Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Gíslína Skúladóttir dýralæknir á Refsstað í Vopnafirði (t.h.). Hér á fjögurra vetra trippi í hinum fagra Vopnafirði, ásamt Jódísi, hálfsystur sinni, sem ríður fimm vetra trippi, þau eru sömuleiðis hálfsystur.
Gíslína Skúladóttir dýralæknir á Refsstað í Vopnafirði (t.h.). Hér á fjögurra vetra trippi í hinum fagra Vopnafirði, ásamt Jódísi, hálfsystur sinni, sem ríður fimm vetra trippi, þau eru sömuleiðis hálfsystur.
Mynd / aðsendar
Viðtal 31. október 2025

„Ég elska kyrrðina hér á kvöldin“

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Ungur dýralæknir á Vopnafirði er í doktorsnámi og rannsakar m.a. nautgripadauða á Íslandi.

Gíslína Skúladóttir er ungur dýralæknir á Vopnafirði. Hún starfar sem eftirlitsdýralæknir með mjólkurframleiðslu og eldi sláturdýra fyrir Matvælastofnun. Í fyrra hlaut hún styrk úr sjóðum atvinnuvegaráðuneytis til þróunarverkefna búgreina, til að rannsaka nautgripadauða á Íslandi og neyðarslátrun í Noregi.

Gíslína útskrifaðist úr dýralæknisnámi frá Norges miljø- og biovitenskapelige universitet í Noregi í desember árið 2022. Hér á upphlut fyrir utan skólann, í 20 stiga frosti. Hún hefur síðan starfað við dýralækningar á Íslandi.

Hún er á kafi í verkefnum, ekki aðeins sem dýralæknir heldur er hún einnig í doktorsnámi, í önnum við sláturhús föður síns á Vopnafirði, við að taka úr og sinna fénu sem komið er heim á Refsstað og í hestamennsku, svo nokkuð sé nefnt.

Gíslína er fædd árið 1995 og býr á Refsstað 1, í sama húsi og amma hennar og afi, Ágústa Þorkelsdóttir og Þórður Pálsson. Faðir hennar og stjúpmóðir, Skúli Þórðarson og Berglind Sigurðardóttir, búa svo ásamt tveimur yngri systkinum Gíslínu í næsta húsi, að Refsstað 3.

Lærði dýralækningar í Noregi

Spurð um tildrög þess að hún ákvað að nema dýralækningar svarar hún því til að við lok menntaskólagöngu hafi hún tekið sér ársleyfi til að vinna sér inn peninga fyrir fjögurra mánaða langri heimsreisu. Samtal við móður hennar hafi leitt til þess að hún rifjaði upp löngun sína frá unglingsárum til að verða dýralæknir. Hún hafði heilmikla reynslu af sauðfé og sláturhúsum en aflaði sér einnig reynslu af umgengni við mjólkurkýr og gæludýr og sótti um námsvist árið 2016.

„Ég sótti um í NMBU (Norges miljø- og biovitenskapelige universitet) í Osló, og svo í Kaupmannahafnarháskólanum í Danmörku, og komst inn á báðum stöðum. Ákvörðunin um að fara til Noregs byggði að hluta til á að þar var smærri skóli – sumarfrístímabilið hentaði mér betur, og ég taldi að ég myndi fyrr skilja Norðmennina en Danina,“ útskýrir Gíslína.

Eftir sex og hálft ár í NMBU kom hún aftur til Vopnafjarðar. „Ég hef unnið sumarvinnu síðan sumarið áður en ég varð 13 ára, og flest öll þau sumur og svo árin milli menntaskóla og háskóla hef ég starfað að mestu á Vopnafirði. Mér hefur alltaf fundist gott og gaman að vera uppi í sveit, og þar sem ég bjó fyrir sunnan voru sumrin tíminn sem ég gat varið hérna. Hér hef ég getað sinnt hestamennsku og alið áhuga minn á sauðfé og sauðfjárrækt. Vegna þessa vildi ég eindregið drífa mig aftur upp í sveit, og sinna hestamennsku að nýju. En það var ákveðin tilviljun að þetta hentaði allt saman,“ segir hún.

Í sauðburði, með systkini sem fæddust misstór.
Doktorsnám og dýralæknisstaða

Gíslína ákvað að fara í doktorsnám beint eftir dýralæknanámið, út frá rannsóknardiplómu sem hún lauk samhliða dýralæknanáminu. „Ég vildi hins vegar ekki ljúka því doktorsnámi úti í Noregi þar sem mig langaði heim; í hestamennsku, faðm fjölskyldu og íslenska náttúru aftur. Til þess að geta þetta varð ég að finna mér íslenskt fjármagn til að borga laun mín í doktorsnáminu. Ég samdi við Matvælastofnun um styrk til náms og réði mig í staðinn í hálfa stöðu sem eftirlitsdýralæknir í Norðausturumdæmi. Hef því verið í 50% starfi sem doktorsnemi samhliða því,“ lýsir hún.

Sem eftirlitsdýralæknir í NA-umdæmi (frá og með Fjallabyggð til Hamarsfjarðar), sinnir Gíslína öllu búfjáreftirliti í Vopnafirði (nema heima hjá sér) og svo reglubundnu eftirliti á mjólkurbúum frá Djúpavogi að Laugum, almennt. Hún segir að leyfi eða annir hjá öðrum starfsmönnum geti þó þýtt að hún stökkvi inn á víðara svæði. Jafnframt fer hún í eftirfylgniheimsóknir jafnt á mjólkurbú sem og önnur bú.

„Að mestu er ég að koma og skoða okkar skoðunaratriði samkvæmt skoðunarhandbókum, eða sjá hvort hafa orðið úrbætur síðan í síðasta eftirliti. Stundum er ég þó í sýnatöku, í heilbrigðisskoðun í sláturhúsum eða í ábendingum, og jafnvel gæludýraábendingum. Starfið er fjölbreytt og skemmtilegt. Mér finnst alltaf gaman að koma á nýja staði, sjá önnur gripahús og hvernig fólk leysir algeng vandamál, og hitta fólk. Stundum er það krefjandi, en þetta hentar mér vel,“ segir Gíslína.

Bæði vinnan fyrir Matvælastofnun, sem er að mestu vettvangseftirlit og svo aðeins skrifstofuvinna með sem hún sinnir heima hjá sér, og vinnan í doktorsnáminu eru störf að hluta til án staðsetningar og því gat hún valið að búa heima á bæ á Refsstað, sem hún segir skipta sig miklu máli. „Mér finnst störf án fastrar staðsetningar skipta miklu máli fyrir byggð úti á landi og í sveitum og væri til í að sjá fleiri fá slíkt val,“ hnýtir hún við.

Rannsakar nautgripadauða

Gíslína hefur rannsakað nautgripadauða á Íslandi og neyðarslátrun í Noregi og forvitnilegt að spyrja hana nánar út í þá sálma.

„Bæði árið 2023 og 2024 fékk ég úthlutun frá þróunarfé nautgriparæktar frá atvinnuvegaráðuneytinu, fyrst 2 m.kr. og svo viðbótarúthlutun upp á tæplega níu hundruð þúsund. Þessi peningur er að hluta til að fjármagna laun mín í doktorsnámi, en einnig til að borga ferðakostnað til að fara á ráðstefnur, og til að fara til Noregs til að hitta leiðbeinendur mína og taka fundi í eigin persónu. Doktorsverkefni mitt er að rannsaka nautgripadauða á Íslandi, og neyðarslátrun í Noregi,“ útskýrir hún. Doktorsverkefni hennar er nú það langt komið að hún hefur birt þrjár ritrýndar greinar í alþjóðlegum tímaritum.

„Vinnan mín núna er að klára greinina um tíðni og áhættur fyrir nautgripadauða á Íslandi, og skrifa svo doktorsritgerð sem sameinar þessar fjórar greinar undir einn hatt og útskýrir stærra samhengi. Doktorsnámið er því á síðustu metrunum. Helstu niðurstöður til þessa eru að neyðarslátrun – sem er ekki framkvæmd á Íslandi, en lagaleg heimild er fyrir – er 4,2% af allri nautgripaslátrun í Noregi; þar með töluvert mikið notuð, og að mestu eru nautgripirnir meiddir í klaufum eða fótlegg þegar hún fer fram. Eitt af því sem við áætlum að sé áhættuþáttur eru of þröngar og fullar uppeldisstíur, þar sem getur myndast einelti og naut hafa t.d. í Noregi töluvert rifið hvert annað úr mjaðmarlið, eða rifið lærbeinið í sundur í vaxtarlínu beinsins.

Það sem fyrsta greinin, yfirlitsgrein um neyðarslátrun á Norðurlöndunum, benti okkur á um Ísland, var að skráð var í evrópska gagnagrunna að mikið væri af heimaslátrun á nautgripum á Íslandi. Því kom upp áhugi á að skoða nautgripadauða á Íslandi, utan sláturhúsa, og sjá hvort upp kæmi svipuð mynd og í Noregi. Þetta er sem sagt það sem ég á eftir að rannsaka og birta grein um,“ segir Gíslína um rannsóknina.

Gíslína á merinni sinni Þotu í útreiðatúr á þrítugsafmælinu í haust.
Fylskoðar hryssur og fangskoðar kýr

Innt eftir hvort hún sinni dýralækningum utan við að vera eftirlitsdýralæknir fyrir MAST með mjólkurframleiðslu og eldi sláturdýra, segir hún svo vera upp að einhverju marki. „Ég er með lítið fyrirtæki, Ref 691 ehf., sem keypti ómskoðunartæki til að fylskoða hryssur og fangskoða kýr og hef ég bæði nýtt það mikið heima, þar sem kasta um 20–30 hryssur hér hvert sumar, en er líka aðeins farin að selja þá þjónustu út. Ég sinni einnig flestum dýralæknastörfum hér á bæ, þar sem pabbi minn rekur sauðfjárbú með um 400 vetrarfóðruðum ám, og hér eru um 60–70 hross. Annars hef ég ekki stundað meiri almennar dýralækningar, enda eiginlega með alveg nóg að gera,“ segir hún.

Fleiri dýralækna þörf

Víkur þá talinu að því hvort nægilega margir dýralæknar séu á austurhelmingi landsins um þessar mundir. Segir Gíslína að á landsvísu sé skortur á dýralæknum.

„Það er þörf fyrir dýralækna í gæludýrastofur, þar sem gæludýrum fer fjölgandi, og vilji gæludýraeigenda til að gera sem mest fyrir dýr sín er einnig vaxandi. Svo þurfum við dýralækna í stórgripi og búfé, auk hesta. Umfram það eru töluvert margar stöður hjá Matvælastofnun sem krefjast dýralæknis, t.d. til heilbrigðisskoðunar í sláturhúsi, eftirlits á mjólkurbúum, í inn- og útflutningsdeild og héraðsdýralæknar og sérgreinadýralæknar, svo eitthvað sé nefnt.

Mín tilfinning er að okkur sé aðeins að fjölga á Norður- og Norðausturlandi, en ekki þannig að það sé neitt offramboð, og enn vantar dýralækni t.d. til að taka við af Hákoni Hanssyni á Suðurfjörðum. Hér á Austurlandi er helsta vandamálið vegalengdir og samgöngur, þótt alltaf sé dýralæknir á bakvakt er ekkert víst að hann komist til þín, eða að vandamálið þoli þá bið sem keyrsla hans veldur,“ segir Gíslína jafnframt.

Lífið á Vopnafirði

Aðspurð hvort gott sé að búa á Vopnafirði segir hún það vera. „Mér finnst satt að segja æðislegt að búa hér. Uppi í sveit, með fullt af fólki, hestum og kindum. Ég er í stjórn hestamannafélagsins hér, og við reynum að stunda mikið af samreiðum á sumrin, fá til okkar nokkur námskeið á ári og stundum svo félagsvist á veturna, frá nóvember til aprílloka. Þar sem við erum mörg hver sauðfjárbændur höfum við ekki neinn tíma frá maí og til októberloka, enda þá besti tíminn til að ríða út líka. Ég elska kyrrðina hér á kvöldin, myrkrið, stjörnurnar og sólsetur og sólarupprás um miðja nótt í maímánuði,“ útskýrir Gíslína. Myrkrið sé tíminn þegar hún fái ró og líklega full þörf á því.

„Mér finnst alltaf allir vera að reyna að gera sitt besta til að halda áfram sínu besta lífi,“ heldur hún áfram. „Fyrir bændur er það að hlúa að sínum búskap. Og mér finnst alltaf þurfa að fylgja með að bændur þurfa ekki endilega meiri vinnu, heldur meiri tekjur, og eru því alltaf að leitast eftir því.“

Því má svo bæta við, svona í bláendann, að pabbi Gíslínu, Skúli, setti upp lítið sláturhús á Refsstað í fyrra og stóð hún að gæðastýringu og leyfisumsóknum fyrir það. „Ég hef töluverðan rekstraráhuga líka og finnst gaman að stússast í þessu öllu. Ég reyni því allar lausar stundir að troða mér í sauðfjárræktina hér og hjálpa til við sölu og markaðssetningu á vörum frá okkur, undir heitinu Vopnfirskt gæðakjöt. Þetta er alveg góður partur af því sem ég geri,“ segir hún að endingu. 

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...