Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
„fæ mér jörð og fer að búa“
Menning 7. október 2024

„fæ mér jörð og fer að búa“

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Theodóru Thoroddsen.

Hún fæddist árið 1863 að Kvennabrekku í Dölum. Foreldrar hennar voru Guðmundur Einarsson og Katrín Ólafsdóttir. Theodóra var yngst þriggja af fjórtán systkinum sem náðu fullorðinsaldri. Hin tvö voru Ásthildur Jóhanna, síðar Thorsteinsson (móðir m.a. Guðmundar Thorsteinsson (Muggs)), og Ólafur Sívertsen.

Theodóra lauk prófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík. Árið 1884 giftist hún Skúla Thoroddsen, sýslumanni og alþingismanni. Þau bjuggu fyrst á Ísafirði en síðan í nokkur ár á Bessastöðum á Álftanesi, þar til þau fluttust til Reykjavíkur árið 1908, en þar átti Theodóra heima upp frá því. Þau eignuðust 13 börn á 22 árum.

Theodóra hafði jafnan mikinn áhuga á þjóðmálum og beitti sér í bókmennta- og menningarlífi. Hún var m.a. í Lestrarfélagi kvenna Reykjavíkur þar sem hún flutti verk sín. Þau birtust fyrst í Mánaðarritinu í handriti.

Hún sinnti ritstörfum alla tíð í hjáverkum og einkum eftir miðjan aldur. Þekktust er Theodóra fyrir þulur sínar, en þær birtust fyrst í Sumargjöfinni 1905 og svo í Skírni árið 1914 ásamt formála hennar og umfjöllun um þulur sem tegund skáldskapar.

Þulur komu út árið 1916 og í annarri útgáfu með viðbótum árið 1938. Sú útgáfa hefur verið endurprentuð nokkrum sinnum.

Ritsafn Theodóru kom út árið 1960 í útgáfu Sigurðar Nordal. Þar kennir margra grasa. Má þar auk umfjöllunar um skáldkonuna nefna þulur hennar, kvæði og stökur, vísnaþætti, endurminningar, frásagnir af mönnum og málefnum, drauma og dulspeki og nokkrar þýddar þjóðsögur.

Sigurður Nordal lætur að því liggja í Ritsafni að sjálf hefði hún getað orðið ein af merkustu brautryðjendum á sviði þjóðmála en þess í stað kosið að styðja eiginmann sinn á þeim vettvangi. Sömuleiðis hafði hún burði til að verða mikilvirk skáldkona hefði gefist til þess svigrúm.

Theodóra lést árið 1954.

„... Frú Hildur bjó sig í snatri, og svo lögðu þau af stað hjónin.

Fram að Fossi var hæg klukkutíma reið, en kaupmannshjónin voru víst fulla tvo tíma að komast þangað. Geir kaupmaður tók ekki í mál að fara nema fetið, og fannst sjálfsagt að fara oft af baki til að ofþjaka ekki skepnunum, og konan lét hann alveg einráðan um það.

Að Fossi bjó ungur bóndi, er Jón hét. ... Geir kaupmaður lauk nú erindi sínu við Jón bónda. Síðan gengu hvortveggju hjónin út á tún. Var bóndi laundrjúgur yfir nýbyggðri hlöðu, sléttum og girðingum, sem hann hafði unnið ábýlisjörðinni til bóta, og húsfreyja kallaði á kálfana sína, heimalningana og kjúklingana, til að sýna þá. Annar litli snáðinn spurði hvort konan ætti ekki að fá að sjá hvolpinn hennar Snotru, og hinn vildi, að hún sæi gráa kettlinginn hennar kisu.

Það var komið undir kvöld, er þau kaupmannshjónin héldu heimleiðis frá Fossi. Varð þeim á leiðinni tíðrætt um, hve allt hefði verið myndarlegt þar, hvað hjónin hefðu verið ánægjuleg og hvað þau hefðu litið hýrt hvort við öðru.

„Eg hætti þessu prangi og fæ mér jörð og fer að búa,“ sagði Geir kaupmaður, „það er eitthvað annað, að vera í næði í sveitinni, geta legið úti á túni og þurfa ekki að standa og tala við hvern mannhund sem kemur, eins og maður verður að gera í þessum kaupstaðarholum.“

„Það kemur nú fyrir, að gesti ber að garði í sveitinni,“ sagði frú Hildur, „við höfum nú, til dæmis, tafið Fosshjónin frá verki í allan dag.“

„Eg myndi nú láta þig um að skemmta gestunum, kona góð.“

„Eg kynni að taka það að mér, hitt veit eg, að þér dettur ekki í hug að hafa mig fyrir ráðskonu, eins og þér er kunnugt um, hve lítil búkona eg er. Já, góði, farðu að búa. Ó, hvað eg hlakka til að eignast gæðing, þá skal verða riðið, hvort eg skal kenna strákunum að ríða, við komumst ekki af með færri en þrjá eða fjóra gæðinga.“

„Það er nógur tími að tala um það, þegar jarðakaup og annað þvílíkt er komið í kring,“ sagði kaupmaðurinn, „og það verður nú líklega ekki í ár.“

„Og ekki hitt árið heldur, sem eg fæ reiðhestinn,“ sagði frú Hildur, „og þá það.“ ...

Undir lónni, bls. 160-161, Theodóra Thoroddsen, Ritsafn, Sigurður Nordal sá um útgáfuna, Bókaútgáfa Menningarsjóðs, 1960.

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...