Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Franskir alifuglar, vernduð afurðaheiti.
Franskir alifuglar, vernduð afurðaheiti.
Af vettvangi Bændasamtakana 30. janúar 2023

Vernduð afurðaheiti – áhrif á bændur og framleiðendur

Höfundur: Hafliði Halldórsson, verkefnastjóri á markaðssviði BÍ

Í öðrum pistli um vernduð afurðaheiti er aðallega horft til reynslu notenda kerfisins og merkjanna í ESB. Vernduð afurðaheiti skila fjölda kosta til hagaðila sem þau nýta, m.a. sanngjörnu endurgjaldi og viðskiptaumhverfi fyrir bændur og framleiðendur.

Hafliði Halldórsson.

Hafa skal í huga að vernduð afurðaheiti hafa ekki verið innleidd á kerfisbundinn hátt í öllum meðlimalöndum ESB, af þeim sökum er þekking og áhrif þeirra á neysluhegðun mismikil eftir löndum. Hins vegar er stóra myndin mjög skýr, að á sameiginlegum Evrópumarkaði hefur verndun afurðaheita aukið virði landbúnaðarafurða verulega, tryggt gagnsæi í viðskiptum með merktar vörur innan ESB og um leið samfelld vinnubrögð í viðskiptum með verndaðar vörur til landa utan Evrópu. Megnið af tölulegum upplýsingum koma úr ríflega ársgamalli samantekt um innleiðingu verndarinnar á um 3.200 verndaðra evrópskra afurðaheita í „evalutaion of GIs and TSGs protected in the EU“.

Samvinnufélög verndaðra afurðaheita

Samvinnufélög um vernduð afurðaheiti nefnast „Consortium“ og eiga við um félög hagaðila viðkomandi verndaðs heitis, frumframleiðenda s.s. bænda og afurðastöðva um rekstur og markaðssetningu sameiginlegs merkis sem einnig verndar sín afurðaheiti. Sala afurðanna er ekki hlutverk samvinnufélaganna, heldur keppa þau sín í milli á markaði. Gott dæmi er Parma Ham á Ítalíu sem má finna í öllum helstu verslunum á Íslandi.

Sameiginlegt merki samvinnufélagsins er gyllt kóróna sem undantekningalaust er mest áberandi á umbúðum í efra vinstra horni. Að auki ber Parma Ham ávallt „Protected Designation of Origin“ merkið til marks um upprunavernd, ofan kórónunnar efst í vinstra horni.

Samvinnufélagið sinnir sameiginlegri markaðssetningu, setur staðal og gæðaeftirlit um framleiðsluna, stýrir framleiðslumagni og berst gegn matvælasvindli og fölsuðum útgáfum. En sjálf salan fer fram í hverju fyrirtæki fyrir sig, í samkeppni við hin fyrirtækin. Í samvinnufélagi Parma Ham eru nú 150 framleiðendur, um 3.600 svínabændur og 80 sláturhús, sem árið 2021 framleiddu 8 milljónir af heilum Parma Ham lærum, hvar 36% eru flutt út úr Evrópu. Samvinnufélögin tileinka sér hugarfarið „sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér“.

Helstu þættir

Samkvæmt skýrslunni hafa vernduð afurðaheiti virkað vel, og jákvæð merki um notkun kerfisins komu fram í könnunum hjá hagaðilum sem það nýta.

Helstu ókostir við notkun merkjanna er mismikil þekking neytenda á þeim milli landa. Kostnaður hins opinbera, þ.e. ESB og meðlimalanda, af rekstri kerfisins er metinn á eingöngu 0,12% af virði heildarsölu merktrar vöru.

En meðaltal aukins virðis í sölu er margfaldur sá kostnaður fyrir merktar vörur í ESB. Kerfi verndunar var sett á fót til að skipta máli í viðskiptalegu tilliti fyrir einstaka hagaðila, frumframleiðendur og matvælaframleiðendur, auk opinberra aðila.

Áhrif kerfisins á sjálfbærni og dýravelferð hafa einnig farið vaxandi og munu þróast áfram innan kerfisins. Á árabilinu 2010- 2020 fjölgaði skráningum í kerfið um 27%.

Upprunaverndað Echíré smjör.
Sanngjarnt samkeppnisumhverfi fyrir bændur og framleiðendur

Jákvæð áhrif eru á viðskiptaumhverfi og verðmyndun á markaði. Lagaumhverfið tryggir sanngjarnt samkeppnisumhverfi fyrir bændur og matvælaframleiðendur sem nýta vernduð afurðaheiti. Samningsstaða notenda verndunarinnar er sterkari og virði afurða í kerfinu eykst.

Helstu þættir sem skýra þessa niðurstaða eru: Sama meðferð umsókna, sama hvaðan þær koma, og eftirlit á öllum stigum virðiskeðjunnar er það sama alls staðar.

Vernd hugverkaréttar

Innleiðing eftirlits með hug- verkarétti í kerfi verndaðra afurðaheita hefur gengið að óskum, hugverkaréttur er algjört lykilatriði í vernd einstakra hefða og þekkingar.

Notendur kerfisins eru með þátttöku sinni tryggðir gegn svikum þeirra sem reyna að misnota vernduð afurðaheiti, með fölsuðum útgáfum og blekkingum gagnvart neytendum. Reglulegt aðhald á markaði er árangursríkasta vopnið í baráttu við svindl.

Viðskiptasiðferði og markaðshlutdeild

Samantektin sýnir að vernduð afurðaheiti hafa jákvæð áhrif á viðskiptasiðferði, bæði innan sameiginlegs Evrópumarkaðar, þar sem sameiginleg áhrif kerfisins nýtast öllum sem það nota, en líka í útflutningi verndaðra afurðaheita frá Evrópu sem er um 20% af heildarsölu merktra vara. Vernduninni eru þar þökkuð veruleg áhrif til aukinnar eftirspurnar frá löndum utan ESB.

Þegar sjö lönd innan ESB og vernduð afurðaheiti þeirra voru skoðuð m.t.t. heildarsöluandvirðis verndaðra afurðaheita þessara landa innan Evrópu árin 2019-2020 var samanlagt virði sambærilegt en öll samanlögð sala mat- og drykkjarvöru fimm ESB landa: Frakklands, Ítalíu, Portúgal, Spánar og Bretlands (sem endanlega gekk úr ESB um áramót 20-21). Markaðskannanir sýna einnig að mörg vernduð afurðaheiti njóta mikillar þekkingar neytenda utan framleiðslulandanna.

T.d. Champagne, Gouda Holland, Parmigiano Reggiano og Scotch Whisky, sem 50% neytenda fjölmargra landa í ESB segjast þekkja.

Skýr og áreiðanleg upplýsingagjöf til neytenda

Gagnsæi er lykilatriði í kerfinu, upplýsingar um vernduð afurðaheiti eru öllum aðgengileg á vefslóðum ESB. Síðan „GI View“ er einföldust til notkunar við leit að einstökum vernduðum afurðaheitum, héruðum og löndum sem nýta verndina. Til að nálgast upplýsingar í dýptina má nálgast uppfærðan lista yfir vernduð heiti í „EU geographical indications register“, auk þess sem útdráttur úr umsókn um hvert skráð heiti og þau sem eru í umsóknarferli má sjá á „eAmbrosia public module“. Öryggi upplýsinga er tryggt með aðhaldi í öllum stigum virðiskeðjunnar og á vernduðum heitum á markaði. Markaðsrannsóknir um þekkingu og skilning á tilgangi verndaðra afurðaheita þeirra sýna mismikla þekkingu milli neytenda ESB landa, og gefa um leið vísbendingu um skilvirkni á viðkomandi mörkuðum. Þekking mælist t.d. hæst í Suður- Evrópu, 50-78% í Frakklandi, Spáni og á Ítalíu. Lægst mælist þekkingin 8-28% í Tékklandi, Þýskalandi, Ungverjalandi og Hollandi. Samkvæmt Gallup mælingum á Íslandi, þar sem kynning á merkjunum hefur engin verið, þekkja samt 10-15% neytenda vernduð afurðaheiti og eru tilbúnir að greiða 10-15% meira fyrir merktar vörur. Þessir íslensku neytendur mælast einnig með í hærri hluta tekjuskalans. En mörg vernduð afurðaheiti njóta vaxandi vinsælda á íslenskum matvörumarkaði, en eru enn sem komið allar innfluttar.

Sanngjarnt endurgjald fyrir bændur og framleiðendur

Bændur og framleiðendur matar- og drykkjarvara geta fengið hærra verð og bætt tekjur sínar með því að halda fram virðisaukandi og aðgreinandi þáttum og nota vernduð afurðaheiti. Það þýðir auðvitað ekki að notkun verndaðra afurðaheita sé töfra- eða skyndilausn, því aðrir þættir á markaði ráða sem fyrr líka miklu. Svo sem efnahagsástand, meðaltekjur á viðkomandi markaði, framkvæmd stjórnsýslu og framkvæmd markaðsaðgerða viðkomandi verndaðs heitis.

Rannsókn á verðmyndun verndaðra afurðaheita fyrir ESB (DG AGRI) 2019 sýndi að merktar vörur voru að jafnaði seldar á 2,07 sinnum hærra útsöluverði samanborið við ómerktar staðgönguvörur. Hærra söluverði fylgir alla jafna líka hærri framleiðslukostnaður sem þarf að taka tillit til þegar framlegð er metin.

Reynsla bænda og framleiðenda

Viðhorfsrannsóknir framleiðenda- hópa sameignarfélaga „Consortium“ um vernduð afurðaheiti sýna að skráning afurða hafði jákvæð áhrif á rekstur bænda og framleiðenda, samkvæmt svörun ríflega helmings, 52-54%. Árin 2010- 2017 var marktæk aukning í sölu afurða samanborið við ómerktar vörur, 1,7 sinnum meiri hjá vernduðum afurðaheitum mælt í magni, 46% merktra afurða báru magnaukninguna uppi. En 64% merktra afurða juku virði sitt á tímabilinu.

Aðrir kostir sem bændur og framleiðendur tala um með þátttöku í kerfinu eru afar mikilvægir. 87% nefna bætta gæðastjórnun, 76% tala um betra aðgengi að markaði, 51% telja kerfið stuðla að auknu jafnvægi í verðmyndun, hafi jákvæð áhrif á verðteygni og stjórn á framboði á merktum vörum. Niðurstöður sem benda skýrt til þess að bændur sem vinna innan verndaðra afurðaheita njóti betri samningsstöðu en aðrir.

Áhrif á dreifbýli

Eitt markmiða verndaðra afurðaheita er að hafa bein jákvæð efnahagsleg áhrif á dreifbýli og stefnan hefur sýnt árangur með t.d. fjölgun starfa í dreifbýli, og sölu og virði afurða sem njóta verndarinnar. Reynslan sýnir að framleiðsla mikils meirihluta verndaðra afurðaheita skilar hærra hlutfalli vinnuafls á hverja framleidda magneiningu en í tilfelli staðgönguvöru á markaði. Verndin eykur tekjur fyrirtækja, gegn því að gæði séu sannarlega stöðluð og það eykur þörf fyrir hæft starfsfólk. M.ö.o., vernduð afurðaheiti styrkja samfélög og fyrirtæki í dreifbýli með auknum atvinnutækifærum. Sérstaða verndaðra afurðaheita kemur einnig afar sterkt fram í tilfelli beinnar sölu bænda til neytenda og ferðamanna í verslunum heima á sínu búi og eftir öðrum dreifileiðum.

Eiga íslensk stjórnvöld að styðja notkun upprunamerkja?

Auðvitað, hver úr ranni pólitíkur og stjórnsýslu vill ekki meiri tekjur í sameiginlega sjóði? Þegar íslensk stjórnvöld hafa innleitt lög, reglugerðir og gert milliríkjasamninga um upprunamerkingar til verndar landbúnaðar í Evrópu ber þeim einnig skylda til að skilja hvað hér hangir á spýtunni! Uppfræða hagaðila um kosti kerfisins jafnt sem ókosti og hvetja til notkunar þess. Frumframleiðendum og fyrirtækjum til gagns sem um leið getur aukið tekjur samfélagsins. Ég tel að vernduð afurðaheiti geti stórbætt afkomu margra frumframleiðenda og framleiðenda á Íslandi og haft jákvæð áhrif á atvinnuþróun í dreifbýli. En betur má ef duga skal því þekking á vernduðum afurðaheitum er enn afar takmörkuð hérlendis og stjórnsýsla í kringum þau í skötulíki.

Skylt efni: vernduð afurðaheiti

Endurheimt vistkerfi á landi og ferskvatnslíf
Lesendarýni 10. maí 2024

Endurheimt vistkerfi á landi og ferskvatnslíf

Með vorinu vaknar náttúran til lífs enn á ný og fólk flykkist út til að njóta he...

Kjósum forseta með þekkingu á landbúnaði
Lesendarýni 9. maí 2024

Kjósum forseta með þekkingu á landbúnaði

Þann 1. júní nk. fara fram forsetakosningar og ljóst að kjósendur geta valið á m...

Skattaívilnanir í skógrækt
Lesendarýni 8. maí 2024

Skattaívilnanir í skógrækt

Í marsmánuði var hin árlega fagráðstefna Skógræktar á Íslandi haldin.

Dásamlega íslenska sveitin
Lesendarýni 6. maí 2024

Dásamlega íslenska sveitin

Þegar maður kemst á miðjan aldur, þá staldrar maður aðeins við og veltir fyrir s...

Hafa skal það sem sannara reynist
Lesendarýni 1. maí 2024

Hafa skal það sem sannara reynist

Í Bændablaðinu 11. apríl sl. er heilsíðuviðtal við hjónin á Syðri-Fljótum í Meða...

Mótmæli bænda í ESB: hvað býr að baki?
Lesendarýni 29. apríl 2024

Mótmæli bænda í ESB: hvað býr að baki?

Undanfarna mánuði hafa bændur í Evrópu efnt til mikilla mótmæla um alla heimsálf...

Ósonlagið er klárt, hvað næst?
Lesendarýni 23. apríl 2024

Ósonlagið er klárt, hvað næst?

Dóttir mín kom heim um daginn og hafði verulegar áhyggjur. Jörðin væri víst að e...

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...