Að hrökkva eða stökkva
Við sögðum frá því á dögunum að sex impar hefðu að meðaltali verið skoraðir í spili í bikarleik sem leikinn var í bikarkeppni Bridgesambands Íslands í sumar.
Það er ansi fjörlegt. En svo hefur maður stundum spilað leiki þar sem flest spil falla og ekkert virðist vera í gangi. Spilaguðirnir eru í mismunandi skapi frá degi til dags.
En hér er sagnvandamál sem umsjónarmaður fékk sjálfur í fangið í bikarleik 26. júní síðastliðinn þegar sveit Kjöríss lék gegn TM Selfossi.
Fyrsta spilið í leiknum:
xx-ÁKD98-D8-ÁD87
Ég opna á hjarta og þú hefðir væntanlega gert það líka. Andstæðingur á vinstri hönd stekkur í 4 spaða. Makker segir 5 hjörtu og þú átt sögn. Allir eru utan hættu.
Ef ég á að segja alveg eins og er þá vissi ég ekkert hvort ég ætti að vaða áfram eða passa en nennti ekki að fara niður á slemmu í fyrsta spili í 40 spila leik þannig að pass varð niðurstaðan. Sem ég sá strax að hefði verið vond ákvörðun þegar makker minn, Helgi Bogason, lagði upp spaðaás blankan, ríflegan trompstuðning, ÁG í tígli og gosann fjórða í laufi. Slemman var sem sagt mjög góð og 12 slagir á báðum borðum. Laufið lá reyndar öfugt 4-1 en til hliðar var tígulsénsinn og kóngur reyndist blankur hjá andstæðingi á vinstri hönd.
Kannski hefur mótherji minn hugsað eitthvað svipað og ég – að það væri þó skömminni skárra að missa af slemmu í fyrsta spili en að fara niður á henni.
Andstæðingur á vinstri hönd gerði aftur á móti vel með 4 spaða sögninni með aðeins 7 spaða en fjórlit til hliðar – sem oft skiptir sköpum þegar hindrunarstig er valið.
Keppt var í bridds á landsmóti 50 ára og eldri í Ólafsfirði fyrir skemmstu. Ágæt þátttaka varð. Sveit Bjarkar Jónsdóttur vann mótið en auk hennar skipuðu liðið Ásgrímur Sigurbjörnsson, Jón Sigurbjörnsson og Ólafur Jónsson.
Í öðru sæti varð sveit ML en hana skipa Bjarni Brynjólfsson - Guðmundur Þorkelsson - Hallgrímur Hallgrímsson - Ingibjörg Guðmundsdóttir - Pétur Z. Skarphéðinsson - Sigmundur Stefánsson
Í þriðja sæti varð sveit UMSE en hana skipa Gústaf Þórarinsson - Hákon Sigmundsson - Jóhannes Tr. Jónsson - Kristján Þorsteinsson.
Met slegið í sumarbridds
Það hefur verið ansi fjörlegt í sumarbridds í Síðumúlanum undanfarið. Metþátttaka og margir nýir spilarar. Sumarbridds fer fram mánudags- og miðvikudagskvöld.
Bergur Reynisson hefur skorað mest allra spilara í sumar og er bronsstigaforði hans orðinn æði þéttur.
Briddsþáttur Bændablaðsins skorar á heimaspilara sem langar að láta reyna á keppni í klúbbi að líta við í höfuðstöðvum BSÍ í Síðumúlanum næst þegar keppt verður í sumarbridds. Vel er tekið á móti nýliðum og jafnvel hægt að aðstoða við myndun para.
