Viðvarandi þurrkar útbreiddir
Matvælaöryggi er ógnað vegna margra ára þurrkatíðar í mörgum af mikilvægustu matvælaframleiðslulöndum heimsins.
Heimsmarkaðsverð á kaffi hefur hækkað vegna þurrka í Brasilíu. Nautakjöt hefur aldrei verið dýrara í Bandaríkjunum þar sem beitarlönd í miðvesturríkjunum hafa þornað upp og bændur hafa þurft að skera niður sínar hjarðir. Á vatnasvæði Gulafljóts í Kína, sem er eitt mikilvægasta landbúnaðarhérað þar í landi, hefur verið óvenjulega þurrt og heitt, en Kína er einn stærsti ræktandi heimsins á hveiti. Frá þessu er greint í New York Times.
Þurrkar vofa yfir Úkraínu og Rússland, en hveitiuppskeran í þessum löndum mettar milljónir manna um víða veröld. Til að mynda hefur Marokkó þurft að reiða sig að miklu leyti á innflutning á hveiti frá Rússlandi eftir sex ára þurrk þar í landi. Ofan á skerta uppskeru kemur rof á aðfangakeðjum vegna aukinna átaka í Mið-Austurlöndum og Úkraínu.
Seðlabanki Evrópu áætlar að þurrkar muni minnka virði framleiðslu álfunnar um fimmtán prósent. Þurrkar ógna helst sunnanverðri Evrópu, þar sem áhrifanna er þegar farið að gæta.
