„Ætli þetta sé ekki nett brjálæði“
Það skortir ekki atorku í Höllu Sif Svansdóttur Hölludóttur, þrítugum garðyrkjunema, sem festi kaup á garðyrkjustöðinni Gróðri á Hverabakka við Flúðir á sínu fyrsta ári í námi. Meðfram nýju hlutverki sínu sem garðyrkjubóndi reynir hún að klára námið og er nýliði í stjórn deildar garðyrkjunnar.
Halla Sif er alin upp á Dalsmynni í Eyja- og Miklaholtshreppi, blönduðu búi með kúm og kindum, en á ekki langt að sækja garðyrkjuáhugann. „Amma mín, Margrét í Dalsmynni, ræktaði talsvert af matjurtum. Hún var aldrei í neinni framleiðslu en var dugleg að gefa fólki. Ég var alltaf með henni að dútla mér við að prikla og stússa,“ segir Halla sem hefur frá unga aldri haft metnað fyrir matjurtaræktun. „Þetta var eiginlega aðaláhugamálið mitt og ég ræktaði alltaf heima við þegar ég bjó í Reykjavík. En einhverra hluta vegna sá ég það þó ekki sem raunhæfan möguleika að vinna við garðyrkju framan af. Mig langaði til dæmis alltaf í Garðyrkjuskólann en sá ekki beint framtíð í því.“
Halla lagði garðyrkjuna því ekki fyrir sig heldur nam heimspeki og Mið-Austurlandafræði við Háskóla Íslands. Hún stefndi á framhaldsnám erlendis og vann hjá hvalaskoðunarfyrirtæki í nokkur ár.
„Svo fór ég á opinn dag Garðyrkjuskólans á Reykjum á sumardaginn fyrsta árið 2018 og langaði í framhaldinu að slá til og skrá mig í skólann. Ég fann líka löngun til að komast í tengingu við eitthvað sem hefur raunveruleg og bein áhrif á umhverfismál og auðlindanýtingu.
Það var eitthvað sem kveikti í mér þarna. Skólinn tekur bara inn nýnema á tveggja ári fresti en ég fékk að byrja aðeins í fjarnámi meðfram vinnu árið 2019.“
Skall svo kófið á og Halla missti vinnuna. Þótti henni þá rakið að hella sér af fullum krafti í garðyrkjunámið um haustið. „Ég var þá þegar komin með þann draum í magann að vinna sjálfstætt og vera með eigin ræktun og rekstur. Ég sá þó fyrir mér að vinna hjá einhverjum í einhvern tíma áður en af því yrði, enda gríðarleg fjárfesting að eignast land og koma rekstri af stað.“
Sagan af kaupum Gróðurs
Fyrir tilstilli sameiginlegra vina fékk garðyrkjuneminn Halla að heimsækja garðyrkjustöðina Gróður því hún hafði áhuga á að skoða garðyrkjustöð í rekstri. Í því innliti komst hún að því að stöðin væri til sölu.
„Húsnæðið var í góðu standi, öll tæki til staðar og mjög vel að rekstrinum staðið. Í framhaldinu gerði ég mér grein fyrir því að það væri nokkuð langsótt að ætla að koma rekstri af stað sjálf, fá markaðshlutdeild og gera allt frá grunni. Það eru líka ekki margar svona stöðvar á landinu og ég fór að átta mig á að þetta væri frekar einstakt tækifæri.“
Byggðastofnun hafði þá nýlega byrjað með lán til fjármögnunar jarðarkaupa í landbúnaði í því skyni að styðja við nýliðun, nýsköpun og framþróun, en í gegnum þá leið er hægt að fá allt að 90% lánshlutfall ef um er að ræða kynslóðaskipti.
„Vitandi af lánaleiðinni og mögulegum nýliðunarstyrk í landbúnaði sá ég að þetta væri jafnvel raunhæft. Á þessum tíma var líka bullandi Covid og ég var búin að vera atvinnulaus, lokuð inni heilan vetur og sumar og langaði að komast aftur út á land og komast á hreyfingu. Tímapunkturinn spilaði því klárlega inn í þessa ákvörðun.“
Hún lét því vaða og bauð í garðyrkjustöðina og rekstur hennar. Kaupferlið tók marga mánuði og fól í sér, að sögn Höllu, gott samstarf við Byggðastofnun og seljendur. Hún fékk svo garðyrkjustöðina Gróður afhenta 1. júní síðastliðinn. „Ætli þetta sé ekki nett brjálæði. Ég held þetta sé ekki alveg búið að síast inn einu sinni, enda hefur verið svo mikið að gera síðan ég tók við.“
Halla býr þó að góðum stuðningi því fyrri eigendur, Þorleifur Jóhannesson og Sjöfn Sigurðardóttir, búa enn á staðnum og eru henni innan handar. „Hér starfar líka gott fólk sem hefur haldið starfseminni gangandi þótt þau séu komin með nýjan yfirmann sem kann frekar lítið,“ segir Halla.
Ætlar að auka við útiræktun
Á garðyrkjustöðinni Gróður er stunduð ylrækt í rúmum 4.000 fm gróðurhúsum ásamt útiræktun. Starfsmannafjöldinn er frá sex á veturna og upp í 12–15 á sumrin. „Undirstaða rekstursins eru sólskinstómatarnir sem við ræktum allan ársins hring. Síðan erum við með minna af hefðbundnum stórum tómötum. Úti ræktum við blómkál, kínakál og sellerí, sem ég vil auka töluvert strax í sumar,“ segir Halla en Gróður er eini ræktandi sellerís á landinu.
Hún segist enn vera að finna jafnvægi eftir stökkið stóra. „Það er allt svo nýtt og ég læri eitthvað á hverjum degi. Um leið og ég fæ svar við einni spurningu vakna tíu aðrar. Ég áttaði mig alveg á að þetta yrði mikil skuldbinding, enda kallar þetta á viðveru hér alla daga og það mun ekkert breytast á næstunni. Ég var líka bara orðin þreytt á því að sitja við tölvu og vildi vera á meiri hreyfingu. Mér finnst þetta því spennandi, enda þarf að huga að mörgum breytum og umhverfið er rosalega lifandi.“
Þungt yfir garðyrkjunáminu
Staða Garðyrkjuskólans hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu vegna tilfærslu garðyrkjunáms frá LbhÍ til FSu og hafa nemendur skólans fundið fyrir því að sögn Höllu.
„Námið hefur ekki beint verið draumurinn sem það átti að vera. Covid hefur haft mikil áhrif og vegna skemmda á húsnæði skólans vorum við fyrst í bænum og komumst ekki í aðstöðuna á Reykjum. Það er þungt yfir umræðunni um framtíð garðyrkjunámsins og á köflum eins og að vera dreginn inn í forræðisdeilu. Þetta eru ekki mjög hvetjandi aðstæður og eiginlega magnað að kennararnir hafi
náð að halda sjálfum sér og okkur við efnið.“
Hún óttast afleiðingar ef starfsfólk skólans hætti störfum. „Það hljómar eins og sú mikilvæga þekking sem er til staðar núna inni í skólanum sé að fara að glatast. Ein af þeim ástæðum fyrir því að ég vildi læra garðyrkju hér heima er sú að á Íslandi eru sérhæfðar aðstæður sem fólkið sem nú starfar hjá skólanum þekkir, auk þess sem þau eru mikilvæg tenging inn í atvinnugreinina. Það var metskráning í garðyrkju- nám þegar ég byrjaði og áhugi fólks á garðyrkju, hvort sem það er við framleiðslu eða heimaræktun, er bara að fara að aukast. Þá er sorglegt að framtíð eina verklega garðyrkjunámsins virðist hanga á bláþræði frekar en að verið sé að efla það.“
Hún segir mikilvægt að tryggja tilveru verklegs starfsmenntanáms. „Mennta þarf fólk sem tilbúið er til þess að vinna í greininni, með haldbæra verklega reynslu og fræðilega þekkingu. Við þurfum að rækta meira og ræktendur þurfa líka hæfni til að prófa sig áfram með nýja hluti.
Núverandi námskrá mætti alveg endurbæta, ég sé það núna þegar ég er byrjuð að vinna við þetta, en slíkt hefur líklega setið á hakanum síðustu ár út af óvissunni í kringum framtíð skólans. Námið er þó klárlega góður grunnur og mér finnst örlítið vafasamt ef þróa á allt garðyrkjunám í fræðilegri átt á háskólastigi. Frekar myndi ég vilja enn meiri áherslu á hið verklega en nú er gert. En til þess þarf að tryggja fjármagn og aðstöðu,“ segir Halla en bætir við að henni hafi verið sýndur mikill stuðningur hjá skólanum í ljósi aðstæðna sinna.
„Mig langaði að minnka við mig námið þegar ég keypti, því það er búið að rífa í að vera í fullu námi meðfram rekstrinum. En svo varð ég smeyk um að það yrði ekki nám fyrir mig til að klára við þær breytingar sem eru að eiga sér stað svo ég er að þrjóskast við að útskrifast í vor sem garðyrkjufræðingur.“
Kallar eftir endurbættum nýliðunarstuðningi
Þótt verkefni Höllu séu ærin þá virðist hún geta á sig blómum bætt – og það á sviði félagsmálanna. Því á liðnu Búgreinaþingi var hún kjörin ný í stjórn deildar garðyrkjubænda. „Þó ég hafi ekki verið lengi starfandi þá verð ég vonandi til staðar í þó nokkurn tíma í viðbót. Því finnst mér mikilvægt að koma að því að móta umhverfi garðyrkjubænda. Það var áhugi fyrir því að fá nýliða í stjórn svo ég sló til.“
Endurskoðun búvörusamninga er henni hugleikin. „Ýmsu er lofað í stjórnarsáttmálanum sem þarf að tryggja að rati inn í búvörusamningana, eins og fast niðurgreiðsluhlutfall á rafmagni. Einnig er þar talað um að auka styrki og efla útiræktun en spurningin er hvað stuðli að raunverulegri hvatningu fyrir fólk sem vill fara út í slíkt.“
Henni finnst horfur framleiðslu- greinarinnar bjartar. „Það er meðbyr með innlendri framleiðslu og íslensku grænmeti, neytendur eru mjög meðvitaðir um að á því séu góð gæði og spennandi tækifæri fólgin í að takast á við sívaxandi eftirspurn.“
Á Búnaðarþingi vill Halla sjá umræður fara fram um nýliðunarstuðning. „Ég hélt að nýliðunarstuðningurinn væri eitthvað sem ég gæti gengið að nokkuð vísu, en svo er alls ekki. Kerfið byggir á óljósri stigagjöf sem mætti endurskoða, bæði hvað varðar menntun, starfsreynslu og vægi rekstraráætlunar. Til dæmis er alveg óljóst hvernig starfsmenntanám í garðyrkju telur þar inn í. Enn fremur er erfitt fyrir fólk sem er að koma af stað eigin rekstri að sækja stuðninginn. Ef stuðningurinn á að vera hvati til nýliðunar þarf að vera eitthvert öryggi á bak við hann. Miðað við að stjórnvöld vilji meiri og fjölbreyttari garðyrkjuframleiðslu þá þarf nýliðun að vera raunhæf án þess að þurfa að fjárfesta í risastórri garðyrkjustöð. Það þarf meiri umræðu um hvernig hægt er að gera það.“
Hún hvetur þó fólk, sem býr með þann draum í maganum að gerast garðyrkjubóndi, að hefja þá vegferð með því að skrá sig í nám eða, og enn frekar, að ráða sig til vinnu á garðyrkjustöð til að öðlast þekkingu og reynslu: „Mig vantar sumarstarfsmenn!“

