Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Upprunamerkingar á veitingastöðum
Leiðari 7. júlí 2023

Upprunamerkingar á veitingastöðum

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir ritstjóri.

Við aukna umfjöllun um upprunamerkingar matvæla á undanförnum mánuðum virðist hafa orðið vitundarvakning meðal neytenda.

Guðrún Hulda Pálsdóttir

Fólk bendir á ófullnægjandi eða villandi merkingar í verslunum og hafa slík tilfelli nú ratað til Neytendastofu sem hefur tekið ákvörðun gagnvart matvælafyrirtæki vegna óheimillar notkunar á íslenska þjóðfánanum á umbúðum fyrir hamborgara sem voru að stærstum hluta framleiddir úr þýsku nautakjöti. Málefni matvælamerkinga hafa einnig ratað inn á þing þar sem ráðherra svaraði fyrirspurn þingmanns, en þar kemur fram að vegna takmarkaðra fjárheimilda Neytendastofu og fjölda lögbundinna verkefna hafi stofnunin ekki haft svigrúm til að fara í almenna heildarskoðun á þessum málum.

Með ört stækkandi veitingamarkaði má velta fyrir sér hvernig utanumhald, yfirsýn og eftirlit er haft með áreiðanlegum upplýsingum um uppruna óforpakkaðra matvæla, sem í boði eru á veitingastöðum og í mötuneytum. Breytt neyslumynstur er að verða til þess að fleiri kjósa að grípa sér eitthvað fljótlegt. Sárafáir, ef einhverjir, veitingastaðir gefa hins vegar upp uppruna, enda er þeim ekki skylt að gera svo. Veitingamarkaðurinn er því hálfgert svarthol, þar sem neytandanum er látið í té að spyrja vilji hann vita og þarf svo að treysta því sem sagt er. Á þeim vettvangi hef ég að undanförnu spurt oft um uppruna hráefna. Sjaldan hafa starfsmenn svör á reiðum höndum og ég sem neytandi hef engar heimildir til þess að láta starfsmennina sanna svör sín ef einhver eru.

Samkvæmt löggjöf fellur eftirlit með óforpökkuðum matvælum í stóreldhúsum undir heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga. Við skoðun á úttektum á veitingastöðum er ómögulegt að sjá hvort eftirlitsmenn kanni uppruna. Samkvæmt svari frá heilbrigðiseftirliti höfuðborgarinnar hefur það eftirlit með fjölmörgum þáttum matvælalöggjafarinnar í eftirliti sínu á veitingastöðum og matvælafyrirtækjum, þ.m.t. matvælaupplýsingar og rekjanleika. Meginþungi eftirlitsins beinist að eftirliti með ofnæmis- eða óþolsvöldum því það telst vera öryggismál. Spurt er hvort viðkomandi matvælafyrirtæki hafi verklag um fullnægjandi merkingar og kannar hvort hráefni sé rétt merkt. Spurningarnar eru hins vegar almennt orðaðar og ekki flokkaðar sérstaklega eftir tegund matvælaupplýsinga. „Við skoðun á málaskrá Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur get ég ekki séð að það hafi borist kvartanir frá neytendum um skort á upplýsingum um uppruna kjöts á veitingastöðum,“ segir í svari við fyrirspurn.

Í skýrslu samráðshóps um betri merkingar matvæla frá árinu 2020 má finna tólf góðar tillögur að betri merkingum sem fela m.a. í sér tæknilausnir, búvörumerki og átaksverkefni. Ein tillagan er kölluð „finnska leiðin“. Markmiðið er að bæta skilyrði og stöðu neytenda til þess að taka meðvitaða ákvörðun tengda uppruna þeirra matvæla sem á boðstólum eru á þeim stöðum sem selja óforpökkuð matvæli. Árið 2019 tók í gildi reglugerð í Finnlandi sem skyldar staði að upplýsa viðskiptavini sína um uppruna þess ferska kjöts og hakks sem þeir hafa á boðstólum án þess að neytandi þurfi að spyrja starfsmann. Það getur verið gert á töflu sem sýnileg er þegar neytandi mætir á staðinn. Í tillögu starfshópsins er því beint til ráðherra að taka til skoðunar hvort taka eigi upp sambærilegar reglur hér á landi verði reynsla af þessari leið góð í Finnlandi. Slíkt fyrirkomulag yrði til eftirbreytni hér á landi.

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...