Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Hross í haga.
Hross í haga.
Mynd / Jón Eiríksson
Lesendarýni 1. mars 2023

Velferð hrossa - fyrri grein

Höfundur: Kristinn Hugason, samskiptastjóri Ísteka

Hesturinn (Equus caballus) varð húsdýr mannsins fyrir um 7 þúsund árum síðan, austur í Kasakstan.

Kristinn Hugason

Talið er að í árdaga hafi hann verið nýttur vegna kaplamjólkurinnar og kjötsins, enn þann dag í dag er hrossaskjötsneysla mikil og rótgróin í Kasakstan og gerjaður mjöður úr kaplamjólk drukkinn. Elstu vísbendingar um reiðmennsku, a.m.k. að menn hafi nýtt hross sem fararskjóta, eru síðan frá því um 3.000 f. kr. og það hafi einnig verið í Kasakstan. Elstu sannanirnar um notkun hesta sem burðardýra eru á lágmyndum frá Mesópótamíu frá um 2.000 f. kr. Hundurinn er hins vegar elsta húsdýrið og var tekinn í þjónustu mannsins fyrir um 9 til 10 þúsund árum síðan. Eitt til tvö þúsund árum síðar voru hundar komnir fram sem urðu manninum að miklu liði við öflun fæðu. Talið er að sauðfé og geitur hafi orðið húsdýr um svipað leyti. Síðar bættust nautgripategundir við í hóp húsdýranna. (Saga mannkyns, 1. bindi ritraðar AB og Vísindavefurinn).

Á þeim óratíma sem síðan hefur liðið hafa samskipti manna og dýra mótast með ýmsum hætti um veröld víða sem einnig hefur tekið stakkaskiptum. Í árdaga var maðurinn búandi í villtri náttúru, nánast sem eitt stak að segja má. Núna er villt náttúra mun minni að umfangi en áður fyrr. Ein af auðlindum Íslands er strjálbýlið og óspillt víðerni.

Í gegnum allar þær aldir sem liðið hafa fram á okkar daga tóku hugmyndir um það „hvað sé mannúð“ miklum og sífelldum breytingum og voru þær allt aðrar í öndverðu en á okkar tímum. Harðneskja var mikið meiri áður fyrr. Skepnuhald tók vitaskuld mið af þessu auk þess sem örbirgð gerði mönnum fyrrum iðulega þungt um vik.

Dýravernd – velferð dýra

Á seinni öldum hófst mikið framfaraskeið og nýjar hugmyndir, sem fólu í sér upplýsingu og aukna mannúð, ruddu sér til rúms um leið og hagur þjóðanna vænkaðist. Tækniframfarir sem fólu í sér mikinn hagvöxt leiddu um leið til þess að staða mannsins í miðju veraldarinnar styrktist og húsdýrahald jókst afar mikið að umfangi. Dýrin urðu þannig æ háðari manninum um leið og þau urðu honum sífellt mikilvægari í sínum fjölmörgu hlutverkum.

Þetta ól síðan af sér hugmyndir sem festu sig í sessi víða erlendis og leiddu til stofnunar dýraverndarfélaga sem höfðu að inntaki að fara betur með dýr; þau yrðu ekki beitt fautaskap og harðýðgi, heldur yrði vel um þau hirt; þeim yrði tryggt nægt fóður, ferskt vatn o.sv.frv. Áhrif þessarar stefnu barst hingað til lands um þarsíðustu aldamót og má sjá áhrifin í skrifum rithöfunda á þeim tíma og svo í stofnun félaga um málefnið. Áherslan var á meðferð mannsins á dýrum, einkum þá þeim sem voru í hans umsjá, lítilli athygli var hins vegar beint að tilvistarlegum spurningum sem beindust að eðli og skynjun dýranna sjálfra.

Nú hefur hins vegar skilningur á þessum málum breyst mjög; borgarsamfélög hafa orðið ríkjandi með tilheyrandi þróun í átt til fjarlægðar milli manns og náttúru og gæludýrahald er útbreitt. Velferðarríkin hafa orðið til en það er rétt um öld síðan það hugtak kom fyrst fram á prenti (Welfare state). Hugtakið velferð hefur svo sífellt orðið algengara og notað í fleiri samböndum. Þannig er núna talað um velferð dýra í stað dýraverndar en verndar-hugtakið er notað um verndun, s.s. dýra í útrýmingarhættu.

Velferð dýra, að sýna sitt eðlilega atferli

Fyrstu lög um dýravernd voru samþykkt á Alþingi árið 1915 og giltu þau allt til ársins 1957. Dýraverndarmálin heyrðu á þessum tíma undir menntamálaráðuneytið og var starfandi sérstök dýraverndarnefnd sem kom til með lögunum frá 1957. Ráðuneytið fól nefndinni þegar árið 1974 að hefja endurskoðun laganna en nágrannaþjóðir okkar, s.s. Norðmenn, voru þá sem óðast að endurskoða lagasetningu um þessi mál hjá sér. Lengi vel gekk þó hvorki né rak. Skýringin á því er annars vegar sú að í nefndinni voru deildar meiningar, annars vegar þeirra sem töldu að ný lög ættu að taka mið af séríslenskum búskaparháttum og hinna sem töldu unnt að byggja lagasetninguna alfarið á gildandi lögum á hinum Norðurlöndunum. Þá voru komnar fram hugmyndir um stofnun sérstaks umhverfisráðuneytis og þar ætti málaflokkurinn heima.

Það var svo 1994 sem samþykkt voru ný lög um dýravernd sem m.a. byggðu á ákvæðum Evrópusamnings um vernd dýra í landbúnaði. Yfirstjórn dýraverndarmála var flutt til umhverfisráðuneytisins. Um rammalög var að ræða sem þýðir að reglugerðir voru settar um framkvæmd laganna.

Lögin frá 1994 fóru svo í gegnum gagngera endurskoðun sem hófst á árinu 2008 og lauk með setningu núgildandi laga, nr. 55/2013, um velferð dýra. Endurskoðunin hófst undir forræði umhverfisráðuneytisins en fluttist árið 2011 yfir til þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins með forsetaúrskurði sem gefinn var út um flutning málaflokksins. Greinarhöfundur sat allan tímann í nefndinni sem samdi frumvarpið og tók við nefndarformennsku við tilflutninginn.

Nýju lögin eru rammalög eins og hin fyrri og mörkuðu þáttaskil. Þau eru sniðin að fyrirmynd laga frá nágrannalöndum okkar, einkum nýrra laga í Noregi og reglum Evrópusambandsins. Markmiðssetning laganna er að megininntaki svohljóðandi: „að þau [þ.e. dýrin] séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur er það markmið laganna að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.“ Að auki er sá kafli laganna sem fjallar um úrræði og viðurlög afar ítarlegur.

Hvað líðan hrossastofnsins hér á landi varðar, heilt yfir, er augljóst að engin hross komast nær því að uppfylla hin nýju markmið laganna; „að geta sýnt sitt eðlilega atferli“ og einmitt þau sem eru í blóðnytjunum. Á þeim búum er auk þess með góðu móti unnt að fullnægja svo vel sé öðrum ákvæðum laganna og reglugerðanna sem við þau eru sett.

Ísland hentar enda vel til blóðnytjabúskapar. Ekki vegna þess að hér séu gerðar minni kröfur til dýravelferðar en erlendis heldur einmitt vegna þeirra miklu krafna sem við gerum. Hér á landi eru að auki næg víðerni og gnægð graslendis sem á einnig stóran þátt í því að Ísland sé eins vel fallið til þessa búskapar eins og raun ber vitni.

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...