Tilbrigði við þekkta uppskrift
Að þessu sinni er tekinn fyrir jepplingurinn Mitsubishi Outlander PHEV sem kom í nýrri útgáfu fyrr á árinu. Nánustu keppinautar eru sennilega Nissan X-Trail og Toyota Rav4.
Fyrri gerðin af Outlander PHEV mældist vel fyrir hérlendis. Nýja týpan er beint framhald þar sem ekki er vikið langt frá fyrri uppskrift. Sé horft á bílinn að utan fer ekki á milli mála að þetta er Outlander, enda keimlíkur forvera sínum. Nýja gerðin er kubbslegri en áður og núna er húddið ekki eins aflíðandi. Outlander hefur lengst og breikkað um tvo sentímetra og hækkað um þrjá og hálfan. Þó svo að þetta sé lítið á blaði er bíllinn talsvert stærri á að líta.
Sæti í réttri hæð
Bíllinn sem blaðamaður hafði til umráða var af Instyle útgáfunni, sem er 800.000 krónum dýrari en grunnútgáfan Invite. Þegar sest er um borð tekur á móti manni vel útbúin og nútímaleg innrétting en í Instyle er leðuráklæði á sætum og víðs vegar um innréttinguna á meðan notast er við leðurlíki í Invite bílnum. Sætin eru í mátulegri hæð og ættu allir að geta tyllt sér um borð án þess að reyna um of á mjaðma- og hnjáliði.
Sóllúgan, sem er staðalbúnaður í Instyle-gerðinni, spillir allnokkuð fyrir höfuðrýminu að aftan og er ólíklegt að hávaxnir farþegar muni geta komið sér vel fyrir. Skottið er býsna stórt og þar má finna hefðbundna heimilisinnstungu sem gefur 220 volt. Auðvelt er að fella niður aftursætin með því að toga í aðgengilega flipa.
Gott úrval takka
Í mælaborðinu er nóg af hefðbundnum tökkum til þess að stjórna miðstöð, útvarpi og öðru sem er gott að geta nálgast fyrirhafnarlaust. Í miðri innréttingunni er snertiskjár sem er hægt að tengja þráðlaust við símann með Android Auto og Apple CarPlay. Fyrir utan að vera með leiðsögukerfi, útvarp og margmiðlunarkerfi er skjárinn nokkuð takmarkaður og fara flestar nánari stillingar á kerfum bílsins fram í gegnum litla aksturstölvu hjá hraðamælinum og er henni stjórnað með tökkum í stýrinu. Outlander er með Yamaha hljóðkerfi, en þrátt fyrir að hátalararnir komi frá vönduðu merki fannst þeim sem þetta ritar vanta nokkra fyllingu í hljóminn.
Fremst í miðjustokknum er þráðlaus hleðsla fyrir síma. Á milli sætanna er jafnframt lokuð geymsla og tveir glasahaldarar. Gírstöngin er lítill hnúður sem stendur upp úr miðjustokknum. Þar fyrir aftan er snúningshjól til að velja ólíkar akstursstillingar.
Fylgst með ökumanninum
Framsætin eru með hita og kemur Instyle-útgáfan jafnframt með kælingu. Hins vegar er eins og framleiðandanum hafi yfirsést að fóðra vélbúnað þessu tengdu og fann undirritaður vel fyrir einhverju hörðu sem var akkúrat undir setbeininu. Af þeim sökum má áætla að sætin gætu reynst sumum óþægileg á löngum ferðalögum.
Í þessum bíl er hið svokallaða hámarkshraðapíp sem er skylda í nýjum bílum. Eftir að notandinn er búinn að skilgreina ákveðna flýtileið er hægt að slökkva á því með þremur smellum, sem er að mati undirritaðs tveimur smellum of mikið. Hluti af öryggisbúnaði bílsins er myndavél sem fylgist með árvekni ökumannsins. Ef bílstjórinn er mikið að horfa á landslagið í kringum sig heyrist píp. Þá kemur upp viðvörun um þreytu ökumanns í flest skipti sem hann geispar.
Rafstöð án gírkassa
Outlander er með bensínvél sem hefur það hlutverk að framleiða orku fyrir rafmótora í hvorum öxli. Í þessum bíl er engin sjálfskipting eða bein tenging milli vélar og drifrásar. Að því gefnu að notandinn sinni því að hlaða 22,7 kílóvattstunda rafhlöðuna getur akstursupplifunin verið afar áþekk venjulegum rafmagnsbílum. Akstursdrægni á rafmagninu er, samkvæmt framleiðanda, í kringum 85 kílómetra. Heildarafl bílsins er 302 hestöfl, sem er mátulegt í almennum akstri.
Þegar ekið er á háum hraða finnst smávægilegur titringur sem eykur álag á ökumann og farþega. Að öðru leyti er bíllinn hljóðlátur og á lægri hraða afar mjúkur. Sé inngjöfin stigin í botn eða rafhlaðan tóm heyrist smávægilegur vélaómur. Á malarvegi er bíllinn nokkuð hastur, en nær ágætlega að einangra hljóð frá steinkasti. Talsvert glymur í bílnum ef ekið er í dýpri holur. Dekkin ná góðu gripi, jafnvel í lausamöl.
Sjaldgæft hleðslutengi
Fjarlægðatengdi hraðastillirinn virkar ágætlega úti á beinum þjóðvegi eða í hraðri umferð. Ef bíllinn fyrir framan nemur staðar í hægri morgunumferð þá stoppar Outlander líka sjálfkrafa. Til þess að bíllinn rjúki ekki strax af stað aftur þarf ökumaðurinn að sjá um að halda niðri bremsufetlinum. Þá þarf að virkja hraðastillinn aftur þegar umferðin hreyfist aftur. Af þeim sökum er akstur í umferðarteppu ekki eins fyrirhafnarlítill og hann getur verið. Bíllinn er jafnframt ekki með sjálfstýringu eða akreinaaðstoð, en rási ökumaðurinn út fyrir akrein heyrist viðvörunarhljóð.
Bíllinn er með tvö ólík hleðslutengi og hljómar mjög spennandi að annað þeirra bjóði upp á 120 kílóvatta hleðslu, sérstaklega fyrir þá sem vilja nota Outlander sem rafbíl á ferðalögum. Gallinn er hins vegar sá að það er tengi af gerðinni CHAdeMO sem nánast enginn nýr rafmagnsbíll notar í dag og eru þannig hleðslustöðvar ekki eins algengar. Einungis eru þrjár CHAdeMO hleðslustöðvar á landinu sem geta fullnýtt 120 kílóvatta hleðslugetuna, en flestar eru þær á bilinu 50 til 60 kílóvött. Hitt tengið á bílnum er af gerðinni Type 2, sem er það algengasta í dag. Það tekur hins vegar ekki við nema 3,5 kílóvatta straumi sem er rúmar sex klukkustundir að fylla tóma rafhlöðu.
Að lokum
Eldri gerðin af Outlander átti sér aðdáendur og mun þessi bíll án efa höfða til þeirra. Invite kostar frá 8.690.000 á meðan Instyle kostar frá 9.890.000. Í huga undirritaðs er ódýrari gerðin eftirsóknarverðari og stenst hún betur verðsamanburð. Nánari upplýsingar fást hjá Heklu.
