Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Tökum daginn snemma
Af vettvangi Bændasamtakana 26. september 2024

Tökum daginn snemma

Höfundur: Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Íslands.

Ég er bæði fullur tilhlökkunar og bjartsýni gagnvart samningaviðræðum við stjórnvöld um nýja búvörusamninga.

Trausti Hjálmarsson

Þessi eftirvænting er kannski svolítið snemma á ferðinni hjá mér þar sem rúm tvö ár eru eftir af núgildandi samningi. Það er hins vegar ekkert náttúrulögmál, enda þótt það sé kannski svolítið íslenskt, að draga það fram á elleftu stundu að setjast af alvöru að samningaborði. Þess vegna hef ég verið áfram um það í samtölum mínum við matvælaráðherra að við tökum daginn snemma ef svo má segja, enda er heimild til þess að stytta núgildandi búvörusamninga um eitt ár og láta nýjan taka gildi frá ársbyrjun 2026.

Stærsta ástæða þess að ég vil flýta þessari för eins og frekast er unnt er auðvitað sú að ég finn fyrir ríkum skilningi stjórnvalda á rekstrarumhverfi landbúnaðarins og vilja þeirra til að rétta skútuna af. Þar fer núverandi matvælaráðherra í fylkingarbrjósti. Forveri hennar í því embætti sagði m.a. í viðtali við RÚV eftir ungbændafundinn í Kópavogi fyrir tæpu ári síðan: „Það er augljóst að fyrirkomulagið eins og það er núna, hvort sem það heita búvörusamningar eða hvað það nú er, að þetta fyrirkomulag er að leiða okkur ítrekað í vanda og sérstaklega í afkomuvanda sem gerir það að verkum að bændur eru ekki í sama efnahagslega veruleika og aðrir íbúar þessa samfélags og það gengur ekki.“ 

Ég hef enga trú á því að þessi jákvæða afstaða stjórnvalda sé bundin við núverandi ríkisstjórn eingöngu. Þvert á móti er ég sannfærður um að viðmælendur okkar í búvörusamningaviðræðunum, sem vonandi hefjast strax á vori komanda, verði allir af vilja gerðir til þess að renna styrkum stoðum undir íslenskan landbúnað til langrar framtíðar. Forsenda þess að svo geti orðið er auðvitað að tryggja lífsnauðsynlega nýliðun í öllum helstu búgreinum okkar.

Enda þótt tekist hafi með hálfgerðum bútasaumi að þoka afkomu bænda í rétta átt síðustu misserin vantar enn þá mikið upp á viðunandi afkomu í fjölda búgreina. Það er stór áskorun við gerð búvörusamninga að skapa stöðugleika og fyrirsjáanleika í rekstrarumhverfinu til lengri tíma en líka að tryggja ákveðinn sveigjanleika sem m.a. þarf til að takast á við óvænta forsendubresti sem við bændur þekkjum því miður orðið of vel.

Á fyrirhuguðu stefnumóti stjórnar og ýmissa stjórnenda innan Bændasamtaka Íslands við bændur um land allt verða áherslurnar við endurskoðun búvörusamninga eflaust ræddar í þaula. Þessi löngu tímabæra fundarferð er á dagskrá í nóvember og er mikið tilhlökkunarefni fyrir okkur öll sem munum þá leggja land undir fót og vonandi einnig fyrir grasrót samtakanna sem þar mun gefa okkur það veganesti sem lagt verður upp með.

Það er ekkert pláss fyrir hálfkák eða vettlingatök þegar grunnur verður lagður að rekstrarumhverfi landbúnaðarins til næstu ára. Horfa verður til niðurstaðna í afkomumælingum síðustu ára. Þær niðurstöður eru auðvitað grafalvarlegar og augljóst að landbúnaðinum mun einfaldlega blæða út verði ekkert að gert. Afkoman er ógn víðar og nýr vágestur, orkuskortur, knýr einnig dyra um þessar mundir. Þegar ylrækt er annars vegar er orkuleysið lamandi í orðsins fyllstu merkingu og skapar einnig óvissu í fjölmörgum öðrum orkufrekum búgreinum.

Það verður í mörg horn að líta í viðræðunum við stjórnvöld. Aðalatriðið sem blasir við, þetta sem alls ekki er hægt að deila um, er að þegar grannt er skoðað sést að umfang íslensks landbúnaðar í samfélaginu er að dragast saman með hverju árinu sem líður. Þegar litið er til mikillar fólksfjölgunar í landinu og þeirra milljóna ferðamanna sem sækja okkur heim á hverju ári minnkar hlutdeild okkar bændanna á matvælamarkaði stöðugt. Við keppum ekki einungis við stöðugt vaxandi innflutning erlendra landbúnaðarafurða og annarra matvæla heldur breytt neyslumynstur og aukna fjölbreytni fæðuframboðs. Hvorugt er óeðlilegt og má ekki skoðast sem ógn við íslenskan landbúnað. Hvort tveggja þarf hins vegar að vera bæði bændum og þjóðinni hvatning til dáða.

Hvatningin til bænda er fólgin í því að auka framleiðslu sína til þess að mæta betur eftirspurn á íslenskum markaði. Hvatningin til stjórnvalda fyrir hönd þjóðarinnar snýst um að auka samkeppnishæfni innanlandsframleiðslunnar með margþættum stuðningi í rekstrarumhverfinu. Hann þarf að minnsta kosti að vera sambærilegur við það sem tíðkast í helstu viðmiðunarlöndum okkar og þá ekki síst á Norðurlöndunum. Öðruvísi mun íslenski landbúnaðurinn hanga áfram á horriminni og í því er engin framtíð.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...