Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Auðvelt er að tína fjallagrös og þau finnast víða á Íslandi. Þau hafa ýmsa heilsubætandi eiginleika og voru mikið notuð áður fyrr. Líklega má segja að þau hafi á stundum haldið lífi í fólki í harðindaárum.
Auðvelt er að tína fjallagrös og þau finnast víða á Íslandi. Þau hafa ýmsa heilsubætandi eiginleika og voru mikið notuð áður fyrr. Líklega má segja að þau hafi á stundum haldið lífi í fólki í harðindaárum.
Mynd / Einar Timdal
Fréttir 30. október 2025

„Fjallagrös með flautavind“

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Fjallagrös voru mikið nýtt í aldanna rás og hafa ýmsa markverða heilsubætandi eiginleika auk þess að vera seðjandi.

Fjallagrös hafa um aldir verið notuð á Íslandi. Þau voru gjarnan tínd yfir sumarið og nýtt í mat, svo sem soðin í blóðmör, í grasagraut (líkt og sterkja), möluð í ýmsan mat og drukkið af þeim seyði. Jafnframt voru þau notuð sem litunargras. Þegar farið var í grasaferðir var það stundum nefnt að ganga til grasa. Nú eru æ færri sem leita fjallagrasa og kunna að nýta sér þau, en heilsuvöruverslanir selja fjallagrös og grasafrótt fólk nýtir þau gjarnan sér til heilsubótar, ekki síst fyrir hósta, meltingu og styrkingu þarma. Þau eru og græðandi.

Fjallagrös auðfinnanleg

Fjallagrös (Cetraria islandica) heyra alls ekki til grasa heldur er um að ræða fléttur, skófir eða þelinga, þ.e.a.s. þörung og svepp í samlífi. Fjallagrös eru algeng í fjalllendi og hásléttum í norðurálfu en sérlega algeng á Íslandi og yfirleitt auðfinnanleg, hvort heldur á hálendi eða láglendi. Þau eru einatt brúnleit og yfir í svart, mjó og rennulaga, en geta einnig verið blaðkennd og breið, ljósbrún eða grænleit á lit. Blaðjaðrarnir einkennast af mjóum randhárum.

Allt að helmingur efna fjallagrasa eru slímkenndar fjölsykrur sem þenjast út þegar þær komast í snertingu við vatn. Fjallagrös innihalda að minnsta kosti þrjú þekkt fléttuefni: prótólichesterinsýru, lichesterinsýru og einnig oft prótócetrarsýru. Þau eru næringarog steinefnarík fæða og innihalda talsvert af járni og kalsíum, auk bitrunga.

Útbreiðslukort (2007) Kort / Starri Heiðmarsson

Harðinda- og heilsubótarmatur

Grösin voru sögð vera harðindamatur og er þekkt að fólk nýtti þau gjarnan til að sefa sárasta hungrið í harðindum. Segir t.d. í eftirfarandi vísu eftir sr. Bjarna Gizurarson:

Vor fram reiðir konukind
og kallar það sé nægtaborð
fjallagrös með flautavind
og fínlega þéttan bruðnings sporð.

Jónsbók hefur að geyma fyrstu þekktar heimildir um grasatekju á Íslandi, í lögbók árið 1281. Segir þar m.a. að ekki sé leyfilegt að tína fjallagrös á landi annarra bænda. Góð grasalönd juku verðgildi jarða. Alsiða var á 18. og 19. öldinni að á grasaríkum jörðum voru gerðir út hópar fólks til að safna grösum fyrir veturinn og þá búið í tjöldum.

Auðvelt er að finna fróðleik um fjallagrös á veraldarvefnum. Segir t.d. í Læknablaðinu, 4. tbl. 2000, í grein eftir Hallgerði Gísladóttur, að „Íslendingar notuðu fjallagrös gríðarmikið á fyrri öldum til að drýgja naumt kornmeti í brauð og grauta. Auk þess voru þau mikill læknisdómur (...) og þannig eru þau notuð enn í dag, hér á landi og víðar. Vorið 1972 var send út frá þjóðháttadeild Þjóðminjasafns spurningaskrá um fjallagrös þar sem meðal annars var spurt um grasaferðir, frágang og flutning á grösum, þurrkun, geymslu, hreinsun og notkun fjallagrasa til matar og lækninga. Áttatíu og sex svör bárust úr öllum landshlutum. (...) Allflestir fæddir nálægt aldamótunum 1900 höfðu vanist því að fjallagrös væru notuð til lækninga. Allir þekktu til þess og langalgengustu kvillarnir sem grösin áttu að lækna voru í öndunarfærum og meltingarvegi. Það var mjög algengt að sterkt seyði af grösum og kandíssykri var til á bæjum, eins konar hóstasaft – eða brjóstsaft, eins og margir nefndu þennan drykk – til að gefa við kvefi, hæsi eða þyngslum fyrir brjósti. Oft drukku þeir sem voru lasnir þetta sjóðandi heitt að kveldi og dúðuðu sig svo niður í rúm á eftir – helst undir þrjár sængur, eins og einn heimildarmanna tók til orða. Dæmi voru um að engifer eða vallhumall væri soðinn með grösunum í þetta lyf. Og stundum var sletta af víni látin út í.“

Hafa gott geymsluþol

Gott er að tína fjallagrös í rekju því þá eru þau mjúk og auðséð í bendu af alls kyns öðrum gróðri. Þau eru svo hreinsuð, þurrkuð við stofuhita eða í sól og gengið frá þeim í ílát. Þau hafa gott geymsluþol.

Nokkur íslensk fyrirtæki vinna heilsuvörur í íslenskum fjallagrösum.

Fjallagrasauppskriftir

Eftirfarandi fjallagrasauppskriftir miða við að fjallagrösin séu hrein af mosa, lyngi og öðru sem fylgt getur þeim við tínslu. Skolið af þeim með rennandi köldu vatni fyrir notkun.

Grasate/seyði

2–4 grös fyrir einn bolla. Grösin eru sett út í kalt vatn. Suða er látin koma upp og soðið hægt í 5 mín. Drykkurinn verður beiskur og því gott að sæta hann með hrásykri eða hunangi að vild.

Fjallagrasakjötsúpa

Þurr fjallagrös eru söxuð niður, ekki of smátt, og sett með þurrkaða grænmetinu í súpuna.

Fjallagrasabrauð

Notist í hvaða brauðuppskrift sem er. Bætið þurrum söxuðum grösunum í mjölið við upphaf deiggerðar.

Fjallagrasasósur/pottréttir

Setjið söxuð fjallagrös út í við upphaf eldunar, eins og þið væruð að nota þurrkaða sveppi eða annað þurrkað grænmeti.

Fjallagrasamjólk

50 g fjallagrös
½ lítri vatn
1 lítri mjólk
½ –1 tsk. salt
2–6 msk. hrásykur eða hunang

Grösin eru látin í pott með vatninu og soðin í 10 –15 mín. eða þar til þau eru orðin meyr. Þá er mjólkinni bætt út í og suðan látin koma upp við mjög lágan hita, hrært í við og við (ef hún ystir má bæta meiri mjólk í). Súpan verður því betri sem hún er soðin lengur. Saltað og sykrað þegar potturinn er tekinn af.

(Uppskriftir af heilsa.is)

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...