að koma lögum í spilun á útvarpsstöðvum og ekki sjálfgefið að þeir sem ekki hafa verið í þessum bransa árum saman fái mikla athygli. Það er mikið gefið út af tónlist og sjálfsagt slást flytjendur um athyglina. Við vorum svo sem ekki að vonast eftir því að verða heimsfræg af þessu tiltæki en því er ekki að neita að það kemur upp smá metnaður þegar verkinu er lokið,“ segir Steinunn Ósk og skellihlær.

Hringja í óskalagaþætti

„Það er best að nálgast lögin á Spotify. Svo er auðvitað hægt að hringja inn í hina fjölmörgu óskalagaþætti, sem eru á hinum ýmsu útvarpsstöðvum eða senda kveðju í Óskastundina hjá Svanhildi Jakobsdóttur, það er klassík og myndi gleðja okkur hjónin,“ segir Steinunn Ósk aðspurð hvernig sé best fyrir áhugasama að nálgast lögin þeirra til að hlusta á þau.

Allur ótti og feimni hvarf

Ísólfur Gylfi og Steinunn Ósk höfðu þetta að segja í lokin: „Við viljum færa tónlistarmönnunum sem aðstoðuðu okkur við þetta verkefni okkar bestu þakkir. Þeirra hvetjandi framkoma var okkur mikill stuðningur og gerði það að verkum að þegar komið var í stúdíóið hvarf allur ótti og feimni. Og ekki er það verra að við lítum svo á að í þessu ferli höfum við eignast nýja og góða vini. Þá viljum við einnig hvetja fólk sem hefur lokið sinni starfsævi að líta til baka og skoða hvað þar var sem ekki komst í verk í önnum dagsins og huga að því hvort nú sé ekki einmitt rétti tíminn kominn til að láta til skarar skríða,“ segja skógarbændurnir og tónlistarhjónin á Uppsölum í Fljótshlíð.

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt