Varðveisla erfðaauðlinda
Búfé og plöntur hafa fylgt manninum í um 10.000 ár eða frá þeim tíma sem maðurinn hóf að stunda akuryrkju og búfjárrækt. Búfé og plöntur ræktaði maðurinn í margvíslegum tilgangi með mismunandi áherslum eftir landsvæðum, hagsmunum og í félagslegum tilgangi. Í dag byggir landbúnaður á heimsvísu á nýtingu tiltölulega fárra plöntu- og dýrategunda og kröfur um hagræðingu í landbúnaðarframleiðslu á undanförnum árum hefur leitt til líffræðilegrar einsleitni í landbúnaði.
Mikilvægi þess að varðveita erfðaefni villtra- og nytjastofna dýra og plantna verður sífellt mikilvægara enda liður í því að tryggja fæðuframboð og velferð mannkyns til lengri tíma. Einsleit ræktun, loftslagsbreytingar, smitsjúkdómar, eyðing búsvæða, mengun og stríðsátök ógna víða fágætum stofnum dýra og plantna sem gætu reynst mikilvægar í framtíðinni.
Við breyttar aðstæður getur verið þörf fyrir aðra eiginleika en nú er og á það við bæði um plöntur og dýr. Auk þess má nefna að kröfur markaðarins eftir landbúnaðarvörum eru sífellt að breytast. Síðast en ekki síst er menningarsögulegt gildi erfðaauðlinda mikilvægt, þar sem ræktun plantna og búfjár er órjúfanlegur hluti af menningarsögunni. Það er því vert að hafa í huga að varðveisla erfðaauðlinda er lykilatriði í varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni og tapaðar erfðaauðlindir verða ekki endurheimtar.
Hlutverk erfðanefndar landbúnaðarins er meðal annars að annast samráð innanlands um varðveislu og sjálfbæra nýtingu erfðaauðlinda í landbúnaði og vera umsagnaraðili vegna innflutnings á nýjum dýrategundum eða erlendum stofnum tegunda sem eru hér fyrir. Einnig að hafa forgöngu um gerð áætlana um verndun og nýtingu búfjárstofna og tryggja viðhald á plöntum sem fjölga sér kynlaust og notaðar eru í landbúnaði. Auk þess að fylgjast með stofnstærð og veita ráðgjöf um ræktun innlendra búfjárkynja sem eru í útrýmingarhættu. Standa að kynningu og fræðslu um gildi erfðaauðlinda og veita ráðgjöf til hagsmunaaðila og stjórnvalda um varðveislu og nýtingu erfðaauðlinda í landbúnaði. Annast samskipti við erlenda aðila á starfssviði sínu í samstarfi við matvælaráðuneytið og tengiliði hjá alþjóðastofnunum. Erfðanefnd landbúnaðarins er einnig ætlað að skapa faglega umgjörð um rannsóknir á erfðaauðlindum landsins og efla og styrkja aðkomu nemenda að rannsóknum.
Til að tryggja varðveislu erfðaefnis til lengri tíma hafa margar þjóðir gripið til þeirra ráðstafana að stofna genabanka. Genabankar hafa því hlutverki að gegna að geyma erfðaefni til lengri tíma og þjóna því sem öryggisnet ef á þarf að halda. Það er því mikilvægt að til sé erfðaefni úr þeim dýra- og plöntustofnum sem við byggjum okkar afkomu á og búa yfir erfðabreytileika sem hægt er að sækja ef á þarf að halda. Ísland er aðili að Norræna genabankanum (Nordgen) sem er samstarfsvettvangur Norðurlandanna á sviði erfðaauðlinda. Norræni genabankinn vinnur að varðveislu og sjálfbærri nýtingu plantna, húsdýra og skóga. Með aðild að Norræna genabankanum hefur Ísland mjög góðan aðgang að varðveislu erfðahópa fræplantna. Er genabankanum falið að varðveita fræ af íslenskum nytjaplöntum og halda utan um upplýsingar vegna varðveislu á klónasöfnum eftir því sem þörf er talin á hverju sinni.
Erfðanefnd landbúnaðarins gefur út á fimm ára fresti landsáætlun um erfðaauðlindir í íslenskri náttúru og landbúnaði þar sem stefnumörkun nefndarinnar er sett fram. Hægt er að nálgast landáætlunina á heimasíðu nefndarinnar, www.agrogen.is, en þar er einnig að finna upplýsingar um íslenskar erfðaauðlindir og verkefni þeim tengd. Búfjárkynin okkar skapa ekki síst sérstöðu landbúnaðar hér á landi og eru þau því áberandi í landsáætluninni hverju sinni. Töluvert hefur áunnist á undanförnum árum og ber þar hæst fjölgun geita á Íslandi og aukin nýting afurða þeirra. Íslenski geitastofninn hefur verið í útrýmingarhættu svo lengi sem elstu menn muna en hættan hefur minnkað og vonandi heldur sú þróun áfram.
Starf erfðanefndar landbúnaðarins er skilgreint í 16. grein búnaðarlaga nr. 70/ 1998 og 5. gr. laga um innflutning dýra nr. 54/1990. Um starf nefndarinnar gildir reglugerð 151/2005 um varðveislu og nýtingu erfðaauðlinda í landbúnaði. Reglugerðin er sett með skírskotun til samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni. Samkvæmt ákvæðum samningsins skuldbinda þjóðir heimsins sig til að vernda og viðhalda erfðaauðlindum, bæði í villtum og ræktuðum tegundum. Litið er á líffræðilega fjölbreytni sem sameiginlega auðlind alls mannkyns. Jafnframt er lögð áhersla á umráðarétt þjóða yfir eigin erfðaauðlindum og þar með ábyrgð á verndun þeirra.
Þar sem eitt af verkefnum nefndarinnar er miðlun þekkingar um erfðaauðlindir og gildi þeirra er nú boðað til málþings um stöðu okkar helstu búfjárkynja og vernd villta laxastofnsins þann í Öskju, Sturlugötu 7, 102 Reykjavík, 3. október kl. 13 -16.
Höfundur er umsjónarmaður erfðalindaseturs LbhÍ og fulltrúi LbhÍ í erfðanefnd landbúnaðarins.
