Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Á Ósabakka á Skeiðum rekur Ísak Jökulsson kúabú með 50 mjólkurkúm, auk nautakjötsframleiðslu, ásamt sínum, Jökli Helgasyni.
Á Ósabakka á Skeiðum rekur Ísak Jökulsson kúabú með 50 mjólkurkúm, auk nautakjötsframleiðslu, ásamt sínum, Jökli Helgasyni.
Mynd / smh
Viðtal 3. maí 2024

Kjötmjöl notað til áburðar

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Ísak Jökulsson, kúabóndi á Ósabakka á Skeiðum, hefur á undanförnum tveimur árum gert tilraunir með notkun á kjötmjöli sem hráefni til áburðargjafar og telur sig strax á fyrsta ári hafa sparað sér um helming í kostnaði við kaup á tilbúnum áburði.

„Mestu magni kjötmjölsins dreifi ég með sanddreifara bara beint á túnin á haustin. Ég set á bilinu 800 kíló til 1,5 tonn á hektara. Svo erum við bróðir minn, Logi, með tilraun í gangi þar sem við blöndum saman mykju og mjöli,“ segir Ísak.

Frá áburðartilraun bræðranna Ísaks og Loga Jökulssona, þar sem kjötmjöli og kúamykju er blandað saman til áburðargjafar. Mynd / Ósabakki
Súr jarðvegur

„Fyrir tveimur árum var sumarið reyndar mjög gott þannig að það hefur spilað mikið inn í. En það má gera enn betur hér, held ég. Sýrustig jarðvegsins skiptir miklu máli og hér er meðalgildið um 5,5 sem er of súr jarðvegur. Ég hef kalkað mjög mikið en þetta tekur mörg ár að ná þessu í æskilegt ástand. Mig grunar að lífræni áburðurinn sé viðkvæmari fyrir sýrustigi jarðvegsins.

En jú, á fyrsta árinu gekk mjög vel með kjötmjölið og ég setti þá líka ríflega af kjötmjölinu á landið, um eitt og hálft tonn á hektarann. Í því eru um 150 kíló af köfnunarefni á lífrænu formi, sem er ekki rokgjarnt og gufar því ekki upp svo glatt,“ útskýrir Ísak enn fremur.

Tók 100 tonn á fyrsta ári

Ísak kom inn í búskapinn á Ósabakka árið 2020 þegar hann var að klára nám við Landbúnaðarháskólann í búvísindum og búfræði, en hann situr einnig í stjórn Samtaka ungra bænda. Hann rekur búið með föður sínum, Jökli Helgasyni, en á bænum er stunduð mjólkurframleiðsla, með um 50 mjólkandi árskýr, auk nautakjötsframleiðslu. Jökull er einnig með sauðfjárbúskap, með tæplega 300 kindur með öllu.

„Í raun var það sölumaður hjá Sláturfélaginu (SS) sem seldi mér þessa hugmynd að nota kjötmjölið. Held það hafi verið frekar lítill áhugi hjá bændum að nota þetta hráefni. Ég hef verið í samvinnu við Orkugerðina sem framleiðir þetta kjötmjöl og fyrirtækið er auðvitað í eigu SS og nokkurra annarra kjötafurðastöðva hérna. Ég tók 100 tonn strax á fyrsta ári.

Tilraunin er á nokkuð stórum skala, þetta eru 13 hektarar. Tvö tún, eitt tiltöluleg nýtt en lokað 2017 og eitt gamalt sem ekki hefur verið nýtt síðustu 50 árin. Tvö mismunandi tún og þrjár meðferðir á hvoru túni. Þetta er talsvert umstang á annasömum tíma en vel þess virði og sérstaklega þegar við verðum búnir að auka vinnuhagræðið við þetta,“ segir Ísak.

Frá áburðartilraun bræðranna Ísaks og Loga Jökulssona, þar sem kjötmjöli og kúamykju er blandað saman til áburðargjafar. Mynd / Ósabakki

Kemur ekki alveg í stað tilbúins áburðar

„Í fyrra var sumarið skrýtið og ég held að niðurstöður séu ekki marktækar varðandi uppskeruna þá. Í tilraun okkar Loga mælum við allt vísindalega, en það er hluti af námi hans í búvísindum á Hvanneyri. Við tókum því fagnandi þegar Orkugerðin sýndi áhuga á að koma að þessum tilraunum. Það er alveg ljóst að þessi blanda virkar vel, en ég held að þetta komi ekki alveg í staðinn fyrir tilbúna áburðinn.

Ég er sjálfur með búvísinda­menntun og hef mikinn áhuga á því hvernig hægt er að auka hagræðið í búskapnum og hagkvæmni á allan hátt. Ég fór því bara beint á netið þegar ég hafði heyrt í sölumanninum hjá SS og stúderaði notkunarmöguleikana á kjötmjölinu. Svo talaði ég við Eirík Loftsson, jarðræktarráðunaut hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, sem gerði áburðaráætlun fyrir mig.“

Minni takmarkanir erlendis

Á Íslandi má ekki dreifa kjötmjölinu á beitilönd eða lönd sem notuð eru til fóðurframleiðslu síðar en 1. desember árið áður, en þau eru nytjuð og skal landið þá friðað fyrir beit til 1. apríl í það minnsta. Slakað hefur verið á kröfum um notkun kjötmjöls sem voru mjög stífar í kjölfar þess að kúariðufaraldur geisaði á Bretlandseyjum á níunda og tíunda áratug síðustu aldar, sem rakinn var til smitaðra sláturafurða og kjötmjöls sem notað var í fóður fyrir nautgripi. Sýnt var fram á tengsl kúariðu við hinn banvæna Creutzfeldt­Jakob­ sjúkdóm í mönnum.

„Staðreyndin er sú að þetta er notað sem áburður erlendis, þar sem víða eru minni takmarkanir á notkuninni en hér á landi,“ segir Ísak. „Vegna meðhöndlunarinnar hér í Orkugerðinni á ekki að vera mögulegt að kúariðusmit berist með dýraleifum. Svo tekur fyrirtækið ekki heldur við heilum skrokkum jórturdýra til förgunar,“ bætir hann við.

Hugðist nota seyruna

Við leit Ísaks á netinu á möguleikum lífræns hráefnis sem mætti nota sem áburð, fann hann skýrslu sem Matís gaf út um greiningu á magni lífrænna áburðarefna á Íslandi í lífrænum úrgangi.

„Þar kom fram að heildarmagn næringarefnanna væri í svipuðu magni og í innfluttum tilbúnum áburði. Ég byrjaði bara á að fara til Hveragerðisbæjar og athuga möguleikann á því að fá að nýta seyruna frá þeim og mér stóð til boða að fá 200 tonn þar. En síðan skoðaði ég hvort það myndi standast lög að nýta hana hreinsaða. Þá kom í ljós að það voru ákveðin vandamál á því, til dæmis þyrfti að hvíla landið í heilt ár eftir að búið væri að plægja hana niður. Sem er í raun alveg galið. Mesta hættan af nýtingu á henni er talin vera af þungmálmum, en eins og í Hveragerði þá er gildi þeirra þar tíu sinnum lægri en viðmiðunargildin.

Hér eru fordómar gagnvart nýtingu á seyru, en slík notkun er algeng erlendis. Ég hef séð umfjallanir um notkun bandarískra garðyrkjubænda á seyru fyrir sína grænmetisræktun. Þetta er löglegt þar, þó það sé ekki mikið auglýst. Þetta er voðalega viðkvæmt mál alls staðar en þó er þetta elsta aðferð okkar til að gera jörðina frjósamari.“

Ísak segir að ýmsir möguleikar séu í boði til betri nýtingar á öllum þessum lífræna úrgangi og næringarefnum sem renni til sjávar í dag. Hann bendir til dæmis á möguleika á lífkolagerð, úr seyrunni og öðru lífrænu hráefni, með „hydrokolaframleiðslu“ sem sé skilvirk leið til að nýta kolefnið sem best, auk þess sem gösin varðveitist einnig.

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...