Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
Útrás sæðis setur hrossarækt í óvissu
Lesendarýni 14. maí 2025

Útrás sæðis setur hrossarækt í óvissu

Höfundur: Ólafur Ágúst Hraundal, lífskúnstner

Á síðustu misserum hefur umræðan um útflutning á sæði íslenska hestsins farið fram án vitrænnar umræðu.

Ólafur Ágúst Hraundal.

Vaxandi eftirspurn og möguleikinn að selja sæði íslenska hestsins úr landi virðist hafa opnað nýja gátt í íslenskri hrossarækt. En á sama tíma og blásið er í lúðra fyrir nýrri útrás, velta fáir því fyrir sér hver séu raunveruleg áhrif þessa útflutnings.

Það vekur ugg að engin heildræn stefna virðist vera til þegar kemur að útflutningi sæðis úr íslenskum stóðhestum. Það er engin heildræn stefna þegar kemur að því hversu marga skammta af sæði má taka úr hverjum hesti, enginn kvóti, engin miðlun. Í raun getur hestur átt þúsundir afkvæma víða um heim, án þess að nokkur stofnun grípi inn í eða geri mat á langtímaáhrifum þess. Þetta er sérkennilegt í ljósi þess að við eigum að umgangast erfðaeiginleika hestakynsins okkar eins og hverja aðra auðlind. Óheft aðgengi getur haft gríðarleg áhrif á framtíð ræktunar og arðsemi greinarinnar.

Einhæfni og tikkandi tímasprengja

Ein af helstu hættunum við óhefta notkun og útflutning á sæði er erfðafræðileg einhæfni. Þegar toppstóðhestar eru notaðir í of miklum mæli, bæði innanlands og nú með útflutningi, skapast hætta á ofnotkun sama genamengis. Ef mörg hundruð eða jafnvel þúsundir afkvæma koma undan sama hesti í mismunandi löndum, eykur það líkurnar á innrækt og veikleika í næstu kynslóðum sem gætu á endanum komið aftur heim í íslenska stofninn. Þessi þróun er ekki bara kenning. Hún hefur þegar sýnt sig víða annars staðar í heiminum, til dæmis nautgriparækt í Bandaríkjunum og Evrópu.

Þjóðararfur í einkaeigu

Stóðhestur er ekki bara gripur í ræktun, hann ber með sér íslenska arfgerð, sögu og menningu sem hefur þróast í einangrun í meira en þúsund ár. Þegar sæði þessara hesta er selt án skýrra laga og reglna, færist þessi þjóðararfur í raun í einkaeign. Í stað þess að íslensk hrossarækt standi vörð um gæði og fjölbreytileika stofnsins, verður kynbótauppspretta íslenska hestsins að alþjóðlegri verslunarvöru. Þetta vekur siðferðilega spurningu: Ætla Íslendingar að missa sérstöðu sína og frumkvæði við ræktun íslenska hestsins?

Það sem enginn vill ræða

Að sæða hryssu getur kostað allt frá 80.000 upp í 150.000 krónur. Og þá á tollurinn eftir að bætast við, sem getur numið allt að 350.000 krónum. Þarna erum við að tala um kostnað upp á hálfa milljón, fyrir eitt folald. Þetta endurspeglar þá ógeðfelldu og skynlausu græðgi sem hefur náð að hreiðra um sig. Að sæðing sé orðin gróðatæki kynbótaiðnaðarins, en ekki lengur hugsjón sem ræktunarstarf. Þessir viðskiptahættir eru að kæfa það hugsjónastarf, sem ræktun stendur fyrir.

En fjármálin eru ekki það eina sem stenst ekki skoðun. Það eru engar reglur sem tryggja að hryssan fái meðferð sem samræmist velferð dýrsins. Hryssa sem fer í sæðingu þarf góða beit, ró og öryggi í umhverfi sínu. Það er ábyrgðarhluti að grípa inn í líkamsstarfsemi dýra og það ber að sýna þeim virðingu. Í mörgum tilfellum eru hryssur einungis settar í hólf, þar sem velferð þeirra er aukaatriði. Að það séu ekki gerðar sömu kröfur á Íslandi og erlendis segir meira en mörg orð.

Hver gætir stofnsins?

Í öðrum búgreinum er eftirlit með erfðaeiginleikum mun strangara. Nautgripa- og sauðfjárrækt hefur þróað með sér kerfi sem miða að því að forðast ofnotkun einstakra gripa og tryggja breidd í genamenginu. Hvers vegna gildir annað um hestinn? Af hverju eru ekki settar reglur um hámarksmagn sæðis sem má taka úr hverjum stóðhesti? Af hverju má ekki setja kvóta á útflutning, til að tryggja jafnvægi og vernd stofnsins til framtíðar?

Villta vestrið í nýrri mynd

Íslendingar eiga sögu af útrás sem ekki var byggð á heildstæðri hugsun, eins og fjármálaútrásin fyrir hrun er skýr áminning um, og sýnir hvað gerist þegar stefna og skynsemi víkja fyrir skammtímagróða. Er það þangað sem við viljum fara með íslenska hestinn? Ef við förum að flytja út sæði án þess að móta ramma í kringum notkun og eftirlit, erum við að endurtaka sömu mistök. Hættan er fyrir hendi ef við opnum dyr villta vestursins þar sem gæði og sérstaða íslenska hestsins glatast smám saman í samkeppni við stórbú erlendra auðmanna.

Tímabært að setja leikreglur

Það þarf að spyrna við fótum og skilgreina hvernig við viljum standa að útflutningi sæðis.

Það þarf:

  • Lögbundinn kvóta á fjölda sæðisskammta sem má flytja út undan hverjum hesti á ári.
  • Eftirlit með útflutningi, í höndum til dæmis MAST eða fagráðs hrossaræktar.
  • Langtímaáætlun um vernd íslenska hrossastofnsins með áherslu á erfðabreytileikann.
  • Samráð við ræktendur og sérfræðinga í erfðafræði til að tryggja að við töpum ekki verðmætum framtíðar fyrir skammtímagróða.

Við eigum einstakan hrossastofn, sem hefur þolað eld og ís í gegnum aldirnar. Nú stendur hann frammi fyrir nýrri áskorun, ekki í formi náttúruhamfara heldur af mannavöldum. Ef við bregðumst ekki við núna, gæti einn verðmætasti þjóðararfur okkar orðið fórnarlamb græðginnar, þar sem skammsýn hugsun ræður ríkjum. Það verður að setja leikreglur áður en lengra er haldið, og áður en það verður of seint.

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...