Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Haust í Eyjafirði.
Haust í Eyjafirði.
Mynd / Bbl
Af vettvangi Bændasamtakana 13. október 2025

Tími tækifæranna

Höfundur: Katrín Pétursdóttir, lögfræðingur BÍ.

Landbúnaður á Íslandi hefur alla tíð verið hornsteinn samfélagsins og grunnstoð í fæðuöryggi þjóðarinnar. Niðurgreiðslur landbúnaðarvara hafa átt sér stað hérlendis síðan árið 1943 og er sá stuðningur ríkisins ein leið til kjarajöfnunar fyrir heimilin í landinu. Þannig hófu stjórnvöld að niðurgreiða búvörur með það að markmiði að draga úr verðbólgu og tryggja bændum sambærileg laun og sambærilegar stéttir þjóðfélagsins voru með á þeim tíma.

Slíkur stuðningur ríkisins á innlendum landbúnaðarafurðum snýr þar af leiðandi ekki aðeins að bændum sjálfum heldur einnig að því að tryggja almenningi greitt aðgengi að matvælum, ekki síst öruggum matvælum. Þá er í þessu samhengi vert að hafa í huga að fæðuöryggi á grundvelli innlendrar landbúnaðarframleiðslu er hluti af núgildandi þjóðaröryggisstefnu sem og landbúnaðarstefnu stjórnvalda.

Starfsumhverfi íslensks landbúnaðar er beintengt búvörusamningum hverju sinni. Samningarnir eru gerðir á grundvelli búvörulaga og er ætlað að endurspegla hinar ýmsu skyldur stjórnvalda gagnvart íslenskum landbúnaði og að sama skapi þær kröfur sem gerðar eru til bænda, svo sem varðandi framleiðslu.

Búvörulög

Starfsumhverfi íslensks landbúnaðar byggir á búvörusamningum sem gerðir eru á grundvelli búvörulaga. Tilgangur laganna gagnvart búvöruframleiðendum er margþættur en er meðal annars að framleiðslu búvara til neyslu og iðnaðar skuli vera í sem nánustu samræmi við þarfir þjóðarinnar og tryggja ávallt nægjanlegt vöruframboð við breytilegar aðstæður í landinu. Þá segir enn fremur að kjör þeirra sem stunda landbúnað skulu vera í sem nánustu samræmi við kjör annarra stétta.

Að þessu leyti, þá hefur það verið markmið stjórnvalda um langa hríð að tryggja eigi bændum sambærileg kjör miðað við aðrar stéttir. Hvað séu hins vegar eðlileg kjör samanborið við aðrar stéttir hefur síðan verið skýrt nánar í lögunum, til að mynda þar sem fjallað er um verðlagningu mjólkur. Þar segir að áætlað vinnuframlag skuli skila endurgjaldi hliðstæðu og gerist hjá þeim starfsstéttum sem bera sambærilega ábyrgð á rekstri og mæta hliðstæðum kröfum um viðveru og færni.

Þá kveða lögin á um að heimilt sé að mæla fyrir um endurskoðun búvörusamninga á samningstímanum þar sem metin séu áhrif og þróun samkvæmt samningunum og teknar upp samningaviðræður að nýju teljist þess þörf.

Því verður að telja að samkvæmt lögunum sé nokkuð skýrt að bæði eigi innlend landbúnaðarframleiðsla að anna innanlandsmarkaði auk þess sem afkoma þeirra sem slíka framleiðslu stunda eigi að vera í eðlilegu samræmi við kjör annarra stétta.

Bændur bera jafnframt ákveðnar skyldur samkvæmt búvörulögum og búvörusamningnum, svo sem með því að skuldbinda sig til að framleiða landbúnaðarafurðir. Ríkið og bændur skuldbinda sig einnig til að stuðla að þróun atvinnugreinarinnar. Það gefur auga leið að slíkt raungerist ekki nema afkoma bænda sé tryggð til framleiðslunnar.

Í lögunum er sérstaklega kveðið á um að framleiðsla búvara eigi að vera í samræmi við þarfir þjóðarinnar og að bændur eigi að njóta sambærilegra kjara og aðrar stéttir. Það er þannig ekki aðeins val stjórnvalda, heldur lagaskylda, að tryggja bændum fyrir fram skilgreinda afkomu og stuðla að þróun greinarinnar. Ríkisvaldinu ber þannig lögum samkvæmt að tryggja starfsskilyrði í landbúnaði.

3,7 milljarða vantar inn í kerfið

Samkvæmt útreikningum, byggðum á gögnum frá fjármálaráðuneytinu og atvinnuvegaráðuneytinu, vantar um 3,7 milljarða króna inn í kerfið vegna áranna 2017–2024. Þetta stafar af því að verðlagsuppfærsla búvörusamninga hefur ekki fylgt þeim forsendum sem lagt var upp með. Þessi skekkja hefur bein áhrif á rekstur bænda og þar með á framtíð íslensks landbúnaðar. Að vanfjármagna kerfið er eins og að stela heyinu úr hlöðunni og ætlast samt til að rollurnar verði saddar.

Eftirlit – þörf á hagræðingu og nýrri nálgun

Á síðustu mánuðum hefur mikil umræða skapast um aukinn kostnað við eftirlit, sérstaklega í tengslum við gjaldskrá Matvælastofnunar. Bændasamtökin hafa bent á að hægt sé að ná fram hagræðingu með áhættumiðuðu eftirliti og innleiðingu tæknilausna. Þótt slíkt krefjist stofnkostnaðar til að byrja með, myndi það til lengri tíma spara verulegar fjárhæðir og nýtast bæði bændum og neytendum.

Jafnframt er nauðsynlegt að endurskoða regluverkið í heild sinni og samræma það nýjum lausnum sem mörg fyrirtæki hafa þegar tekið upp, svo sem innanhúss gæðakerfi. Eftirlit með matvælum og hollustuháttum hefur um langt árabil verið í höndum fjölmargra aðila, með tilheyrandi skorti á samræmi og ábyrgð. Það hefur meðal annars leitt til þess að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur sent íslenskum stjórnvöldum áminningarbréf vegna framkvæmdar eftirlits með matvælum.

Í ljósi þessa hafa stjórnvöld kynnt áform um breytingar á lögum (mál nr. S-160/2025), þar sem eftirlit með hollustuháttum, mengunarvörnum og matvælum verður fært til Umhverfis- og orkustofnunar og Matvælastofnunar. Í stað þess að ellefu heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga annist þessi verkefni verða eftirlitsaðilar aðeins tveir, með miðlæga útgáfu starfsleyfa. Markmið breytinganna er að auka samræmi, skýra ábyrgð og einfalda stjórnsýslu.

Bændasamtök Íslands fagna þessum áformum í umsögn sinni og telja þau skýrt svar við ábendingum sem fram hafa komið um brotakennda framkvæmd eftirlits. Samtökin leggja þó ríka áherslu á að fyrirkomulag opinbers eftirlits verði málefnalegt, gagnsætt fyrirkomulag opinbers eftirlits með matvælaframleiðslu. Þá ítreka samtökin að nauðsynlegt sé að breytingarnar verði full fjármagnaðar, til þess að ekki skapist hætta á að aukinn kostnaður flytjist yfir á frumframleiðendur matvæla eða neytendur, svo markmiðin náist.

Að mati Bændasamtakanna er þetta jafnframt tækifæri til að hagræða og innleiða tæknilausnir sem geta lækkað eftirlitskostnað til framtíðar. Með áhættumiðuðu eftirliti og einfaldara regluverki er unnt að tryggja skilvirkni án þess að ganga lengra en lög mæla fyrir um. Þannig næst fram jafnvægi milli öryggis neytenda og réttmætra væntinga bænda um sanngjarna og fyrirsjáanlega stjórnsýslu.

Tækifæri landbúnaðarins

Um langt árabil hafa bændur hagrætt í rekstri, en á sama tíma hefur beinn stuðningur dregist saman, tollvernd veikst og kostnaður aukist. Afleiðingin er fækkun býla, minni framleiðsla, minni fjárfesting og veikari byggðir. Þessi þróun er ekki aðeins ógn við íslenskan landbúnað og þá sem hann stunda heldur einnig ógn við fæðuöryggi þjóðarinnar á skjön við þjóðaröryggisstefnu stjórnvalda.

Nú hafa stjórnvöld tækifæri til að snúa þessari þróun við, með því að tryggja réttláta verðlagsuppfærslu, eðlilega afkomu bænda, fjármagna verkefni sem lögð eru í hendur þeirra sem yrkja landið og einfalda regluverk um eftirlit. Þannig verður hægt að styrkja íslenskan landbúnað, tryggja fæðu- og matvælaöryggi og byggja upp atvinnugrein sem er sjálfbær og samkeppnishæf til framtíðar og framleiðir fyrirmyndar afurðir.

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur
Fréttir 5. desember 2025

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur

Breytingar á reglum um erfðabreyttar lífverur hafa verið kynntar til umsagnar í ...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...