Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Glettubikarhafi ársins, Verona frá Árbæ, ásamt eiganda sínum, Maríönnu Gunnarsdóttur, og móður hennar, Vigdísi Þórarinsdóttur, sem ræktaði Veronu ásamt Gunnari Andrési Jóhannssyni. Hjá þeim stendur yngsta afkvæmi Veronu, Dimmalimm, undan Sólon frá Þúfum
Glettubikarhafi ársins, Verona frá Árbæ, ásamt eiganda sínum, Maríönnu Gunnarsdóttur, og móður hennar, Vigdísi Þórarinsdóttur, sem ræktaði Veronu ásamt Gunnari Andrési Jóhannssyni. Hjá þeim stendur yngsta afkvæmi Veronu, Dimmalimm, undan Sólon frá Þúfum
Mynd / ghp
Viðtal 1. desember 2023

Verðlaunahryssan Verona

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Verona frá Árbæ er Glettubikarhafinn í ár. Maríanna Gunnarsdóttir, eigandi Veronu, tárfelldi þegar hún áttaði sig á að áralöngu markmiði sínu í hrossarækt væri náð.

„Ég fór bara að grenja, þetta er ómetanlegt og algjör heiður. Eitthvað sem mann óraði ekki fyrir. Ég vissi að hún ætti möguleika á að komast í heiðursverðlaun því kynbótamat hennar var hátt. Markið var því alltaf sett þangað. Í sumar þegar ég áttaði mig á að hún væri komin í heiðursverðlaun var draumurinn að vera í topp þremur en svo var það mjög tilfinningaþrungið móment þegar það rann upp fyrir mér að hún væri efst,“ segir Maríanna Gunnarsdóttir, en hún tekur við Glettubikarnum fyrir hönd Veronu frá Árbæ, efstu heiðursverðlaunahryssu ársins 2023.

Hugsjón og ástríða

Verona er fædd árið 2004 undan tveimur heiðursverðlaunahrossum, Vigdísi frá Feti og Aroni frá Strandarhöfða. Ræktendur hennar eru foreldrar Maríönnu, Vigdís Þórarinsdóttir og Gunnar Andrés Jóhannsson, sem gáfu Maríönnu hryssuna, þá ársgamla, í þrítugs- afmælisgjöf. Þrátt fyrir að vera kunn afkvæmaverðlaunum fyrir hross í sinni eigu er Verona fyrsta hryssa úr ræktun Vigdísar og Gunnars sem hlýtur verðlaunin.

Undan Veronu eru fimm dæmd afkvæmi; Seðill (ae. 8,75) undan Sjóði frá Kirkjubæ, Díva (ae. 8,29) undan Toppi frá Auðsholtshjáleigu, Auga-Steinn (ae. 8,27) undan Thór-Steini frá Kjartansstöðum, Drift (ae. 8,23) undan Katli frá Kvistum og Þórdís (ae. 7,95) undan Arnoddi frá Auðsholtshjáleigu. Þá hefur Jökull undan Ramma frá Búlandi hlotið sköpulagseinkunn (8,27). Ósýnd eru Hrafnaflóki undan Mætti frá Leirubakka, Rún undan Safír frá Mosfellsbæ (fædd 2020), Skarpur undan Skýr frá Skálakoti (fæddur 2022) og Dimmalimm undan Sólon frá Þúfum (fædd 2023).

Saman standa þær mæðgur, Maríanna og Vigdís, að hrossaræktararfleifð fjölskyldunnar ásamt Guðmundi Ólafi Bæringssyni sem hefur starfað á búinu síðan 1998. Vigdís er með um 4–6 hryssur í ræktun ár hvert en Maríanna hefur haldið utan um ræktun út af Veronu sinni.

Árið 2023 er í reynd ár mikillar uppskeru hjá Árbæjarfjölskyldunni, því auk heiðursverðlauna Veronu var Geisli frá Árbæ, úr ræktun Vigdísar, annar hæst dæmdi 6 vetra stóðhestur ársins og var fulltrúi Íslands á heimsmeistaramótinu í Hollandi og sigraði þar flokk 6 vetra stóðhesta. Þá er ræktunarbúið eitt af tilnefndum ræktunarbúum ársins. „Þetta er hugsjón og ástríða og virkilega skemmtilegt ár að uppskera fyrir svo litla ræktun. Þetta er mjög mikill áfangi fyrir okkur,“ segir
Maríanna.

Týpa í tamningu

Maríanna segist frá upphafi hafa haldið afar vel utan um ræktunar- hryssu sína og afkvæmi hennar til þess að ná settu markmiði. „Guðmundur frumtamdi Veronu hér í Árbæ en svo tók Sigurður Vignir Matthíasson við henni og sýndi og þjálfaði alla tíð á meðan hún var undir manni. Það var ómetanlegt. Síðar þegar ég fer að nota hana í ræktun hef ég haft góðan garð í kringum mig, sama hvort um ræðir  við val á stóðhestum, tamningu, þjálfun eða sýningar og er þakkarvert að eiga svona marga góða að. Ég hef ekki viljað láta afkvæmin frá mér, heldur lagt metnað í að þau séu vel tamin frá grunni og farið með þau öll í dóm frá fjögurra vetra aldri.“

Hún segist hafa tekið meðvitaða ákvörðun um að láta eingöngu byggingadæma afkvæmin fjögurra vetra en hefur beðið með hæfileika- dóm þar til þau ná fimm vetra aldri. „Þau sýna öll góð skil milli gangtegunda frá byrjun en þetta eru iðulega stór og háfætt hross og þurfa sinn tíma.“

Veronu lýsir Maríanna sem sérstökum karakter. „Hún hefur alltaf verið gullfalleg, hrossið sem við tókum alltaf eftir úti í stóði. Hún var týpa í tamningu, til dæmis lónseraðist hún aldrei – enda sá hún engan tilgang í að hlaupa í hringi. Hún vildi bara fara áfram. Það þurfti að bremsa hana af frekar en hitt svo hún myndi ekki fara fram úr sér. Guðmundur, sem frumtamdi hana, sagði hana hafa verið mjög skemmtilegt tryppi og skemmtilega sjálfberandi strax.“

Maríönnu er minnisstætt þegar Verona var sýnd í kynbótadómi fjögurra vetra á Landsmóti hestamanna árið 2008, en mikið sandfok á Rangárbökkum settu þá strik í reikninginn. „Þeir hefðu auðvitað átt að vera löngu búnir að blása dóma af, það var blindbylur og hún var ein af þeim síðustu í dóm. Ég stóð við brautarenda og sá varla hryssuna fyrir sandstormi. Hún stóð sig samt frábærlega þótt aðstæður hefðu verið óboðlegar.“

Maríanna segir að Sigurður Vignir lýsi henni sem viljugri hryssu sem vildi allt gera fyrir knapann. „Það hafi verið magnað hvað töltið var strax gott í henni. Hún hafi alltaf verið eins og klárhryssa í reið en um leið og opnað var fyrir skeiðið varð það sterkt og hafði engin áhrif á hinar gangtegundirnar. Lárus Jóhann Guðmundsson og Ásta Björnsdóttir, sem hafa tamið flest afkvæma hennar, bera svipaða sögu af þeim og er gaman hvað þessir eiginleikar virðast erfast sterkt frá henni. Siggi segir Veronu eitt eftirminnilegasta fjögurra vetra tryppi sem hann hefur verið með.“

Markmið sett á næstu afkvæmaverðlaun

Næsta vor á Maríanna von á fjórum folöldum, eitt undan Veronu og þrjú undan dætrum hennar. „Verona er fylfull við Sjóð frá Kirkjubæ, en þar er ég að búa til alsystkini Seðils og er mjög spennt fyrir því. Þórdís fór undir Fróða frá Flugumýri sem er með ganglag sem hentar henni vel. Díva fór undir Safír frá Mosfellsbæ og hann virkaði mjög vel á Veronu og er ég því mjög spennt að sjá hvort það sé ekki eins með dóttur hennar. Drift, sem er undan Katli frá Kvistum, fór undir Hannibal frá Þúfum sem er áhugaverð pörun að mínu mati. Þetta eru allt mjög ólíkir hestar og því spennandi að sjá hvað verður.“

Hún segist ekki fylgja neinum ákveðnum ættlínum við val á stóðhestum og pörun við Veronu. „Ég hef verið heppin með að geta í raun valið mjög ólíkar týpur með henni af því ég heillast af þeim. Ég horfi á ganglag, vil fótaburðarhesta sem í eðli sínu ganga fallega, með gott tölt og brokk, en hef samt alltaf heillast meira af alhliðahestum frekar en klárhestum. Þar sem ég hef í gegnum árin eingöngu haft einu hryssu til undaneldis, þá hef ég frekar valið hesta sem hafa þegar sannað sig í ræktun eða heillað mig verulega á brautinni heldur en unga og óreynda.“

Hún hefur nú sett sér næsta ræktunarmarkmið. „Ég myndi vilja sjá son hennar, Seðil, fá afkvæmaverðlaun. Ég hef hafnað góðum tilboðum í hann því mig langar að fylgja honum og afkvæmum hans vel eftir. Fyrsti árgangurinn er í frumtamningu núna, átta talsins, og eru þau lofandi. Eftir tvö ár er von á um 30 afkvæmum hans í tamningu og vil ég geta staðið á bak við eigendur þeirra eftir þörfum. Þar hef ég góða fyrirmynd frá því við áttum Keili frá Miðsitju. Pabbi reyndi að halda vel utan um alla, fylgdist með, aðstoðaði og hvatti afkvæmaeigendur eftir þörfum. Mig langar að gera slíkt hið sama og sjá þetta gerast.“

Seðill frá Árbæ er hæst dæmda afkvæmi Veronu. Knapi er Árni Björn Pálsson. Maríanna vill nú fylgja honum og afkvæmum vel eftir. Mynd / Aðsend

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f