Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Michal er óneitanlega í einstöku hátíðarskapi þessi jólin því honum fæddist sonurinn Leó í byrjun mánaðarins.
Michal er óneitanlega í einstöku hátíðarskapi þessi jólin því honum fæddist sonurinn Leó í byrjun mánaðarins.
Mynd / Karina Hanney Marrero
Líf og starf 23. desember 2021

Töfrandi blandaðar jólahefðir

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Michał Woźniak er nýbakaður faðir í Vesturbænum. Hann endurskapar eftirlætisjólaréttinn sinn frá Póllandi sem forrétt við borðhald á sínu nýja fjölskylduheimili á Íslandi.

Michal ólst upp í smábænum Oleco, nálægt landamærum Litáens og Hvíta-Rússlands. Aðalhátíðisdagur jólanna er þar, líkt og hér, aðfangadagur jóla. „Það sem mér þótti mikilvægast sem litlum dreng, fyrir utan jólasveininn og gjafirnar, var að leita að fyrstu stjörnunni á himninum þegar dimmdi. Þetta er skemmtileg hefð sem tengist sögunni um vitringana þrjá sem fylgdu Betlehemstjörnunni í átt að Jesúbarninu. Leitin var eflaust líka hentug leið við að halda eftirvæntingarfullum börnum uppteknum í smástund,“ segir Michal.

Á aðfangadag fastar fólk að sögn Michal en þegar dimmir tekur við borðhald, sem kallast Wigilia „Máltíðin samanstendur af tólf réttum og reglan sú að allir þurfa að smakka á öllum réttunum. Venjuleg matarhefð Pólverja einkennist mikið af kjöti. En þennan dag er ekkert kjöt í boði, eingöngu fisk- og grænmetisréttir.“

Meðal rétta nefnir Michal sveppasúpu með villisveppum sem fjölskyldan tínir gjarnan saman, vatnakarfi og síld, súrkál og soðkökur (e. dumplings) með ýmiss konar fyllingu. Sætari réttir eru einnig á borðum svo sem fræ- kökur, piparkökur og svokallað kutia, ævagamall eftirréttur sem inniheldur óunnið hveitikorn, ýmis fræ og hnetur, hunang og þurrkaða ávexti sem bleyttir eru upp með púrtvíni.

Eftirlætisréttur Michal er þó sérstök rauðrófusúpa, sem kallast barszcz á pólsku. Súpan byggir á súrum grunni, sem gerjaður er nokkrum dögum áður. Við hann er svo bættur laukur, villisveppir og grænmetissoð. „Svo er drukkið kompot við borðhaldið, sem er drykkur gerður úr þurrkuðum ávöxtum og er aðeins í boði þetta eina kvöld á árinu.“

Annar siður snýr að því að skilja eftir autt sæti og leggja á borð fyrir óvæntan gest. „Ef einhver bankar upp á ber okkur skylda til að bjóða gestinum að sitja til borðs og borða með okkur.“ Heyknippi er sett undir dúkinn fyrir máltíð. Michal segir að þar komi saman blanda af heiðnum og kristnum sið. „Heyið tengist því að Jesú á að hafa fæðst í heyjötu, en einnig er þetta tengt grósku jarðar og á að veita þér gjöfulla ár. Þá þekkist það einnig að nota heyið í eins konar spádóm um komandi tíma.“

Michal man jólin sem góða tíma, þar sem mikið var snætt og síðan voru sungin jólalög og opnaðar gjafir. Þeir kirkjuræknu fóru svo gjarnan í miðnæturmessur. Eftir þær settist fullorðna fólkið við kökuát og kneyfði vín með því. Hann segist að sjálfsögðu sakna þess að verja jólunum með fjölskyldu sinni í Póllandi og alls þess góðgætis sem hann fékk venjulega á aðfangadag. Hins vegar hefur Michal þegar gripið til sinna ráða við að færa pólskar jólahefðir inn í sitt heimilishald. „Ég fékk uppskriftina af barszcz frá ömmu og endurgerði súpuna og soðkökur með því alveg frá grunni í fyrra með dásamlegum árangri. Nú verður það fastur forréttur á okkar borðum á aðfangadag.“

Inntur eftir því hvað honum þykir athyglisvert við íslenskar jólahefðir segist Michal hálfskelkaður yfir öllum jólasveinunum og jólakettinum. „Þetta eru hrollvekjandi verur sem ég hafði aldrei heyrt af áður. Að það séu einhverjir gaurar stelandi pottum og kjöti, sleikjandi aska og pönnur, skellandi hurðum og sníkjandi kerti þykir mér furðulegt. Þar að auki þarf maður að óttast að köttur éti mann! Þetta hlýtur að hafa verið stuðandi fyrir börn,“ segir hann og hlær.

Michal heillast af því hvernig Íslendingar blanda saman álfatrú og kristnum hefðum á jólunum. „Mér þykir mjög áhugavert og töfrandi að sjá fólk dansa í kringum eldinn á þrettándanum, álfum og jörðinni til heilla.“

Í ár eru einstök jól í lífi Michals, því í byrjun mánaðarins fæddist honum og unnustu hans, Karinu Hanney Marrero, sonurinn Leó.„Ég er í öðruvísi hátíðarskapi út af komu sonar okkar. Ég hlakka til að bjóða vinum og fjölskyldu heim og gleðjast. Þegar Leó verður eldri mun ég eflaust fá hann til að leita að fyrstu jólastjörnu kvöldsins meðan ég elda barszcz.“

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...