Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 ára.
Bændahöll í sögulegu samhengi
Leiðari 20. nóvember 2014

Bændahöll í sögulegu samhengi

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson

Eitt af einkennum höfuðborgarinnar er hið glæsilega hús við Hagatorg sem hýsir starfsemi Radisson Blu Hótel Sögu og er í daglegu tali kallað Bændahöllin. Byggingin gnæfir yfir Vesturbænum og sést víða að á höfuðborgarsvæðinu.

Bændahöllin hefur alla tíð verið í eigu íslenskra bænda og nú í desember verða liðin 50 ár frá því að allir starfsmenn samtaka bænda sameinuðust þar undir einu þaki. Það vekur því eðlilega athygli sem greint er frá hér í blaðinu í dag að Bændasamtökin hafa ákveðið að bjóða þessa fasteign sína til sölu.

Bændahús í Reykjavík

Byggingarsaga Bændahallarinnar er um margt mjög merkileg en hún er að hluta til rakin í afmælisriti Búnaðarfélags Íslands, Búnaðarsamtök á Íslandi 150 ára. Óhætt er að segja að aðdragandinn hafi verið æði langur. Árið 1906 reisti Búnaðarfélag Íslands sér hús við Lækjagötu 14, við hliðina á Iðnó, en þetta glæsilega hús var friðað 1978. Fljótlega kom upp umræða meðal fulltrúa á Búnaðarþingi að húsið væri of lítið og huga þyrfti að nýrri húsbyggingu. Á mörgum Búnaðarþingum á þriðja og fjórða áratug seinustu aldar er talað um mikilvægi þess að byggja nýtt hús sem eigi að vera höfuðsetur og heimili Búnaðarfélags Íslands og aðseturs-og samkomuhús bænda í höfuðstað landsins. Lögð var áhersla á að auk skrifstofa yrði í húsinu gistiaðstaða fyrir bændur sem leið ættu í kaupstað, matsala, húsrúm til fundarhalda og hesthús.
Mörg ár fóru í það að finna hentuga lóð og leiðir til að fjármagna framkvæmdirnar og voru húsnæðismálin ítrekað rædd. Það var svo árið 1941 sem samþykkt var á Búnaðarþingi að reisa bændahús í Reykjavík og árið 1948 veitti Gunnar Thoroddsen, þáverandi borgarstjóri, lóðarleyfi við Hagatorg fyrir húsið. Þann 11. júlí 1956 tók Steingrímur Steinþórsson landbúnaðarráðherra fyrstu skóflustunguna að Bændahöllinni, 15 árum eftir að áformin um bygginguna voru samþykkt.

Það gekk á ýmsu við að fjármagna framkvæmdirnar. Sækja þurfti um sérstakt fjárfestingaleyfi vegna byggingarinnar hjá svokallaðri innflutnings- og gjaldeyrisnefnd ríkisins.  Með breytingu á búnaðarmálasjóðsgjaldi var 0,5% af söluvörum landbúnaðarins varið til framkvæmdanna. Búnaðarfélagið og nýstofnað Stéttarsamband bænda stóðu sameiginlega að byggingunni og höfðu náð að safna nokkrum sjóði auk þess sem loks fékkst leyfi til lántöku vegna framkvæmdanna.

Hinn 11. mars 1961 lagði þáverandi forseti Íslands, hr. Ásgeir Ásgeirsson, hornstein að Bændahöllinni. Það er svo sumarið 1962 sem fyrstu gestirnir gista á Hótel Sögu.

Það voru stórhuga menn sem réðust í slíkar framkvæmdir fyrir rúmlega hálfri öld. Ekki er hallað á neinn þótt hér sé nefndur Þorsteinn Sigurðsson, bóndi á Vatnsleysu og formaður Búnaðarfélagsins, á þessum tíma. Þorsteinn var gífurlega mikill baráttumaður fyrir byggingu Bændahallar og setti mikinn kraft í að vinna að framgangi þess að byggja „fyrirmyndarhótel á heimsmælikvarða“, eins og Ásgeir Bjarnason kemst að orði í minningarorðum um Þorstein árið 1974.

Um 25 árum eftir opnun hótelsins var tekin í notkun nýbygging norðan við Bændahöllina þar sem áhersla var lögð á ráðstefnuhald og herbergi fyrir kaupsýslumenn, eins og það er orðað í fjölmiðlum þess tíma.

209 herbergi og veislu- og ráðstefnusalir

Í rúma hálfa öld hefur Hótel Saga/Bændahöllin gegnt veigamiklu hlutverki í samkvæmis- og menningarlífi höfuðborgarbúa. Margir íslenskir og erlendir tónlistarmenn og skemmtikraftar hafa stigið á svið í sölum hótelsins. Þá hefur fjöldi heimsfrægra gesta gist á hótelinu, poppstjörnur, geimfarar, leiðtogar erlendra ríkja og kóngafólk. Enn fremur hafa margir merkir fundir verið haldnir á hótelinu eins og t.d. NATO-fundur 1968  og hótelið undirlagt í tengslum við leiðtogafund Reagans og Gorbatsjovs árið 1986.
Í dag er hótelið í eigu Hótels Sögu ehf. sem er 50 ára gamalt fyrirtæki í eigu Bændasamtaka Íslands. Á hótelinu eru 209 herbergi, tíu funda- og veislusalir og tveir veitingastaðir. Þar starfa um 100 manns. Fasteign Hótels Sögu ehf. við Hagatorg er um 19.000 fermetrar að stærð og auk hótelstarfsemi hýsir það banka, hárgreiðslustofu, líkamsræktarstöð o.fl. Skrifstofur Bændasamtaka Íslands eru enn á þriðju hæð eins og verið hefur undanfarin 50 ár.

Samkomulag í höfn um endurfjármögnun í kjölfar efnahagshruns

Eftir efnahagsrunið 2008 þyngist rekstur hótelsins eins og raunin varð með mörg fyrirtæki á landinu. Í lok ársins 2013 var skrifað undir samkomulag við Arion banka um frágang skulda sem fólst í því að BÍ lagði félaginu til nýtt hlutafé og hluti langtímaskulda var endurfjármagnaður. Samkomulagið fól einnig í sér að Bændasamtökin og Hótel Saga framseldu hlutabréf sín í Hótel Íslandi, sem samtökin keyptu af Búnaðarbankanum 1994 eftir að hafa rekið það fyrir bankann í tvö ár á undan.

Rekstur á Hótel Sögu hefur gengið vel undanfarin misseri enda mikil gróska í ferðaþjónustu hér á landi. Bókanir hafa því aukist mikið og nýting hefur batnað til muna yfir vetrarmánuðina.

Hvað er best fyrir bændur?

Bændasamtökin verða á hverjum tíma að leita allra leiða til þess að ávaxta eignir sínar með viðunandi hætti. Sú staða sem nú er uppi í ferðaþjónustu er tilvalin til að skoða hvort það geti verið hagfellt fyrir Bændasamtökin að eftirláta sérhæfðan hótelrekstur í hendur aðila sem vilja byggja sig upp á þeim vettvangi en ávaxta þess í stað eignir samtakanna með öðrum hætti.

Það er mat stjórnar Bændasamtakanna að nú sé rétti tíminn til að fara yfir þessa stöðu í heild. Bændahöllin á sér mikla sögu, eins og að framan greinir. Eftir sem áður þurfa Bændasamtökin ávallt að vera sem best búin til að berjast fyrir hagsmunum íslenskra bænda. Eignatekjur eru mikilvægur hluti af fjármögnun félagsstarfs á hverjum tíma. Ef það er hægt að efla félagsstarfið með því að koma eignum samtakanna fyrir með öðrum hætti en nú, þá eigum við að gera það.

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...