Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Vetrarhúm
Líf og starf 9. september 2025

Vetrarhúm

Höfundur: Hönnun: Bryndís Víglundsdóttir - Uppskrift: Margrét Jónsdóttir

Haustið er handan við hornið og veturinn nálgast og gott að eiga góða lopapeysu á svölum dögum. Hér kemur enn ein peysan úr smiðju Þingborgar og nú er það peysa sem Bryndís Víglundsdóttir hefur hannað. Bryndís leggur inn peysur til sölu í Þingborg og hver peysa er einstök sem hún gerir. Þess má geta að Bryndís er á tíræðisaldri, en það stoppar ekkert hennar frjóa huga og fimu fingur. Litavalið er einstakt og fallega saman sett. Lesendur Bændablaðsins fá hér að njóta hennar hönnunar í þessari fallegu peysu.

Stærð S M-L XL
Yfirvídd í sm 88 100 117
Ermalengd í sm: 46 48 50
Bolsídd í sm: 45 46 48

Lesið uppskriftina yfir áður en hafist er handa, það getur verið mikilvægt til að fá góða yfirsýn yfir verkefnið. Þau lengdarmál sem hér eru gefin upp á bol og ermum eru aðeins til viðmiðunar. Mælið þann sem á að fá flíkina til að peysan passi.

Efni og áhöld: Þingborgarlopi. Svartur sauðalitur í aðallit 450-500-550 g, Slettuskjótt, Hörpugull eða jurtalitað Dóruband í mynstur og að auki 1 ljósgrár sauðalitur. Gefnir eru upp 4 mynsturlitir, en hægt er að fækka þeim ef vill. Það þarf eina dokku af Slettuskjóttu eða Hörpugulli, eða eina hespu af Dóru-bandi í mynsturlit 2, mun minna þarf af öðrum litum og tilvalið að nýta afganga ef til eru. Eins má prjóna þessa peysu úr öðrum lopa en hér er gefinn upp, en gætið þó alltaf að prjónfestu.

Prjónar: Hringprjónar 4,5 og 5,5 mm 80 sm, Hringprjónn 5,5 mm 60 sm, Sokkaprjónar 4,5 mm og 5,5 mm, Hringprjónn 5,5 mm 40 sm. Stórar nælur til að geyma lykkjur undir höndum Saumnál í frágang Prjónfesta: 15 lykkjur og 18 umferðir = 10X10 sm

Athugið að mæla prjónfestu, hún er mjög misjöfn fyrir hvern og einn. Það getur þurft að nota minni eða stærri prjóna. Prjónið prufu og sé hún prjónuð í hring fæst besta niðurstaðan, þvoið hana og klippið svo í sundur, leggið til og mælið.

Peysan er prjónuð í hring, ermar, bolur og axlastykki. Stroff í þessari uppskrift er garðaprjón, en hægt er að hafa aðra stroffgerð ef vill. Eins er hægt að hafa litarönd í stroffi, eina eða fleiri.

Bolur: Fitjið upp 132-152-176 lykkjur í aðallit á 4,5 mm 80 sm langa hringprjóninn. Prjónið stroff 6 garða. Skiptið yfir á 5,5 mm hringprjóninn 80 sm langa. Prjónið eina umferð í aðallitnum og mynstur þar á eftir. Prjónið svo í aðallit þar til bolur mælist 45-48 sm. Geymið bolinn.

Ermar: Fitjið upp 36-40-40 lykkjur í aðallit á 4,5 mm sokkaprjóna og prjónið stroff eins og á bol. Skiptið síðan á 5,5 mm sokkaprjóna. Eftir að mynstri lýkur er aukið út um 1 lykkju í byrjun umferðar og 1 lykkju í lok umferðar. Þetta er endurtekið 8-8-9 sinnum jafnt upp ermi, prjónið u.þ.b. 8 umferðir á milli útaukninga. Þegar ermi er lokið eiga því að vera 54-58-60 lykkjur á prjóninum. Gerið tvær eins ermar.

Axlastykki: Notið áfram langa hringprjóninn. Setjið 9-10-11 lykkjur undir ermi (4- 5-5 fyrstu og 5-5-6 síðustu í umferð) á stóra nælu. Setjið fyrstu 9-10-11 lykkjurnar af bol líka á stóra nælu. Prjónið ermi við 45-48-49 lykkjur og síðan 57-66-77 lykkjur af bol. Setjið næstu 9-10-11 lykkjur af bol á nælu. Gerið sama við hina ermina og prjónið hana við og síðan 57-66- 77 lykkjur af bol. Nú eiga að vera 204-228-252 lykkjur á prjóninum.

Úrtaka: Í fyrstu úrtöku þurfa að vera 203-224-252 lykkjur á prjóninum. Í stærð S þarf því að fækka um 1 lykkju á undan úrtöku og í stærð M-L að fækka um 4 lykkjur jafnt yfir prjóninn. Hægt er að gera það jafnóðum og tekið er úr. Tvö X saman tákna 2 lykkjur prjónaðar saman. Í hverri úrtöku fækkar um 29-32-36 lykkjur. Eftir 4 úrtökur eru því á prjóninum 87-96-108 lykkjur. Takið úr til viðbótar í næstsíðustu umferð 15-18-22 lykkjur jafnt yfir prjóninn. Þá eru í hálsmáli 72-78-86 lykkjur. Hægt er að taka meira úr til að þrengja hálsmál ef vill. Hér er mælt með snúrukanti (I-cord). Notið 4,5 mm prjón. Snúrukantur er gerður þannig: Prjónið tvær lykkjur, prjónið tvær lykkjur saman, setjið þessar þrjár aftur upp á vinstri prjóninn og endurtakið þar til komið er að enda. Þegar hálsmál er með snúrukanti þarf það að vera aðeins vítt, þar sem þessi affelling gefur ekki eftir. Hægt er að taka minna úr í síðustu úrtökunni og hafa hálsmál víðara og þó mælt sé með snúrukanti hér, er hægt að gera hálsmál hvernig sem óskað er.

Tengið snúrukantinn saman, lykkjið saman undir höndum og gangið frá öllum endum. Saumið saman garðaprjónið, hafi það verið prjónað fram og til baka.

Þvottur: Þvoið peysuna í höndum í volgu vatni – 30°C með góðri ullarsápu eða mildu þvottaefni. Skolið mjög vel og kreistið vatnið vel úr, leggið til þerris. Á mörgum þvottavélum eru góð ullarkerfi og alveg óhætt að þvo peysuna í vél ef vélin þæfir ekki ullina. Gott er að prófa kerfið á einhverju öðru en uppáhaldspeysunni. 

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...

Ullarsokkar Huldu Brynjólfsdóttur
14. desember 2021

Ullarsokkar Huldu Brynjólfsdóttur

Nýir orkugjafar og hagkvæmni
28. febrúar 2025

Nýir orkugjafar og hagkvæmni

Hrossin eiga hug þeirra allan
30. júní 2025

Hrossin eiga hug þeirra allan

Hettutrefill
5. febrúar 2025

Hettutrefill

Unnsteinn Mói
5. nóvember 2025

Unnsteinn Mói

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f