Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
„... Heimsins þagna harmakvein ...“
Líf og starf 7. janúar 2025

„... Heimsins þagna harmakvein ...“

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Jóhannesi úr Kötlum.

Jóhannes úr Kötlum.

Jóhannes Bjarni Jónasson var fæddur árið 1899, á Goddastöðum í Laxárdal í Dölum en ólst frá barnæsku upp í Ljárskógaseli í sömu sveit. Hann stundaði nám við lýðskólann í Hjarðarholti á árunum 1914 til 1916, tók kennarapróf árið 1921 og stundaði kennslu við ýmsa skóla í Dalasýslu frá 1917 til 1932. Hann flutti suður til Reykjavíkur árið 1932 og kenndi einn vetur við Austurbæjarskólann en einbeitti sér síðan að ritstörfum og ritstjórn, fyrst í Reykjavík og síðan í Hveragerði, en fluttist aftur til Reykjavíkur 1959 og bjó þar til æviloka.

Jóhannes var formaður Félags byltingarsinnaðra rithöfunda 1935 til 1938. Dvaldist sumrin 1939 og 1940 á Kili sem eftirlitsmaður sauðfjársjúkdómanefndar. Jóhannes var virkur í starfi Sósíalistaflokksins og var alþingismaður Reykvíkinga 1941. Þá var hann umsjónarmaður við Skagfjörðsskála Ferðafélags Íslands í Þórsmörk á sumrum 1955 til 1962. Jóhannes var virkur baráttumaður í Samtökum hernámsandstæðinga.

Hann kvæntist 24. júní 1930 Hróðnýju Einarsdóttur og voru börn þeirra Svanur, Inga Dóra og Þóra.

Fyrsta ljóðabók Jóhannesar, Bí bí og blaka, kom út 1926 og tók hann sér þá skáldanafnið Jóhannes úr Kötlum. Skammt frá Ljárskógaseli, þar sem hann ólst upp, rennur áin Fáskrúð og eru þar Katlar þeir sem hann kenndi sig við. Hann var eitt helsta skáld sinnar samtíðar og mjög afkastamikill höfundur. Eftir hann liggja 20 ljóðabækur og 5 skáldsögur. Hann þýddi fjölda bóka, ritaði greinar í blöð og tímarit og flutti erindi um stjórnmál og menningarmál.

Ljóð Jóhannesar hafa mörg orðið fólki töm og tónlistarfólki uppspretta og lifa mörg þeirra laga góðu lífi meðal þjóðarinnar. Þá las hann ljóð sín gjarnan á plötur sem gefnar voru út eftir andlát hans. Jóhannes var margverðlaunaður fyrir verk sín og m.a. tilnefndur til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Um jól grípa margir í kverið Jólin koma sem fyrst var gefið út árið 1932 og síðan margútgefið og á ýmsum tungumálum. Þar er að finna ýmis kjarnmikil jólaljóð, m.a. Grýlukvæði og Jólasveinarnir, þar sem Jóhannes lýsir íslensku jólasveinunum þrettán. Með þessu ljóði má segja að hann hafi sett í fastar skorður nöfn jólasveinanna og þá röð sem jólasveinarnir fylgja þegar þeir halda til manna. Bókin var myndskreytt af Tryggva Magnússyni og teikningar hans af íslensku jólasveinunum höfðu sitt að segja um hvernig fólk sá þá fyrir sér á fyrri hluta 20. aldar.

Jóhannes úr Kötlum lést árið 1972.

Hátíð fer að höndum ein

Hátíð fer að höndum ein,
hana vér allir prýðum.
Lýðurinn tendri ljósin hrein.
Líður að tíðum.
Líður að helgum tíðum.

Gerast mun nú brautin bein,
bjart í geiminum víðum,
ljómandi kerti á lágri grein,
líður að tíðum,
líður að helgum tíðum.

Sæl mun dilla silkirein
syninum undurfríðum,
leið ei verður þá lundin nein,
líður að tíðum,
líður að helgum tíðum.

Stjarnan á sinn augastein,
anda mun geislum blíðum,
loga fyrir hinn litla svein,
líður að tíðum,
líður að helgum tíðum.

Heimsins þagna harmakvein,
hörðum er linnir stríðum,
læknast og þá hin leyndu mein,
líður að tíðum,
líður að helgum tíðum

Jóhannes úr Kötlum. Ort við fornt viðlag úr fórum Grunnavíkur-Jóns (1705–1779), Hátíð fer að höndum ein.

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...