Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Víða um heim eru fjallstórir haugar af dekkjum sem bíða örlaga sinna.
Víða um heim eru fjallstórir haugar af dekkjum sem bíða örlaga sinna.
Mynd / Tyre & Rubber Recycling.
Á faglegum nótum 30. október 2025

Úr slitnum dekkjum í gúmmímottur fyrir nautgripi!

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Hér á landi er talið að um 8–10 þúsund tonn af notuðum og slitnum dekkjum falli til árlega samkvæmt tölum frá Úrvinnslusjóði, en ætla má að á bak við þá tölu séu hundruð þúsunda dekkja!

Ef horft er til alls heimsins þá er talið að um það bil 1,5–1,8 milljarðar notaðra dekkja falli til árlega og er úrvinnsla þeirra mjög misjöfn eftir heimshlutum, enda er hreint ekki einfalt mál að endurnýta dekk þar sem þau eru hönnuð til að standast mikið álag og því sterkbyggð. Þrátt fyrir að til séu margs konar endurvinnsluaðferðir á dekkjum í dag fer þó enn stór hluti þeirra í urðun eða brennslu, sér í lagi í þróunarlöndunum.

Komið með dekk í endurvinnslu hjá Freee Recycle. Mynd: Reuters - Temilade Adelaja

Fjórir úrvinnsluflokkar

Almennt má flokka úrvinnslu notaðra dekkja í fjóra meginflokka:

Endurnýting: Endurnýting er það þegar dekkin halda áfram notkun sem dekk eins og nafnið bendir til. Það gæti verið t.d. með endursölu, nýskurði slitflatar eða sólun, þ.e. með því að setja á þau nýjan slitflöt eins og á oft við um stærri dekk en síður minni dekkin.

Tæting: Þá er mögulegt að tæta dekkin í gúmmíkurl. Þetta efni má nota í margs konar vörur úr gúmmíi sem og til íblöndunar.

Orkuvinnsla: Notuð dekk er einnig hægt að nýta í sérstökum orkuverum til brennslu og sem orkugjafa við sementsframleiðslu svo dæmi sé tekið.

Pyrolysa: Síðasti flokkurinn er sérstakt efnaferli sem umbreytir dekkjum í olíu, gas og kol. Þessi aðferð byggir á því að brjóta niður lífræn efnasambönd með hitun við súrefnisfirrtar aðstæður. Eins og gefur að skilja er þetta nokkuð flókin aðferð.

Brennsla vandamál

Víða í þróunarlöndunum er brennsla á dekkjum mikið vandamál og veldur gríðarlegri mengun. Þannig hafa t.d. dekk verið mikið notuð í Nígeríu, fjölmennasta landi Afríku, þ.e. þau verið brennd við bágbornar aðstæður með tilheyrandi mengun. Þá eru dekk þar í landi notuð til þess að framleiða melassa þar sem bændur setja upp litla brennsluofna úr leir til heimaframleiðslu. Vel þekkt aðferð en hreint ekki umhverfisvæn. Ifedolapo Runsewe, sem er nígerísk, sá hvað þetta var mikið vandamál þar í landi og ákvað að skoða hvort ekki mætti nýta dekkin betur og sá tækifæri í endurvinnslu með tætingu dekkja. Hún stofnaði fyrirtækið Freee Recycle Limited árið 2018 og hefur síðan þróað aðferðir til þess að breyta gatslitnum dekkjum í alls konar nothæfa hluti!

Gerir samninga við fyrirtæki

Þar sem Freee Recycle byggir framleiðslu sína á dekkjum, þarf að kosta nokkru til við að safna þeim saman og koma á framleiðslustöð fyrirtækisins. Í dag eru ekki í landinu neinar reglur um meðferð á svona úrgangi og því síður til sérstakar söfnunarstöðvar. Fyrir vikið er söfnun á dekkjum svolítið reikul. Hluta af þessu vandamáli, við söfnun hráefnis fyrir verksmiðjuna, hefur Ifedolapo leyst með því að gera samninga við fyrirtæki sem eru stórnotendur á dekkjum. Þessi fyrirtæki sjá um að gefa öll notuð dekk til verksmiðjunnar og koma þeim á áfangastað.

Vírarnir vandamál

Þegar dekkin eru komin í verksmiðjuna hefst framleiðsluferillinn og að sögn Ifedolapo er stærsta vandamálið við endurvinnslu dekkja að ná úr þeim vírunum, en öll dekk eru sett smáum stálvírum sem auka styrk dekkjanna. Við endurvinnslu þeirra þarf að ná þeim úr og hafa því verið þróaðar sérstakar vélar sem hreinlega toga vírana úr dekkjunum! Þeim er svo safnað saman og sendir í endurvinnslu enda fínasta stál sem má nota í margs konar framleiðslu. Þá eru líka í dekkjum strigaefni sem einnig er flokkað frá og er það einnig notað í ákveðna framleiðslu.

Vélin sem slítur vírana úr dekkjunum hjá Freee Recycle. Mynd: Guardian.

Tæting

Eftir að hafa fjarlægt vírana úr dekkjunum fara þau í risastóra hakkavél sem kurlar þau niður í örlitlar einingar. Þar sem ekki er útilokað að einhverjir afgangsvírar hafi verið til staðar í dekkjunum, þarf að tryggja að dekkjakurlið sé án einhverra stálflísa. Því fer kurlið úr hakkavélinni yfir á sérstakt færiband, sem rennur svo undir öflugan segul sem sér um að draga til sín mögulegar stálflísar. Þegar þessu ferli er lokið eru í raun til staðar ferns konar hráefni: hreint gúmmíkurl, stálvírar, gúmmíkurl með stálflísum og gúmmíkurl með striga. Allt þetta hráefni nýtist, hvert með sínu lagi, en hjá Freee Recycle er það hreina gúmmíkurlið sem er það hráefni sem fer til frekari vinnslu.

Hreint gúmmíkurl tilbúið til framleiðslu. Mynd: Reuters - Temilade Adelaja.

Íblöndun

Þegar búið er að tryggja að gúmmíkurlið sé laust við mögulegt stál, fer það í sérstaka hrærivél þar sem í það er blandað sérstökum efnum eftir því hvað á að framleiða úr því. Kurlið er nefnilega ekki notað beint, t.d. með einhvers konar hitameðhöndlun, heldur blandað með sérstökum efnum í hlutföllum sem henta fyrir lokavinnsluna. Það má í raun líkja þessu við steypugerð þar sem dekkjakurlið þjónar tilgangi malar og sands og íblöndunarefnin þá með svipað hlutverk og sement í steypu.

Lokavinnslan

Þegar hér er komið sögu hefst hin raunverulega framleiðsla fyrirtækisins en mest áhersla er lögð á að framleiða gólfefni, enda hentar hráefnið einstaklega vel til þess. Gúmmíhellur eru stór hluti framleiðslunnar, en þær eru svo notaðar víða í Nígeríu, m.a. á leikvöllum, íþróttaleikvöngum eða í hefðbundna göngustíga. Þá er hægt að framleiða gúmmímottur af mismunandi styrkleika, allt eftir því í hvað varan á að fara.

Nokkrar af vörunum sem hægt er að gera úr haugslitnum dekkjum! Mynd: Snorri Sigurðsson.

Mottur fyrir nautgripi

Sá möguleiki fyrirtækisins, þ.e. að geta framleitt sterkar gúmmímottur, hefur svo leitt til þess að fyrirtækið hefur prófað sig áfram með þróun á gúmmímottum sem henta fyrir legusvæði. Þar sem nautgriparækt er enn frekar vanþróuð búgrein í landinu, sem vel að merkja er með um 230 milljónir íbúa og er á stærð við Frakkland og Þýskaland til samans, þá er markaðurinn fyrir svona sérhæfðar gúmmímottur ekki stór en þó klárlega vaxandi. Kúabú Arla í Kaduna-fylki var það fyrsta sem tók mottur í prófun og fyrstu niðurstöður benda til þess að um afar góða lausn sé að ræða! Motturnar eru mjúkar, stamar og spara undirburð en þessar mottur hafa verið prófaðar í nokkrum stíum fyrir smákálfa. Þá er Freee Recycle að þróa sterkari mottur, en þó stamar, sem eiga að geta hentað fyrir göngusvæði nautgripa. Sú tilraunaframleiðsla verður reynd á næsta ári og verður spennandi að sjá hvort hægt sé að breyta ónothæfum dekkjum í mjúkt og stamt göngusvæði fyrir kýr!

Kálfur í stíu með gúmmímottu úr endurunnum dekkjum. Mynd: Snorri Sigurðsson.

Þróar nýjar vörur

Ifedolapo er óþreytandi í að leita nýrra leiða til þess að nýta dekkin í nothæfar vörur enda er mögulega takmarkaður markaður, í Nígeríu a.m.k., fyrir gólfefni og mottur. Hún og hennar teymi hafa því unnið að fleiri áhugaverðum vörum og nú er hægt að fá bæði sandala og handtöskur úr endurunnum dekkjum!

Staðan á Íslandi

Eins og hér að framan greinir þá falla til um 8–10 þúsund tonn af dekkjum hér á landi árlega og er stærsti hluti dekkjanna fluttur úr landi til frekari úrvinnslu. Lætur nærri að það magn dugi til að nánast fylla meðalstórt flutningaskip! Vonandi er þess ekki langt að bíða að einhver frumkvöðull sjái sér leik á borði og komi upp úrvinnslu hér á landi. Nógur er dekkjafjöldinn að minnsta kosti hérlendis, tæknin þekkt og framleiðsluvörurnar margs konar.

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f