Tíðarandi hálfrar aldar í máli og myndum
Út er komið yfirlitsverk með úrvali mynda eftir fréttaljósmyndarann Gunnar V. Andrésson. Lipur texti Sigmundar Ernis Rúnarssonar gæðir þær lífi.
Bókin Spegill þjóðar í útgáfu Máls og menningar hefur að geyma eftirminnilegustu myndir Gunnars V. Andréssonar, sem var einn af helstu fréttaljósmyndurum landsins í hálfa öld. Fyrsta blaðaljósmynd hans birtist í Lesbók Tímans þegar hann var 16 ára. Árið 1968, þegar Gunnar var 18 ára gamall, tók hann mynd af flugslysi í Reykjavík sem birtist á forsíðu Tímans og hefst bókin Spegill þjóðar þar. Að auki við Tímann starfaði Gunnar hjá Vísi, DV og síðast á Fréttablaðinu. Þar lét hann af störfum árið 2018, kominn á eftirlaunaaldur.
Fyrir þá sem upplifðu ekki þá tíma sem gert er skil í bókinni gæðir texti Sigmundar Ernis Rúnarssonar þær miklu lífi. Lesendur fá innsýn í baksögu hverrar myndar, sem oft er mun skemmtilegri en fréttin sem þær fylgdu á sínum tíma. Textinn er snarpur og er auðvelt að gleyma sér í tíðaranda liðinna áratuga þegar flett er í gegnum Spegil þjóðar. Sigmundur og Gunnar kynntust þegar þeir störfuðu saman á Vísi og DV í upphafi níunda áratugarins og skín í gegn að þeir hafa skemmt sér við vinnu þessa verks.
Myndunum í bókinni er raðað í tímaröð þar sem ein eða örfáar myndir úr tilteknum verkefnum eru á hverri opnu. Erfitt hefur verið að velja myndir af hálfrar aldar ferli, enda aðeins örfáar myndir frá hverju ári sem birtast í bókinni. Þegar flett er í gegnum bókina sést hversu næmt fréttanef Gunnar hefur haft, því að margar þeirra sýna markverðustu viðburði þjóðarinnar í þá hálfu öld sem hann vann við fagið. Margar myndanna hafa lifað í minni þjóðarinnar án þess að almenningur viti hver höfundur þeirra var. Ein sú allra þekktasta sýnir Bill Clinton í lúgunni á pylsuvagni Bæjarins beztu árið 2004.
Bókin er eigulegur gripur og prentuð á vandaðan pappír. Í huga undirritaðs eru það hins vegar mikil vonbrigði að þær myndir sem Gunnar tók í lit, ýmist stafrænt eða á filmu, eru prentaðar svarthvítar og er útkoman í sumum tilfellum nokkuð flöt.
Auðvelt er að segja að bókin beri nafn með rentu, því að Gunnar hefur sannarlega speglað þjóðina í myndum sínum.
