Tími íslenskrar náttúru er núna
Atvinnustefna Íslands, vaxtarplan ríkisstjórnarinnar til ársins 2035 liggur fyrir. Stefnan er orkusækin og metur gagnaver og annan orkufrekan iðnað ofar öðru. Samhliða fjallar Alþingi um frumvarp til einföldunar ferla til að flýta framkvæmdum og orkuöflun. Hættulegt mál sem getur leitt til þess að fleiri stórframkvæmdir en nú komi að óvörum og verði verr undirbúnar. Atvinnustefna stjórnvalda, lýðræði og samráð varðar okkur öll, náttúru landsins, framtíð barnanna. Atvinnustefnu þarf að undirbúa vel og í breiðri sátt sem verður vonandi gert.
Hlutverk ríkisstjórna
Náttúruvernd, útivist, hreyfing, hollur matur, hreint loft, útsýni, víðerni, plöntur og dýr eru undirstaða lífsgæða og því á náttúruvernd heima í atvinnustefnu. Heilsuátak þyrfti að vera þar líka með áætlun um hollari venjur, heilbrigðara umhverfi, nothæfar almenningssamgöngur og gott aðgengi að menntun og þjónustu. Hlutverk ríkisstjórnar gagnvart atvinnuvegum þjóðarinnar er að tryggja velferðina, innviðina og ekki síst náttúruna sjálfa. Byggja upp góða og fjölbreytta menntun og menningu og skapa lagaumhverfi, sem ýtir undir nýsköpun en kemur í veg fyrir fúsk og sjálftöku og gerir framkvæmdaaðila ábyrgan fyrir afleiðingum ágengra, auðlindafrekra verkefna. Í atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar er áhersla á mikla framleiðni og hagvöxt án þess að hugsað sé til þess hvað hann kostar framtíðina og náttúruarf okkar allra.
Vanda sig, ekki flýta sér
Margt sem tengist náttúruvernd og lífvænlegum aðstæðum um allt land, vantar í stefnuna. Hvernig hlúum við að náttúrunni og græðum upp landið og ræktum? Hvernig bætum við umhverfi lífrænnar landbúnaðarframleiðslu og einföldum regluverk fyrir matvælaframleiðendur fyrir sölu afurða beint frá býli? Hvernig beinum við orkusölu til grænmetisframleiðslu, tryggjum lágt verð á raforku á köldum svæðum og í landbúnaði og breytum styrkjakerfi landbúnaðarins til að styðja við náttúruvæna og sjálfbæra framleiðslu? Hvernig styðjum við fjölbreyttari, vistvænni og heilsusamlegri byggðir, þar sem einstaklingsframtakið nýtur sín? Þar sem fólk skapar en er ekki að bíða eftir stórframkvæmdum ríkisstjórnar til að tryggja afkomu sína. Nú er kominn tími til að hætta fúski í framkvæmdum, eins og í byggingariðnaði og sjókvíaeldi og láta ekki hagvaxtarþrána eina ráða för. Vinnum í ferðaþjónustu en ekki ferðamannaiðnaði og látum ekki orð ársins „Gjaldskylda“ (fyrir ekkert) verða vörumerki okkar.
Auðlindin sem gefur
Fyrir þjóð sem gegnum tíðina hefur hneigst til rányrkju og að drífa í framkvæmdum óháð afleiðingum er sérstaklega hættulegt að stjórnvöld gangi fram fyrir skjöldu til þess að einfalda reglur, draga úr lýðræðislegri aðkomu almennings og skerða áhrif fagstofnana, eins og boðað er í frumvarpinu um einföldun ferla. Saga stórfelldra inngripa ríkisstjórna í atvinnulíf er víða áfallasaga og líkleg til að hamla heilbrigðum vexti og sjálfbærum framleiðsluháttum frekar en að efla þá. Vel menntuð þjóð sem býr við hagsæld getur gert betur en að halla sér að skyndilausnum og „lágt hangandi ávöxtum“ eins og það heitir núna á pólitísku. Samhengið á milli auðlindaríkra landa og almennrar hagsældar er ekki sjálfgefið. Sagði einhver Venesúela, eða Rússland? Náttúran sjálf er mikilvægasta auðlindin sem gefur, ef hún er ekki rænd.
