Kraftur í ungum bændum
Samtök ungra bænda (SUB) boðuðu til baráttufundar undir yfirskriftinni Laun fyrir lífi ungra bænda og íslenskra sveita. Erindið var rekstrarumhverfi landbúnaðar á Íslandi, sem samtökin segja kominn að fótum fram.
Í ályktun, sem samþykkt var í lok fundar, segir að ungir bændur standi frammi fyrir fjárhagslegum ómöguleika og engin tækifæri séu fyrir ungt fólk sem vilji komast í greinina. Eðlileg nýliðun sé forsenda áframhaldandi landbúnaðar í landinu og þar með fæðuöryggi þjóðarinnar. Ályktunin endar með þessum orðum: „Það er glapræði að leggja íslenskan landbúnað af. Þess vegna þarf að bregðast við án tafar. Seinna er of seint.“
Mæting var með besta móti, en á fundinum voru ekki einungis ungir bændur, heldur einnig eldri starfssystkin, stjórnmálamenn úr öllum flokkum, ráðherrar, fulltrúar fyrirtækja sem þjóna bændum, fjölmiðlafólk og margir fleiri. Setið var í nánast öllum sætum ásamt því sem fimm hundruð manns fylgdust með í beinni. Þá hefur á fimmta þúsund horft á upptökuna þegar þetta er ritað.














