Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
„Árin 2018 og 2019 voru 48 dagar leyfðir/nýttir án þess að veiðarnar væru
stöðvaðar. Fyrra árið var meðalfjöldi róðra á bát 27 og 26 síðara árið. Þetta
er um 55% af 48 daga heimildinni,“ segir Arthur m.a. í grein sinni.
„Árin 2018 og 2019 voru 48 dagar leyfðir/nýttir án þess að veiðarnar væru stöðvaðar. Fyrra árið var meðalfjöldi róðra á bát 27 og 26 síðara árið. Þetta er um 55% af 48 daga heimildinni,“ segir Arthur m.a. í grein sinni.
Mynd / hh
Lesendarýni 27. mars 2025

Tilhæfulaus fyrirgangur

Höfundur: Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda.

Að undanförnu hefur mikill fyrirgangur verið vegna þeirrar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar að tryggja strandveiðimönnum heila 48 veiðidaga til frambúðar.

Til upprifjunar: Á fyrsta ári kvótakerfisins (1984) máttu þeir róa 313 daga, óháð veiðarfærum.

Arthur Bogason.

Margir hafa lagt hönd á plóg til að sannfæra almenning um þá fávisku að leyfa þessa 48 veiðidaga.

Að venju siglir SFS (LÍÚ) fremst í þeim flota með sínar margtuggnu klisjur um fánýti smábátaútgerðarinnar og dregur í kjölsoginu félagasamtök skipstjóra og sjómanna.

Á vefsíðu SFS (LÍÚ) stendur orðrétt:

„Ljóst er að upphafleg markmið stjórnvalda með strandveiðum um nýliðun og aukna byggðafestu hafa ekki náðst ...“

Engin athugasemd er gerð við ágæti þessara markmiða, enda rök gegn þeim vandfundin.

Eina tillagan sem ég hef séð frá þessum samtökum varðandi strandveiðikerfið er að afnema það. (Sjá „Auðlindin okkar“ og umsagnir SFS til atvinnuveganefndar).

Er líklegt að afnám kerfisins auki nýliðun og byggðafestu?

Strandveiðikerfið var lögfest 2009 í kjölfar úrskurðar Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna árið 2007.

Ekki vantaði áhyggjur ýmissa þess eðlis að miðin myndu stíflast af trillubátum í kjölfarið. Um það má fræðast á vef Alþingis. Þetta reyndist argasta bull. Að loknum 16 strandveiðivertíðum árið 2024 var mestur fjöldi báta árið 2012, 759 bátar. Stóra spurningin er þessi:

Hvers vegna hafa þessi markmið ekki náðst sem skyldi og hvað er til ráða?

Það er hægt að breyta strandveiðikerfinu í tvær áttir.

1. Þrengja enn frekar að því / leggja það niður.

2. Rýmka til í því.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að til að ná framangreindum markmiðun þurfi að rýmka til í kerfinu. Hún hefur boðað frumvarp þess efnis sem lagt verður fram í þessum mánuði.

Framkvæmdastjóri SFS (LÍÚ) hefur fleira á hornum sér varðandi strandveiðar. T.d. að þessir ellismellir séu við veiðar á þeim tíma árs sem gæði aflans sé lökust, þ.e. yfir hásumarið.

Ég er þessu ósammála (ásamt stórum kaupendum strandveiðiaflans) en ef SFS (LÍÚ) vill vera samkvæmt sjálfu sér myndu þau skora á stjórnvöld að lengja strandveiðitímabilið.

Meðalaldur trillukarla er allt of hár að mati SFS (LÍÚ), hátt í 60 ár. Með þeirri breytingu sem ríkisstjórnin boðar er líklegra en hitt að meðalaldurinn lækki – nýliðun aukist.

Hinn 18. febrúar sl. fór fram sérstök umræða um strandveiðar á Alþingi. Málshefjandi bergmálaði málflutning SFS (LÍÚ) í einu og öllu, en tók engu að síður fram að hann væri stuðningsmaður strandveiða. Stundum er erfitt að skilja málflutninginn á Alþingi, svo vægt sé til orða tekið.

Allt þetta fjas snýst um brotabrot af því sem sótt er í hafið við Íslandsstrendur.

Ef það er tilfellið að stórútgerðin verði á fallanda fæti í kjölfar 48 daga til strandveiða, verður að fara í gagngera endurskoðun á aflamarkskerfinu.

Að öllu þessu sögðu er vert að hafa í huga að það er oft athyglisverðara hvað er látið ósagt – eða ekkert fjallað um.

Hvorki SFS (LÍÚ), málshefjandinn á Alþingi, né þeir sem stokkið hafa á vagninn í áróðrinum gegn strandveiðum, hafa minnst einu aukateknu orði á þá staðreynd að það stendur ekki steinn yfir steini í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.

Enginn þeirra telur ástæðu til að staldra við þá staðreynd að stofnunin ítrekaði á árabilinu 1975–1983 að afrakstursgeta þorskstofnins væri 450–500 þúsund tonn.

Enginn þeirra sér ástæðu til að nefna ástand nytjastofna eins og humars, rækju, loðnu, blálöngu, karfa og margra annarra tegunda – undir verndarvæng „besta fiskveiðistjórnunarkerfis í heimi“.

Hinn 15. janúar sl. birtist grein í Bændablaðinu eftir Magnús Jónsson, veðurfræðing og stærðfræðing, undir yfirskriftinni „Gervivísindi og fataleysi“.

Magnús flysjar laukinn inn að kjarna. 

Viðbrögð Hafró? Viðbrögð málshefjandans á Alþingi? Viðbrögð SFS (LÍÚ) og annarra hagsmunasamtaka í sjávarútvegi? Viðbrögð stóru fjölmiðlanna? Öll á einn veg: dauðaþögn!

Grein Magnúsar hefur verið þýdd á ensku og frönsku og dreift um Evrópu og víðar. Það kemur að þeim tímapunkti að þvættingurinn sem SFS (LÍÚ) hefur dreift eins og vindurinn um „besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi“ rotnar í höndum þeirra.

Þögnin er ekki bara æpandi varðandi grein Magnúsar.

Í nóvember 2022 var farið í rannsóknaleiðangur á Árna Friðrikssyni, rannsóknaskipi Hafrannsóknastofnunar, út af Vesturlandi og Vestfjörðum. Um borð voru vísindamenn frá Noregi, Íslandi og Nýfundnalandi. Markmiðið var að komast að því hversu stórt hlutfall fiska færi í trollpokann annars vegar og hins vegar í sérstakan safnpoka fyrir þá fiska sem færu undir grjóthoppara botntrollsins.

Þessi rannsókn var ekki sú fyrsta sinnar tegundar.

Árið 2006 var sams konar rannsókn framkvæmd í Noregi af Ólafi Arnari Ingólfssyni, fiskifræðingi og starfsmanni Hafrannsóknastofnunarinnar í Bergen. Ólafur varði skýrslu sína til doktorsnafnbótar.

Niðurstöður þessara rannsókna eru sláandi. Í norsku rannsókinni fór u.þ.b. þriðjungur þorsks undir trollið en vel yfir 50% í þeirri íslensku. Hvað varðar ýsuna eru tölurnar mjög sambærilegar á milli rannsókna, 24–35%.

Hvað aðrar tegundir varðar er þetta síst skárra og í sumum tilfellum mun verri (skötuselur: 86% í safnpokann í íslensku rannsókninni).

Vart þarf að taka fram að stórt hlutfall fiskanna sem lenda í safnpokanum eru skaddaðir.

Hvernig má það vera að íslenskir fjölmiðlar hafa ekki séð ástæðu til að taka til skoðunar grein Magnúsar Jónssonar og niðurstöður þeirra rannsókna sem að framan er getið?

Hvernig má það vera að fjöldi aðila í stjórnmálastétt og aðilar innan hagsmunasamtaka sjávarútvegsins eyða ómældum tíma og orku í að fjandskapast út í skakkarla Íslands á sama tíma og framangreint liggur fyrir?

Í þeirra málflutningi láta þessir aðilar það eftir sér að fullyrða að 48 dagar þýði 48 daga meðalfjölda róðra á hvern einasta bát, margfalda þá tölu með 774 kg af þorski (hámarks leyfilegur afli í róðri) og margfalda síðan þá útkomu með heildarfjölda bátanna.

Hvernig passar þessi málflutningur við raunveruleikann?

Árin 2018 og 2019 voru 48 dagar leyfðir/nýttir án þess að veiðarnar væru stöðvaðar. Fyrra árið var meðalfjöldi róðra á bát 27 og 26 síðara árið. Þetta er um 55% af 48 daga heimildinni! Hvort árið um sig náðu 9 bátar (um 2%) að nýta heimildina til fulls.

Þetta sýnir betur en flest annað hversu tilhæfulaus fyrirgangurinn er varðandi þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að tryggja strandveiðimönnum 48 daga til frambúðar.

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...