Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Bylting í smáframleiðslu matvæla og flóran afar fjölbreytt
Lesendarýni 28. apríl 2021

Bylting í smáframleiðslu matvæla og flóran afar fjölbreytt

Höfundur: Oddný Anna Björnsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka smáframleiðenda matvæla

Það má með sanni segja að bylting hafi átt sér stað í smáframleiðslu matvæla hér á landi á síðastliðnum áratug og fjölgunin undanfarin misseri nánast í veldisvexti. Tilfinningin er sú að hátt í vikulega hefji aðili framleiðslu á matvælum einhvers staðar á landinu. Það skemmtilegasta við þá þróun er hve fjölbreytt matvælin eru og hve bakgrunnur, staðsetning og aðstæður framleiðendanna eru ólíkar.

Í Samtökum smáframleiðenda matvæla eru um 130 félagsmenn með fulla aðild. Af þeim er tæplega helmingur á lögbýli, þriðjungur á höfuðborgarsvæðinu og ríflega fimmtungur í bæjarfélagi utan höfuðborgarsvæðisins.

Meginvöruflokkur þriðjungs félagsmanna eru plöntuafurðir, hunang og salt. Plöntuafurðir eru vörur eins og sultur, sósur, súrkál, sinnep, pestó, kex og réttir fyrir grænkera. Meginvöruflokkur fjórðungs félagsmanna eru svo kjötafurðir. Aðrir vöruflokkar eru bakstur og sætindi, mjólkurvörur, ís og sorbet og fiskafurðir og sjávarfang. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér fjölbreytnina geta farið inn á vef samtakanna (ssfm.is) og smellt á flipann Félagsmenn.

Samkvæmt samþykktum Sam­taka smáframleiðenda matvæla er smá­framleiðandi aðili sem við uppgjörs­dag er með hreina veltu undir 100.000.000 kr. Engin starfsmannafjölda- eða veltutengd opinber skilgreining á smáframleiðanda er til hér á landi og þær erlendu eiga ekki við, því mikill meirihluti íslenskra fyrirtækja myndi falla undir þær.

Atvinnueldhús og heimavinnslur á lögbýlum

Í samtökunum eru aðilar sem eru allt frá því að vera í undirbúningsferli (ekki byrjaðir að framleiða) upp í fyrirtæki sem eru með hátt í hundrað milljóna króna veltu og allt þar á milli. Langflestir eru þó með veltu langt undir 10 milljónum á ári og framleiða vörurnar samhliða sínu meginstarfi / öðrum rekstri. Færst hefur í vöxt að einstaklingar án atvinnu hefji slíka framleiðslu, sem er afar jákvætt, enda sú nýsköpun sem verið er að kalla eftir nú á tímum Covid. Um 10% félagsmanna eru af erlendu bergi brotin og fjölgar þeim jafnt og þétt.

Samkvæmt matvælalögum er óheimilt að framleiða matvæli í heimahúsum. Krafa er gerð um að matvæli séu framleidd í vottuðum vinnslum eða atvinnueldhúsum. Bændur hafa því í auknum mæli komið á fót svokölluðum heimavinnslum á býlum sínum og opinberir eða einkaaðilar sett á fót vinnslur og atvinnueldhús sem smáframleiðendur hafa aðgang að til að framleiða vörur sínar. Dæmi um það er Matís sem var frumkvöðull á því sviði og kom að uppsetningu matarsmiðja víða um land, Eldstæðið í Kópavogi, Ljómalind í Borgarnesi og Vörusmiðjan BioPol á Skagaströnd, þar sem fjölmargir félagsmenn framleiða sínar vörur. Ávinningurinn af því er mikill, enda kostnaðarsamt að koma upp eigin aðstöðu, kaupa öll tæki og tól sem þarf til framleiðslunnar og standast úttekt opinberra eftirlitsaðila. Þessi valkostur er því oft lykillinn að því að fólk hafi möguleika á að hefja framleiðslu og kanna hvort markaður sé fyrir vöruna.

Sívaxandi áhugi og meðvitund

Samhliða þessari þróun hefur meðvitund og áhugi almennings á vörum matarfrumkvöðla og að styðja smáframleiðendur með því að leitast eftir að kaupa vörur þeirra aukist. Skilningur á mikilvægi nýsköpunar á sviði matvæla, verðmæti og menningarlegri sérstöðu matarhandverks og eftirspurn eftir hágæða „gourmet“ vörum er jafnframt sívaxandi.

Eitt af lykilverkefnum samtakanna er að kynna og þróa nýjar söluleiðir fyrir smáframleiðendur, meðal annars með því að stuðla að því að vörur félagsmanna séu teknar inn í vöruval almennra matvöruverslana, að þeim sé gert hátt undir höfði og gerðar bæði aðgengilegri og aðgreinanlegri viðskiptavinum. Það hefur verið auðsótt enda gera stjórnendur Krónunnar, Samkaupa, Hagkaups og Heimkaupa sér grein fyrir þessari þróun og hafa tekið vel í okkar umleitanir, hver á sinn hátt.

Aðilar sem sérhæfa sig í að bjóða og kynna vörur smáframleiðenda og eru með persónuleg tengsl við framleiðendur og þjónustu við viðskiptavini, eins og Frú Lauga, Gott og blessað, Matarbúðin Nándin og sérverslanir hringinn í kringum landið, er svo ómetanlegur valkostur fyrir smáframleiðendur og neytendur.

Síðast en ekki síst eru beinar söluleiðir í gegnum eigin verslanir, vefi og samfélagsmiðla framleiðenda – sem og sameiginlega – að verða sífellt aðgengilegri neytendum, að ógleymdum matar- og sveitarmörkuðunum sem voru upphafið að þessum beinu tengslum framleiðenda og neytenda.

Stjórnvöld gera sér einnig grein fyrir þessari þróun og hefur ráðherra málaflokksins sýnt í verki vilja til að styðja við hana og þingmenn beitt sér í málefnum henni tengdri. Þar hefur borið hæst krafan um gerð reglugerðar um heimaslátrun fyrir geit- og sauðfé sem nú er komin í samráðsgátt og markmiðið að sauðfjár- og geitabændur geti slátrað heima í haust. Fjölmiðlar hafa að sama skapi haft mikinn áhuga á að fjalla um málefni smáframleiðenda matvæla og gert þeim góð skil.

Afturhaldssemi á undanhaldi

Greinarhöfundur hefur því haft á orði að hún upplifi sig sem umboðsmann rokkstjarna samtímans. Það eru forréttindi að fá að vinna að málefnum sem svo mikill áhugi, jákvæðni og skilningur er á í samfélaginu og svona frjóu og framtakssömu fólki sem brennur fyrir því sem það er að gera.

Einstaka afturhaldsseggir reyna þó að tefja og hindra, en sem betur fer eru þeir á undanhaldi. Rifja má upp að þeir sem hafa barist einna mest gegn því að bændur fái að slátra sínu fé í vottuðu heimasláturhúsi, börðust einnig gegn því að bændur gætu sett upp vottaðar heimavinnslur á þeim tíma sem félagið Beint frá býli var stofnað fyrir tæpum hálfum öðrum áratug, með miklum fortölum.

Á landinu framleiða á þriðja hundrað ábúendur lögbýla matvæli úr eigin hráefnum og selja beint frá býli. Reynslan hefur sýnt og sannað að þau matvæli eru bæði heilnæm og örugg og jafnan af einstökum gæðum. Framleiðsla þeirra hringinn í kringum landið hefur jafnframt stuðlað að fjölbreyttari matarflóru, byggðafestu og auknum möguleikum bænda til að auka tekjur sínar og komast í beint samband við neytendur. Smáframleiðendur í borg og bæjum hafa að sama skapið lífgað upp á matarflóru nærsamfélagsins og landsins alls með hugmyndaauðgi sinni, metnaði og áhuga á að bjóða og kynna fyrir landsmönnum alls kyns spennandi nýjungar sem fá bragðlaukana til að dansa.


Oddný Anna Björnsdóttir
framkvæmdastjóri Samtaka
smáframleiðenda matvæla

Undanþágur búvörulaga og staða bænda
Lesendarýni 16. maí 2024

Undanþágur búvörulaga og staða bænda

Ágætu bændur. Rétt fyrir páska voru samþykktar á Alþingi breytingar á búvörulögu...

Endurheimt vistkerfi á landi og ferskvatnslíf
Lesendarýni 10. maí 2024

Endurheimt vistkerfi á landi og ferskvatnslíf

Með vorinu vaknar náttúran til lífs enn á ný og fólk flykkist út til að njóta he...

Kjósum forseta með þekkingu á landbúnaði
Lesendarýni 9. maí 2024

Kjósum forseta með þekkingu á landbúnaði

Þann 1. júní nk. fara fram forsetakosningar og ljóst að kjósendur geta valið á m...

Skattaívilnanir í skógrækt
Lesendarýni 8. maí 2024

Skattaívilnanir í skógrækt

Í marsmánuði var hin árlega fagráðstefna Skógræktar á Íslandi haldin.

Dásamlega íslenska sveitin
Lesendarýni 6. maí 2024

Dásamlega íslenska sveitin

Þegar maður kemst á miðjan aldur, þá staldrar maður aðeins við og veltir fyrir s...

Hafa skal það sem sannara reynist
Lesendarýni 1. maí 2024

Hafa skal það sem sannara reynist

Í Bændablaðinu 11. apríl sl. er heilsíðuviðtal við hjónin á Syðri-Fljótum í Meða...

Mótmæli bænda í ESB: hvað býr að baki?
Lesendarýni 29. apríl 2024

Mótmæli bænda í ESB: hvað býr að baki?

Undanfarna mánuði hafa bændur í Evrópu efnt til mikilla mótmæla um alla heimsálf...

Ósonlagið er klárt, hvað næst?
Lesendarýni 23. apríl 2024

Ósonlagið er klárt, hvað næst?

Dóttir mín kom heim um daginn og hafði verulegar áhyggjur. Jörðin væri víst að e...