Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Bændur geta ekki beðið og vonað
Mynd / Bbl
Skoðun 27. janúar 2022

Bændur geta ekki beðið og vonað

Höfundur: Trausti Hjálmarsson Austurhlíð, Biskupstungum, stjórnarmaður í búgreinadeild sauðfjárbænda BÍ

Á undanförnum árum hafa sauðfjár­bændur á Íslandi þurft að takast á við miklar áskoranir. Árið 2016 varð 10% verðfall og árið 2017 hrundi afurðaverð um 30%.  Þetta hefur haft gríðarmikil áhrif á greinina. Ástæður verðfallsins þekkja flestir, framleiðslan hafði verið í hærri mörkum nokkur ár þar á undan, ekki síst vegna þess að vel hafði gengið í útflutningi og afkoman var viðunandi bæði fyrir bændur og afurðastöðvar. En eftir að verð á erlendum mörkuðum gaf eftir árin 2015-2017 leiddi það til birgðasöfnunar hér á landi sem orsakaði verðhrun á innanlands­markaði.

Hvað höfum við gert síðan og hvað hefur breyst? Bændur hafa dregið verulega úr framleiðslu dilkakjöts, endurskoðun sauðfjársamnings var flýtt, afurðaverð hefur hækkað en þó ekki að fullu gengið til baka miðað við afurðaverð ársins 2015. Á síðustu árum hafa stjórnvöld í tvígang komið með aukið fjármagn inn í greinina. Annars vegar í upphafi árs 2018 (650 milljónir) og hins vegar á síðasta ári (727 milljónir) til að hjálpa bændum að takast á við áhrif Covid-19 á afkomu greinarinnar.

Það er rétt að halda því til haga að allt það viðbótarfjármagn sem stjórnvöld hafa lagt til hefur nýst vel til skamms tíma og fyrir það eru bændur þakklátir. Það er ekki, og á aldrei að vera, sjálfsagt að ríkið grípi inn í. Mikilvægt er að vanda vel til verka þegar það er gert og tryggja sem besta nýtingu fjármuna. Því miður hafa þessar aðgerðir ekki skilað viðsnúningi í afurðaverði til bænda með þeim hraða og hætti sem æskilegt væri. Bændum er að blæða út, því miður.

En hvað er það sem bændaforustan hefur verið að tala fyrir, allan þennan tíma (fyrir heldur daufum eyrum)? Hagræðing í slátrun og vinnslu. Það hefur verið okkar baráttumál frá því að hrun afurðaverðs varð ljóst. Það sjá það allir sem vilja, að það er bæði neytendum í þessu landi og bændum allt of dýrt að vera með slátrun og vinnslu afurðanna á mjög mörgum höndum. Frá árinu 2017 hefur fé fækkað um rúm 74 þúsund, eða 15%. Á þessu tímabili er samdráttur í dilkaslátrun upp á 100 þúsund dilka. Á sama tíma höfum við ekki gengið nægilega hraustlega fram í hagræðingu afurðageirans. Við sjáum það að á sama tíma og krafa um innflutning matvæla hefur aukist til mikilla muna þá erum við að auka kostnað við slátrun og vinnslu afurðanna. Það er okkur bændum mikið keppikefli að geta boðið neytendum gæðavöru á viðráðanlegu verði, en við verðum að geta lifað líka. Greitt okkur laun. Sinnt nauðsynlegu viðhaldi og uppbyggingu búanna, en til þess að það sé hægt þá verður að gera okkur kleift að hagræða í slátrun og vinnslu afurðanna. Samruni Kjarnafæðis og Norðlenska er ágætt fyrsta skref. En það verður að gera betur.

Nú má öllum vera ljóst að síðan að afurðaverð hrundi hafa sauðfjárbændur leitað allra leiða til að hagræða í sínum rekstri heima fyrir og gert það með myndarbrag.

Staðan er hins vegar sú í dag að við okkur blasa hækkanir á aðföngum, áburðarverð er að tvöfaldast og hver veit hvar verð á plasti, olíu, kjarnfóðri og öðrum aðföngum mun enda. Það er algjörlega ljóst að bændur eru sjálfir komnir að þolmörkum hagræðingarinnar heima fyrir og alveg ljóst að fækkun fjár með tilheyrandi byggðaröskun mun koma inn af fullum þunga í haust. Hljóðið er þannig í bændum að þeir sem ekki ætla að hætta, ætla að fækka. Hvers vegna er það? Jú, það er vegna þess að nú eru menn búnir að ganga á alla sjóði, hvort sem þeir eru veraldlegir eða bara andlegir. Það er búið að draga úr okkur allar tennurnar.

Ég get á margan hátt tekið undir með Birgi, félaga mínum á Kornsá, sem skrifaði ágæta grein í Bændablaðið fyrir stuttu síðan, að gott væri að ríkið kæmi að uppsetningu á opinberri verðlagningu og tel ég að það sé vel þess virði að skoða hvernig væri hægt að útfæra. Það mætti kannski hugsa sér að setja það upp og láta gilda tímabundið eða á meðan við erum að klára samtal ríkis og afurðastöðva um hvernig við getum náð fram þeirri hagræðingu sem nauðsynleg er. Það er alveg ljóst að þær áskoranir sem sauðfjárbændur standa frammi fyrir núna með margföldun á framleiðslukostnaði, sem ekki er ljóst hvernig eigi að mæta, mun hafa mikið meiri áhrif heldur en verðfallið sem við höfum verið að reyna að vinna okkur út úr á síðastliðnum árum. Framleiðslan hefur dregist það mikið saman á undanförnum árum að það er ekki langt í að við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd að við getum ekki tryggt nægilegt framboð af öllum skrokkhlutum lambsins á markað. Hvernig verður því mætt? Í ljósi afkomu í sauðfjárrækt er eðlilegt að bændur taki ákvarðanir nú um að ýmist hætta og eða draga verulega úr framleiðslunni, það verða jú allir að reyna að lágmarka þann skaða sem þeir eru að verða fyrir.

Sauðfjárbændur eru núna þessa dagana að taka ákvarðanir um framhaldið, en hvaða upplýsingar höfum við til ákvörðunartöku? Við vitum hvað áburðurinn kostar við vitum hvað við fengum fyrir kílóið af lambakjöti á síðastliðnu ári en við höfum enga hugmynd um hvað við munum fá næsta haust. Hvernig á að vera hægt að taka meðvitaða ákvörðun um framhald búskapar þegar við vitum ekki hvað við erum að fara að fá fyrir afurðirnar? Afurðastöðvar í kjötiðnaði verða að stíga fram núna og sýna okkur hverju við er að búast næsta haust, það er einföld krafa okkar og skilyrðislaus réttur bænda að fá einhverja hugmynd um hvað er í vændum þegar svo stórar ákvarðanir eru í farvatninu. Það vita allir að margt getur breyst fram á haustið sem getur haft áhrif á verðþróun dilkakjöts, en það þarf enginn að segja mér að forsvarsmenn afurðastöðva horfi ekki lengra fram í tímann en svo að þeir geti ekki sagt okkur núna hverjar lágmarksbreytingar verða á verði til bænda.

Það er a.m.k. ekki í boði hjá bændum, afurðastöðvum og ríkinu að sitja og vona það besta. Það er núna sem við þurfum að grípa til þeirra aðgerða sem við sjáum að geti varið okkar framleiðslu og byggt undir stoðir hennar til framtíðar.

 

Trausti Hjálmarsson
Austurhlíð, Biskupstungum,
stjórnarmaður í búgreinadeild
sauðfjárbænda BÍ

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...