Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Tvistað við ofurstann
Matarkrókurinn 4. mars 2024

Tvistað við ofurstann

Höfundur: Haraldur Jónasson

Djúpsteiktur kjúklingur, sem flestir þekkja í gegnum ofursta nokkurn frá Kentucky, er lostæti sem margir veigra sér við að búa til heima hjá sér. En með nokkrum brellum er ekki flóknara að elda kjúklingabita en að steikja fisk í raspi.

Fyrsta brellan er að steikja mátulega bita og hafa þá beinlausa. Bringur skornar í sirka tveggja sentímetra strimla eru góður valkostur en einfaldast er að nota kjúklingalundir sem koma í fullkominni stærð – beint úr pakkanum.

Lundirnar, einn bakki, fara í skál og út í skálina fer súrmjólk þangað til flýtur yfir kjúklinginn. Nokkrar slettur af sterkri sósu og eins og eitt egg. Ef engin er til súrmjólkin má nota AB mjólk eða bara venjulega mjólk með nokkrum slettum af borðediki út í. Sirka hálfa matskeið per deselítra. Kjúklingurinn er geymdur í þessum legi í að minnsta kosti klukkutíma, helst aðeins lengur, fjórir til átta klukkutímar er fullkomið.

Leyniuppskrift ofurstans sjálfs ku innihalda 11 krydd og jurtir þannig að það er ekki úr vegi að við notum 11 slíkar líka. Sirka kúfuð teskeið af hverju; svörtum og hvítum pipar, þurrkuðu oregano, steinselju, sellerísalti, laukdufti, chilidufti, kóríanderfræjum og cummin ásamt tveimur teskeiðum af hvítlauksdufti, paprikudufti og salti blandast við fimm desilítra af hveiti og þrjár matskeiðar maizena mjöli. Þegar bitarnir hafa fengið nóg af súrmjólkurleginum er þeim velt upp úr hveiti/kryddblöndunni. Passa að hún nái að festast við kjúklinginn og hvergi sé rakan blett að finna.

Steikingin

Brella númer tvö er að steikja kjúklinginn á venjulegri pönnu. Djúpsteiking er flókin, sóun á olíu og getur verið beinlínis hættuleg. Þannig að í staðinn notum við stærstu pönnu hússins, sem er vonandi tólf tommu pottjárnspanna. En hvaða panna sem er virkar.

Í pönnuna fer um sentimetra þykkt lag af góðri olíu. T.d. avakadó- eða blandaðri matarolíu. Ólífuolía hentar ekki vel í þetta. Hún er ekki nægilega hitaþolin og sérstaklega ekki jómfrúarolía.

Troða eins mörgum bitum og kemst fyrir í pönnunni og steikja við sirka 160 gráður eða þar um kring. Hægt er að giska á rétt hitastig með því að setja einn kjúkling út í og ef hann hissar og svissar í pönnunni er hún nógu heit. Ef á hinn bóginn það byrjar að rjúka úr olíunni áður en kjúklingurinn fer út í er hún orðin of heit. Steikja kjúklinginn þangað til hann verður gullinbrúnn og þá er að snúa honum og steikja þangað til hann verður gullinbrúnn á hinni hliðinni. Tekur um 5 mínútur á hvora hlið en gott að tékka reglulega. Lundirnar ættu að vera fullkomlega eldaðar um leið og báðar hliðarnar eru orðnar gullinbrúnar. Ef bitinn brennur fyrir þessar fimm mínútur þarf að snúa kjúklingnum, lækka örlítið og elda lengur á seinni hliðinni.

Eigendur kjöthitamæla elda þangað til hitastigið í miðjum bitanum nær í 170 gráður. Gott að setja bitana á vírgrind þegar þeir koma úr pönnunni.

Ferskar tortillur

Það þarf tortillur í tvisterinn og auðvitað er einfalt að kaupa þær úti í búð en að búa til ferskar heima er brella númer þrjú og lyftir snúningnum á enn hærra plan. Hræra 5 dl af hveiti saman við hálfan desilítra af feiti, svínafeiti er best en hvaða feiti sem er virkar, teskeið af salti og hnífsodd af lyftidufti.

Bæta svo einum og hálfum desilítra af volgu vatni saman við og hræra eða hnoða stutta stund. Rétt til að koma deiginu saman. Leyfa deiginu að hvíla í korter eða svo og móta þá í litlar kúlur. Kúlur á stærð við golfbolta gera sirka tveggja lunda-tortillur.

Fletja kúlurnar út með kökukefli og steikja á þurri pönnu. Pönnuköku- og pottjárnspönnur eru mjög góðar til verksins en aftur dugir hvaða panna sem til verksins. Breiða viskastykki yfir tilbúnar tortíurnar til að halda þeim mjúkum og ferskum.

Sósa og salat

Sirka þegar kjúklingurinn fer í mjólkurlöginn er gott að útbúa mæjónessósuna. Svo hún fái tíma til að taka sig.

Blanda saman tveimur teskeiðum af nýmuldum pipar við desilítra af mæjónesi, matskeið af sýrðum rjóma og sama magni af ferskum límónusafa. Saxa niður gott salat og þá er kominn matur. Smyrja sósunni í botninn á volgri tortillu, þá kál og svo kjúklingur. Þeir sem vilja geta bætt við hrásalati, tómatsneið og mögulega söxuðum lauk en það er gert á eigin ábyrgð.

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...