Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Laurus nobilis er sú tegund lárviðar sem mest er ræktuð og við þekkjum sem lárviðarlauf.
Laurus nobilis er sú tegund lárviðar sem mest er ræktuð og við þekkjum sem lárviðarlauf.
Á faglegum nótum 1. mars 2019

Lárviður og lárviðarlauf

Höfundur: Vilmundur Hansen

Grikkir og Rómverjar litu á lárvið sem tákn um sigur og í frumkristni var sígræna lárviðarins til þess að litið var á hann sem tákn um eilíft líf og voru látnir lagðir í lárviðarlauf. Í dag eru lárviðarlauf mikið notað krydd sem er að finna í flestum eldhúsum landsins.

Tyrkland er stærsti framleiðandi lárviðarlaufs í heiminum og hefur framleiðslan þar í landi vaxið úr um 1000 tonnum árið 1995 í rúm 8000 tonn árið 2016 sem er 97% af lárviðarlaufi á heimsmarkaði. Framleiðsla í öðrum löndum er nær eingöngu til notkunar á heimamarkaði.

Talið er að markaður fyrir lárviðarlauf eigi eftir að aukast á næstu árum og áratugum og óvíst að Tyrkland muni sitja eitt að markaðinum lengi.

Lárviðarlauf og ber.

Ekki fundust upplýsingar um magn innflutts lárviðarlaufs til Íslands á vef Hagstofu Íslands þar sem magnið er skráð með innflutningi á öðrum kryddum. Samkvæmt upplýsingum frá Mata heildverslun flutti fyrirtækið inn 16 kíló af ferskum lárviðarlaufum árið 2018 auk þess sem fleiri aðilar flytja inn ferskt og þurrkað lárviðarlauf í neytendapakkningum. Gróft má ætla að heildarinnflutningur á lárviðarlaufi til landsins sé milli 40 og 60 kíló á ári.

Ættkvíslin Laurus

Ekki er vitað fyrir víst hversu margar tegundir teljast til ættkvíslarinnar Laurus en í dag eru þær sagðar tvær eða þrjár, L. azorica, sem er upprunnin á Asóreyjum úti í miðju Atlantshafi og ræktað á Spáni, L. novocanariensis er upprunnin á Kanaríeyjum og Madeira og L. nobilis og er upprunnin fyrir botni Miðjarðarhafs og Tyrklandi. Tegundirnar eru líkar í útliti og erfðabreytileiki milli þeirra lítill og margir hallast að því að L. azorica og L. novocanariensis sé staðbrigði af sömu tegund.

Lárviðir eru sígrænir og ilmandi runnar eða tré með trefjarót. Blöðin gljágræn, heilrennd og ílöng. Einkynja plöntur með gulum karl- og kvenblómum sem mynda græn og síðan svört steinaldin eftir frjóvgun.

L. nobilis er sú tegund sem mest er ræktuð og við þekkjum sem lárviðarlauf.

Laurus nobilis

Ilmandi, hægvaxta stórrunni eða tré sem getur náð 18 metra hæð. Blöðin glansandi græn heilrennd og stundum bylgjótt, sex til tólf sentímetra löng og tveir til fjórir að breidd og innihalda mikla olíu. Sérbýlisplöntur sem eru annaðhvort karl- eða kvenkyns. Blómin fjögur til fimm saman í litlum sveip, gul og frjóvgast með vindi eða skordýrum. Aldinið um sentímetri að lengd, svart og með einu fræi sem svipar til ólífu.

Þrífst best við 8 til 27° á Celsíus, kýs mikla sól og hátt rakastig. Þolir að hitastig fari rétt undir núll gráður en kelur í frosti. Í ræktun dafnar plantan best í djúpum, rökum en vel framræstum og margs konar jarðvegi með pH 4,5 til 8,3.

Lauf trjánna endist yfirleitt í þrjú ár en þykir best til notkunar á fyrsta eða öðru ári.
Auk yrkja af lárvið til framleiðslu á lárviðarlaufi eru til yrki sem ræktuð eru sem skrautrunnar. Má þar nefna yrkin "Aurea", "Crispa" og "Angustifolia" sem öll eru ræktuð vegna lauffegurðar. 

Nafnaspeki

Ættkvíslarheitið Laurus þýðir sigur en tegundarheitið nobilis hefð, hefðarmaður eða -kona.

Á ensku kallast lárviður bay tree, bay laurel, Greek laurel, laurel eða bay leave. Á frönsku er heitið laurier, bagié og laurier d´Appolon og á þýsku lorbeerbaum og mutterlorbeerbaum. Hollendingar kalla laufið laurier og baetere en Danir laurbærblad.

Það sem í dag kallast bachelor eða fyrsta gráða í háskólanámi kallaðist áður og gerir víða enn baccalauret-gráða og er heitið dregið af lárviðarsveig sem háskólanemar fengu við útskrift.

Í Bretlandi er á hverju ári kosið lárviðarskáld og þykir slíkt val mikill heiður fyrir þann sem kosinn er hverju sinni.

Lárviðargræðlingur.

Saga og symbólismi

Vísbendingar eru um að víðáttumiklir lárviðarskógar hafi fyrr á tímum, þegar hita- og rakastig á jörðinni var hærra en núna, vaxið á stórum svæðum umhverfis Miðjarðarhafið og á svæðum í Norður-Evrópu og norður til Íslands. Talið er að síðustu leifar lárviðarskóganna hafi horfið við Miðjarðarhafið fyrir um tíu þúsund árum og í dag eru eftirhreytur þeirra að finna í fjalllendi Tyrklands, Sýrlands, Marokkó, á Spáni, Portúgal og á Madeira, Kanarí- og Asóreyjum.

Fundist hafa steingervingar af ýmsum framandi plöntum sem uxu á Íslandi á seinni hluta tertíertímabilsins fyrir 10 til 15 milljónum ára. Þar á meðal magnolíur, túlípantré og lárviður.

Hver veit nema að áframhaldandi hlýnun jarðar eigi eftir að valda því að lárviðarskógar breiði úr sér að nýju og klæða stór svæði í Evrópu aftur í framtíðinni.

Grikkir tengdu lárvið við vatnadísina Dafne og guðinn Apollon. Segir sagan að Gaia, Móðir jörð eða faðir hennar Pendus, guð áanna, hafi breytt Dafne í eyjuna Krít þegar að guðinn Apollon reyndi að draga dísina á tálar og sett lárviðarrunna í hennar stað. Sorg Apollon varð djúp þegar í stað dísarinnar fögru stóð lárviðarrunni fyrir framan hann. Í skúffelsi sínu fléttaði Apollon greinasveig úr greinum runnans og sagði að fyrst að Dafne gæti ekki verið ástmey hans skyldi hún þá vera tréð hans og skreyta höfuð hans. Í annarri útgáfu goðsagnarinnar segir að Gaia hafi breitt Dafne í lárvið en ekki eyjuna Krít.

Marmarastytta sem sýnir umbreytingu Dafne í lárvið vegna ágengni Apollon. Styttan er eftir ítalska myndhöggvarann Bernini og gerð á árunum 1622 til 1625.

Sveigir úr greinum lárviðar voru virðingar- og sigurtákn í Grikklandi til forna. Kappar sem unnu íþróttakappleiki eins og ólympísku leikana voru heiðraðir með lárviðarkransi, höfuðfati Apollons.

Gríska skáldið Lusian segir að spákonan Pythia hafi tuggið lauf lárviðarrunna sem óx í musteri Apollons í gríð og erg til að komast í spádómsstuð. Þegar þannig var komið fyrir spákonunni fyllti sjálfur Apollon vit hennar og talaði í gegnum hana. Á öðrum stað segir að hún hafi hrist runnann látlaust á meðan hún setti fram spádóma. Þeir sem fengu gæfulega spá frá Lusianu voru krýndir með lárviðarsveigi sem tákn um að Apollon væri þeim hliðhollur.

Grikkir töldu gott að hengja lárviðarsveig yfir dyr til að bægja frá illum öndum og uppvakningum.

Peiton, fyrrum lífvörður Alexanders mikla, var gerður að landstjóra í Medíu eftir dauða Alexanders 323 fyrir Kristsburð. Árið 311 fyrir upphaf okkar tímatals lét Peiton slá gullmynt Alexander til heiðurs. Á framhlið myntarinnar er mynd af Alexander mikla en á bakhliðinni er mynd af Aþenu, gyðju viskunnar og hernaðarkænsku, þar sem hún heldur á lárviðargrein.

Lárviður var sigurtákn Rómverja til forna og þeir tengdu hann einnig við ódauðleika, ríkidæmi og góða heilsu. Greinar lárviðarins þóttu líka hreinsandi við helgiathafnir.

Rómverjinn Plini eldri sagði að ekki mætti brenna lárviðargrein á fórnaraltari vegna þess að það stuggaði guðunum frá. Auk þess sem viðurinn sjálfur brestur og gneistra frá sér í mótmælaskyni sé hann brenndur.

Ágústínus, fyrsti rómverski keisarinn, var með lárvið í potti hvort sínum megin við innganginn að húsi sínu á Palatinus-hæð í Róm og var húsið sambyggt musteri tileinkað Apollon sem Ágústínus lét reisa. Með þessu er sagt að Ágústínus hafi viljað undirstrika tengsl sín við guðinn og að hann sjálfur væri sigursæll.

Til er saga sem segir að Livia Drusilla, eiginkona Ágústínusar og fyrsta keisaraynjan í Róm, hafi gróðursett lárvið í garðinum við höll sína Prima Porta. Sagan segir að keisaraynjan hafi setið í garðinum þegar örn á flugi missti fullvaxinn hana með lárviðargrein í gogginum í kjöltu hennar. Upp af greininni, sem Livia gróðursetti, óx tré sem síðar varð að heilum lárviðarlundi sem undirstrikaði enn frekar sigursæld Ágústínusar keisara.

Þar sem lárviður þótti góður eldingavari bar Tíberíus, annar Rómarkeisari, ávallt  lárviðarsveig á höfðinu í þrumuveðri til að forðast eldingar. Hluti af þessari trú stafaði af því að Rómverjar sögðu að himneskir elddjöflar sem væru ónæmir fyrir eldingum ættu sér ból í lárviðartrjám.

Sagt er að seinni tíma keisarar hafi látið flétta fyrir sig sveig úr trénu sem Livia gróðursetti sem tákn um gæfu. Það þótti einnig tákn um mikla ógæfu að trjálundurinn skyldi drepast skömmu eftir að Neró keisari var ráðinn af dögum.

Árið 311 fyrir upphaf okkar tímatals var slegin gullmynt Alexander mikla til heiðurs.

Rómverjakeisarar báru lárviðarsveig í sigur- og skrúð-göngum og enn í dag skreytir lárviðarsveigur oft höfuð sigurvegara í kappaksturskeppnum þegar þeir skjóta tappanum úr kampavínsflöskunni.

Á miðöldum taldist lárviður til sólplantna og með tengsl við stjörnumerki ljónsins og veita vörn gegn nornum og púkum djöfulsins.

Í frumkristni var sígræna lárviðarins til þess að litið var á hann sem tákn um eilíft líf og voru látnir lagðir í lárviðarlauf. Þessi siður gæti einnig átt sér uppruna í að lárviður er ilmsterkur og því góður til að halda nálykt í skefjum. Sagt er að María mey hafi aldrei verið andfúl þar sem andardráttur hennar og orð ilmuðu  af lárvið. Frumkristnir litu einnig á lárvið sem tákn um nýtt líf í Kristi og skírlífi sem gæti átt rætur í sögunni um Dafne og Apollon. Allt fram á síðustu öld voru lárviðarblöð lögð í götuna sem bera skyldi líkkistu til greftrunar í Wales.

Í kínverskum goðsögnum um tunglið segir frá stórum skógi lárviðartrjáa sem óx upp og dó milli þess sem tunglið var nýtt og fullt. Í einni útgáfu sögunnar segir að skógarhöggsmaðurinn Wu Gang hafi verið dæmdur vegna glæpa sinna til að fella trén jafnóðum og þau uxu upp um alla eilífð.

Til er dönsk farmskrá frá 1434 sem sýnir að kaupskip flutti þrjú tonn af lárviðarlaufi sjóleiðina til Kaupmannahafnar frá Danzig, sem er Gdansk í Póllandi í dag.

Lárviður í draumi er sagður merkja sigur, gleði og velgengni. Ógiftu fólki getur lárviður verið fyrir giftingu eða barni.


Nytjar

Lárviður einn og sér eða í krydd­blöndum er mikið notaður til matargerðar í löndunum allt í kringum Miðjarðarhafið. Sem dæmi eru lárviðarlauf notuð til að gefa ítölskum pastasósum rétta ilminn en oftast fjarlægð áður en rétturinn er borinn fram enda ilmur þess yfirleitt sterkara en bragðið. Ferskt lauf er fremur rammt á bragðið.

Þurr og mulin lárviðarlauf eru góð í súpur og algengt að það sé notað til að bragðstyrkja drykkinn sem kenndur er við Bloody Mary. Lárviðarlauf var notað til að bragðbæta bjór og vín bæði í Asíu og Evrópu.

Laufið geymist vel og er sagt að hillulíf þess sé um það bil ár. Úr laufinu og aldininu er unnin olía og sé viðurinn brenndur gefur hann frá sér sterkan lárviðarilm.

Þurrkuð lárviðarlauf.

Úr olíu lár­viðar eru unnin varnar­efni gegn stungu moskítóflugna og viðurinn þykir góður í skrautmuni.

Lárviðarlauf og skordýrasöfnun

Skordýrasafnarar nota gjarnan fersk lárviðarlauf til að drepa skordýr áður en þau eru sett upp. Laufið er sett í botn krukkunnar og pappír yfir. Eftir að paddan hefur verið sett í krukkuna og henni lokað sjá efni sem gufa upp af laufinu um að drepa kvikindið á skömmum tíma.

Alþýðulækningar

Hippókrates sagði að blöð, aldin, börkur og rætur lárviðar væru græðandi bæði inn- og útvortis. Hann segir gott fyrir konur að anda að sér viðarreyk trjánna til lækningar á kvensjúkdómum eins og hann orðaði það, en á við að reykurinn geti valdið fósturláti. Í gömlum evrópskum lækningabókum segir að laufið gagnist gegn magakveisum, nýrnaveiki og gigt.

Pliny eldri sagði lárviðarolíu meðal annars góða gegn lömun, ósjálfráðum hreyfingum, krampa, máttleysi, mari, höfuðverk, bólgum og sýkingu í eyra.

Svíinn Olaus Martini segir í bók sinni En liten Läriare Book frá því á 16. öld að karlmenn sem misst hafi getuna til að sinna konu sinni eiga að nudda punginn með lárviðarolíu til að öðlast þrótt að nýju.

Í dag er lárviðarolía notuð sem ilmefni í nuddolíu og græðandi smyrsl grasalækna. Hún er í sápu sem kennd er við Aleppó í Sýrlandi eða það sem eftir er af borginni eftir borgarastyrjöld, loftárásir hinna viljugu Nató-þjóða, eiturefnahernað, þurrka og hungursneyð sem staðið hefur frá 2011 og kostað yfir 350 þúsund manns lífið.

Lárviðarlauf og lárviðarlaufslíki til matargerðar

Víða um heim er að finna plöntur sem notaðar eru á svipaðan hátt og lárviðarlauf enda með svipaðan ilm og bragð. Þar á meðal er lauf Umbellularia californica sem kallast Kaliforníulárviður, Oregonmyrta eða piparviður. Á Indlandi, í Indónesíu, Vestur-Indíum og Mexíkó eru lauf trjáa sem kallast Cinnamomum tamala, Syzygium polyanthum, Pimenta racemosa og Litsea glaucescens brúkuð á svipaðan hátt og lárviðarlauf til matargerðar.

Á Indlandi og í Pakistan eru lauf plantna sem gefa svipað bragð og lárviður notuð í alls kyns hrísgrjónarétti og í kryddið gara masala, sem margir nota í kjúklingarétti.

Lárviðarlauf eru höfð í súpur, sósur, kássur og með fiski og þau eru ómissandi þegar elda skal purusteik og sem krydd í marineraða síld á danska mátann.

Dönsk purusteik með lárviðarlaufi. 

 

Lárviður og lárviðarlauf á Íslandi

Ekkert er því til fyrirstöðu að rækta lárvið í gróðurskála eða sem stofuplöntu á Íslandi sé vel hugsað um plöntuna. Í nágrannalöndum er lárviður víða ræktaður innan dyra, en settur út í pottunum yfir heitasta tíma ársins. Yfir vetrartímann þarf plantan að vera við um 10° á Celsíus og þarf litla vökvun.

Í Þjóðólfi frá því í maí 1880 segir að þegar kistur Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar Einarsdóttur komu til landsins til greftrunar hafi kransinn frá Norðmönnum verið „listaverk og dýrgripur; eru blöð hans öðrum megin eins og lárviðarlauf, en öðrum megin eins og eikarblöð.“

Aldamótaárið 1900 eru lárviðarlauf auglýst til sölu ásamt öðrum nýlenduvörum H.Th.A Thomsen í Reykjavík.

Samkvæmt hagskýrslu um utanríkisverslun voru flutt til landsins 4910 kíló af lárviðarlaufi árið 1922. Þar af tæplega þrjú tonn frá Danmörku, 1,3 tonn frá Noregi og 652 kíló frá Svíþjóð. Samkvæmt þessu hefur dregið verulega úr innflutningi og notkun á lárviðarlaufi hér frá því á öðrum áratug síðustu aldar. Einnig er hugsanlegt að mun meira hafi verið flutt inn af óþurrkuðum lárviðarlaufum og laufi á greinum sem eykur talsvert vigt í flutningi.

Sagt er að gott sé að brenna lárviðarlauf eins og reykelsi til að róa taugarnar og minnka streitu.

Sagt er að gott sé að brenna lárviðarlauf eins og reykelsi til að róa taugarnar og minnka streitu.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...