Útskorinn 20 punda lax
Vagn Ingólfsson í Ólafsvík er magnaður handverksmaður þegar kemur að útskurði og öðru slíku.
Nýjasta verkið hans er rúmlega 20 punda lax, sem hann skar út eins og um nýgenginn lax væri að ræða.
„Þetta var flókið en mjög gefandi og skemmtilegt verkefni. Mesta vinnan fór í að gera hreistrin í búkinn, sem eru á milli sex og sjö þúsund, allt frá 4 mm og upp í 9 mm en ég þurfti að brenna þau í fiskinn með sérstöku járni,“ segir Vagn. Hann fékk svo mann að
nafni Danny Harris í Arkansas-ríki í Bandaríkjunum, sem er fagmaður fram í fingurgóma, til að sprauta og handmála fiskinn.
„Ég sendi fiskinn út til hans, hann græjaði allt sem þurfti að gera og sendi mér svo aftur til baka. Ég gæti ekki verið ánægðari með útkomuna, þetta var meiri háttar vel gert hjá Danny.“
Fiskurinn sómir sér nú vel á fallega útskornum platta heima hjá Vagni og fjölskyldu í Ólafsvík og vekur þar athygli gesta og gangandi.
