Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Endurvöxtur eftir snemmsleginn 1. slátt (3. júní) í axhnoðapunti (t.v.) og vallarfoxgrasi (t.h.). Mynd tekin 22. júlí 2019. Þegar fyrsti sláttur er tekinn mjög snemma fer endurvöxturinn í skrið sem er því kröftugri sem fyrr er slegið. Axhnoðapuntur getur þó verið undantekning.
Endurvöxtur eftir snemmsleginn 1. slátt (3. júní) í axhnoðapunti (t.v.) og vallarfoxgrasi (t.h.). Mynd tekin 22. júlí 2019. Þegar fyrsti sláttur er tekinn mjög snemma fer endurvöxturinn í skrið sem er því kröftugri sem fyrr er slegið. Axhnoðapuntur getur þó verið undantekning.
Á faglegum nótum 1. júlí 2025

Uppskera og ending eftirsóttra túngrasa fyrir kúabú

Höfundur: Þóroddur Sveinsson, fyrrverandi tilraunastjóri við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Undirstaða hefðbundins landbúnaðar á Íslandi eru fjölær fóðurgrös og ræktun þeirra. Fóðurgildi og uppskera skiptir þar miklu máli og þá sérstaklega í mjólkurframleiðslunni þar sem kostað er miklu til og kröfur eru um hátt afurðastig gripa. Kúabændur rækta því túnin sín með innfluttu sáðgresi sem hefur sýnt sig að hafa umtalsverða yfirburði fram yfir innfædd fóðurgrös. Þetta verkefni varð til vegna fyrirspurna frá kúabændum um besta sáðgresið og hvort hægt væri að auka endingu þess í túnum án þess að það komi mikið niður á magni og gæðum uppskerunnar. Því var ákveðið að skella í tilraunir á Hvanneyri.

Prófuð voru 4 álitlegustu fóðurgrösin í hreinrækt eða í blöndu með öðru sáðgresi eða rauðsmára. Fóðurgrösin eru ólík þegar kemur að vaxtardýnamík í sverði en eiga það sameiginlegt að vera með hátt fóðurgildi, mikla uppskerugetu en lélega endingu í samanburði við innfædd túngrös.

Rannsóknaspurningarnar voru eftirfarandi:
  • Hver eru áhrif sláttutíma fyrsta sláttar á endingu sáðgresis?
  • Hver eru áhrif sláttutíma fyrsta sláttar á heildaruppskeru og gæði (fóðurgildi) hennar?
  • Hver eru áhrif rauðsmára í blöndu með vallarfoxgrasi eða rýgresi á uppskeru og fóðurgildi hennar?
  • Er ávinningur að sá mörgum grastegundum saman í blöndu?
  • Hefur jarðvegsgerð áhrif á endingu?
Sáðgresið var:
  • Vallarfoxgras, Snorri (viðmið)
  • Vallarfoxgras, Rakel
  • Vallarrýgresi, Birger (4n)
  • Hávingull, Kasper
  • Axhnoðapuntur, Luxor
  • Vallarfoxgras + rauðsmári
  • Vallarrýgresi + rauðsmári
  • Sáðblanda; vallarfoxgras/ vallarsveifgras/hávingull/ vallarrýgresi

Sumarið 2018 voru lagðar út tvær alveg eins tilraunir á Hvanneyri en á ólíkar jarðvegsgerðir:

  • „Létt“ malarjörð, mjög steinefnarík (1.044 kg/m3)
  • „Þung“ framræst mójörð, mjög lífræn (353 kg/m3)

Báðar tilraunirnar fengu jafnmikinn áburð (120 kg N í maí + 60 kg N/ha eftir 1. slátt í Græði 6; 20N-4,4P-8,3K) og voru þær alltaf slegnar samtímis.

Sláttutímarnir voru 3 og þannig stilltir að allir ættu að geta gefið gæðamikið afurðahey:

  • 1. sláttutími. Slegið á blaðstigi vel fyrir skrið
  • 2. sláttutími. Slegið í upphafi skriðs í vallarfoxgrasi (Snorri)
  • 3. sláttutími. Slegið á miðskriðtíma vallarfoxgrass (Snorri)

Ending sáðgresis var metin með tvennum hætti:

  • Með þekjumælingum sáðgresis á vorin (í maí) og fyrir hvern slátt
  • Með uppskerumælingum

Skrið tegunda var skráð fyrir slátt þegar svo bar undir.

Uppskerusýni voru efnagreind til að áætla fóðurgildi heysins fyrstu þrjú árin.

Stefnt var á þrjá slætti en tvisvar var engin uppskera í þriðja slætti við 3. sláttutímann.

Í uppgjöri voru eftirfarandi breytur skoðaðar sem mat á endingu sáðgresis.

  • Jarðvegsgerð („léttur“/„þungur“ jarðvegur)
  • Uppskeruár (aldur)
  • Tegund sáðgresis
  • Sláttutími

Verkefnið var styrkt af Framleiðnisjóði landbúnaðarins og Þróunarsjóði nautgriparæktarinnar fyrstu þrjú árin.

Niðurstöður og umræður

Mikill munur var á endingu sáðgresis bæði eftir tegundum og stöðum (jarðvegi). Sláttutíminn hafði einnig marktæk áhrif á endingu en þau voru minni.

Á mójörðinni hrakaði þekju sáðgresis mjög hratt. Var það vegna mikils beitarþunga álfta og gæsa vor og haust. Þar að auki var illgresi fljótt mjög ágengt, mest skriðsóley, knjáliðagras og língresi. Fyrsta árið var heildaruppskeran á mójörðinni um 20% meiri en á melajörðinni en strax árið eftir var uppskeran á mójörðinni 30% minni en á melajörðinni af þessum sökum. Þegar sáðgresi hopar tekur yfir innfæddur gróður sem gefur minni uppskeru með lægra fóðurgildi.

Á melajörðinni var lítil sem engin fuglabeit og ágengt illgresi ekki til staðar fyrstu árin. Þriðja uppskeruárið var meðalþekja sáðgresis komin niður í 1-50% á mójörðinni, nema í hávingli og sáðblöndunni þar sem hún var heldur meiri. Vallarrýgresið var þá svo til alveg horfið. Á melajörðinni sama ár var meðalþekja sáðgresis aftur á móti enn 60-90%, allt eftir tegundum.

Eftir þekjumælingar vorið 2022 var ákveðið að hætta uppskeru- og þekjumælingum á mójörðinni en halda áfram mælingum á melajörðinni tvö ár í viðbót eins og stefnt hafði verið að.

Ekki er hægt að draga þá ályktun að það sé jarðvegsgerðin sem olli endingarleysi sáðgresisins á mójörðinni heldur var það staðsetningin. Á meðan sáðgresisins naut var heildaruppskeran og fóðurgildið aftur á móti meira á mójörðinni en á melajörðinni sem skýrist af jarðvegsáhrifunum. Til að viðhalda sem lengst endingu sáðgresis er mikilvægt að halda álftum og gæsum frá öllum sáðsléttum sem og ágengu illgresi.

Á melajörðinni minnkaði þekjuhlutdeild sáðgresis nokkuð stöðugt með hverju ári sem leið frá sáningu. Hversu mikil minnkunin var fór mest eftir tegundum sáðgresis (mynd). Á fimmta uppskeruárinu var vallarrýgresið svo til alveg horfið á meðan sáðblandan var enn með 70-80% þekju. Vallarfoxgrasið var þá með 40-60% þekju eftir sláttutímum, hávingullinn um 40% og axhnoðapunturinn 20%. Það vakti athygli að hámarksþekja vallarfoxgrass náðist ekki fyrr en á öðru uppskeruári.

Áhrif aldurs á meðal þekjuhlutdeild mismunandi sáðgresis á melajörðinni. Meðaltöl allra mælinga hvers árs.

Þekjuhlutdeild rauðsmára í sáðgresinu var mjög lítið í frumvextinum (1. slætti) og minnst við 1. sláttutímann (á blaðstigi) með vallarfoxgrasinu enda rauðsmárinn seinn til á vorin. Með vallarrýgresinu var einnig svo fyrsta uppskeruárið en næstu tvö árin náði hlutdeild rauðsmára 12-14% í frumvextinum enda vallarrýgresið þá orðið seinna til á vorin. Rauðsmárahlutdeildin heilt yfir varð mest í endurvextinum fram að 2. slætti. Með vallarfoxgrasi varð meðalþekja rauðsmára mest fyrstu þrjú uppskeruárin og á bilinu 21-36% við 3. sláttutímann þar sem hún var mest. Aftur á móti var þekjuhlutdeild rauðsmárans með vallarrýgresinu lítil fyrsta uppskeruárið en mest 2. og 3. uppskeruárið við 1. sláttutímann sem var þá á bilinu 25-28%. Síðustu tvö uppskeruárin var þekjuhlutdeild rauðsmárans vart mælanleg. Þekjuhlutdeild rauðsmára í endurvexti fram að 3. sláttutíma var nokkuð jöfn á milli sláttutímana en öllu jafnan heldur meiri með vallarfoxgrasinu en vallarrýgresinu. Áhrif rauðsmárans á fóðurgildi uppskerunnar voru lítil. nema þegar kom að prótíninnihaldi. Vallarfoxgras með rauðsmára var með 18% meira prótín en vallarfoxgras án rauðsmára og rauðsmári með rýgresi var með 8% meira prótín en rýgresi án rauðsmára.

Eftir fimm uppskeruár hafði sláttutími haft marktæk áhrif á endingu sáðgresis í sumum tegundum en ekki öðrum. Þannig var ekki marktækur munur á endingu milli sláttutíma í Snorra vallarfoxgrasi, vallarrýgresinu og sáðblöndunni. Verður að segjast að það kom á óart. Í hinum tegundum var það fyrsti sláttutíminn sem skar sig úr með minnstu endinguna.

Heildaruppskeran minnkaði með hverju uppskeruári í takt við minnkandi þekjuhlutdeild sáðgresis og var eftir fimm ár orðin að jafnaði 40% minni miðað við fyrsta uppskeruárið. Þegar sáðgresi hopar kemur í staðinn innfæddur gróður, mest sveifgrös, vinglar, língresi eða liðagrös ásamt úrvali tvíkímblöðunga. Þessi gróður gefur minni uppskeru og hefur lægra fóðrunarvirði en sáðgresið sem útskýrir að hluta af hverju uppskeran minnkar með árunum.

Til dæmis var hlutdeild vallarrýgresis í uppskerunni nánast engin eftir 5 ár á meðan uppskeruhlutdeild sáðblöndunnar var enn um 70-80% (sjá mynd). Aftur á móti gaf vallarrýgresið yfirburðauppskeru fyrsta árið eða allt að 13 þurrefnistonn/ha og hefur aldrei annað eins mælst áður. Var það ríflega 30% meiri uppskera en í öðrum tegundum sem komu næst. Þessi munur hvarf síðan strax árið eftir og í lokin gáfu vallarrýgresisreitirnir minnstu uppskeruna enda sáðgresið þar horfið.

Megináhrif tegunda á 5 ára meðaluppskeru og hlutdeild slátta. Vegið meðaltal sláttutíma.

Einungis er 14% munur á meðal heildaruppskeru tegundanna þessi 5 ár þar sem vallarfoxgras + rauðsmári er með minnstu og vallarrýgresi er með mestu uppskeruna. En eins og fyrr segir er hlutdeild sáðgresis í uppskerunni mjög breytilegt eftir tegundum og mest fyrstu 2-3 árin.

Í vallarfoxgrasinu, hávinglinum og sáðblöndunni kom stærsti hluti uppskerunnar úr fyrsta slætti en í öðrum slætti í vallarrýgresinu og axhnoðapuntinum (mynd). Er það vegna þess að tvær síðastnefndu tegundirnar eru lengur af stað á vorin. Þegar fyrsti sláttur er sleginn mjög snemma (á blaðstigi) fer sáðgresið í skrið í endurvextinum. Undantekningin er axhnoðapunturinn sem fer stundum ekkert í skrið sem er talið vegna þess að kynbrum sem valda skriði hafa drepist í vorfrostum. Mikil munur er á milli tegundanna þegar kemur að endurvexti tegundanna eftir slátt. Mestur er hann í vallarrýgresi og axhnoðapunti en áberandi minnstur í vallarfoxgrasi.

Sláttutími hefur talsverð og marktæk áhrif á heildaruppskeruna. Þannig gefur 1. sláttutíminn um 17% minni heildaruppskeru en 3. sláttutíminn sem gefur mestu uppskeruna að meðaltali þessi 5 ár (mynd). Á það við hvort heldur hún er mæld sem þurrefni eða fóðureiningar.

Áhrif sáðgresis á heildar þurrefnisuppskeru á melajörðinni. Fimm ára meðaltal.

Fyrstu þrjú árin var vegið fóðurgildi uppskerunnar mest við 1. sláttutímann og minnst við 3. sláttutímann en það náði í öllum tilvikum lágmarksgæðum sem afurðafóður (<0,80 FEm/kg þ.e.) í mójörðinni eins og stefnt var að.

Aftur á móti í malarjörðinni var fóðurgildið heldur lægra. Skýringin er að sáðgresið á melajörðinni var aðeins fyrr að ná þroska en á mójörðinni sem lækkar fóðurgildið. Í malarjörðinni náði axhnoðapunturinn að jafnaði ekki lágmarksgæðum óháð sláttutíma (0,79-0,76 FEm/kg þ.e.) en var mjög nálægt því. Hávingullinn náði einungis lágmarksgæðum við 1. sláttutímann.

Vallarfoxgrasið var með heldur hærra fóðurgildi en vallarrýgresið bæði hvað varðar meltanleika og prótín í báðum jarðvegsgerðum. Meltanleiki vallarfoxgrass fellur þó helmingi hraðar en í vallarrýgresi með hverjum degi sem fyrsta sláttutíma er seinkað. 

Samantekt

Það sem mest hafði áhrif á endingu var tegund sáðgresis. Sláttutíminn hafði marktæk en minni áhrif í sumum tegundum en ekki í öðrum. Sláttutíminn hafði aftur á móti mikil áhrif á heildaruppskeru sem og talsverð áhrif á fóðurgildið. Óháð tegundum ætti að stefna að taka fyrsta slátt við upphaf skriðs sem sameinar mikla uppskeru og hátt fóðurgildi. Æskilegast væri að taka bara tvo slætti á ári.

Sáðblandan reyndist vera með mestu endinguna heilt yfir. Fyrstu árin var vallarfoxgras og hávingull mest áberandi í blöndunni en síðasta árið bar mest á vallarsveifgrasinu úr blöndunni. Uppskera sáðblöndunar var ágæt sem og fóðurgildið þessi fimm ár. Sáðblöndur er góður kostur þegar stefnt er að endingu og ekki mjög tíðum sáðskiptum. Lagt er til að gerðar verða víðtækari tilraunir með blöndunarhlutföll milli tegunda. Álitlegar tegundir saman í blöndur er vallarfoxgras, vallarrýgresi og rauðsmári þar sem stefnt er að tíðum sáðskiptum en bæta við góðu vallarsveifgrasi ef stefnt er að lengri endingu.

Vallarrýgresið var með áberandi minnstu endinguna af tegundunum, ásamt rauðsmáranum. Engu að síður er vallarrýgresi valkostur í tíðum sáðskiptum með t.d. kornrækt. Er það vegna yfirburðauppskeru og hás fóðurgildis sem er næstum sambærilegt við vallarfoxgras. Væri þá stefnt að þremur uppskeruárum hverju sinni. Miða ætti við að taka fyrsta sláttutímann í upphafi skriðs sem mögulega þýðir að slá þarf þrisvar fyrsta árið en eftir það ætti að stefna að bara tveimur sláttum. Vallarrýgresið er með veikan stoðvef og fer snemma í legu, sérstaklega þegar vel er borið á. Þá er nauðsynlegt að rjúka í slátt því við það stöðvast eða hægir mjög á sprettu.

Lang mest ræktaða fjölæra fóðurgrasið á Ísland og í Skandinavíu er vallarfoxgras og er það vegna uppskeru, mikils fóðurgildis og endingar miðað við annað sáðgresi. Í þessari rannsókn var ending hávinguls þó á pari við vallarfoxgras. Vallarfoxgrasið hafði heldur hærra fóðurgildi en hávingullinn. Ekki var mikill munur á yrkjunum Snorra og Rakel þegar kom að endingu og uppskeru en Rakel skreið nokkrum dögum á undan Snorra. Það er kostur að sá öðrum tegundum með vallarfoxgrasi eins og vallarrýgresi og rauðsmára og jafnvel góðu vallarsveifgrasi ef stefnt er að meiri endingu. Vallarfoxgrasfræ er smágert og þess vegna er mikilvægt að sá því ekki of djúpt.

Hávingullinn er næst mest ræktaða fjölæra fóðurgrasið í Skandinavíu en hefur ekki verið mikið ræktaður hér á landi. Hávingullinn hefur mun meiri endurvöxt en vallarfoxgrasið og líkist á margan hátt vallarrýgresi enda tegundirnar náskyldar. Vísbendingar eru um að hávingullinn sé ekki eins lystugur og vallarfoxgras eða rýgresi. Getur hentað vel í blöndum með vallarfoxgrasi í stað rýgresis.

Axhnoðapuntur er ekki eins norðlægur og tvær fyrrnefndu tegundirnar og hefur vikið fyrir vallarrýgresi í Suður-Skandinavíu og Danmörku. Axhnoðapunturinn var með næstminnstu endinguna og lægsta fóðurgildið í þessari rannsókn og uppskeran var óstöðug. Hann er seinn til á vorin en er með góðan endurvöxt. Ekki verður séð út frá þessari rannsókn að tegundin hafi eftirsótta kosti fyrir kúabú.

Skylt efni: uppskera

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur
Fréttir 5. desember 2025

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur

Breytingar á reglum um erfðabreyttar lífverur hafa verið kynntar til umsagnar í ...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...