Þúsund ár og þúsund enn
Mynd / Unsplash - Tom Vining
Af vettvangi Bændasamtakana 4. desember 2025

Þúsund ár og þúsund enn

Höfundur: Steinþór Logi Arnarsson, formaður Samtaka ungra bænda

Það má með sanni segja að þessi dægrin sé í mörg horn að líta í landbúnaðarmálum á Íslandi, eins og svo oft áður. Það kemur okkur öllum við því landbúnaður hefur fjölmarga snertifleti við samfélagið á hverjum degi hvort sem það er hversdagur eða hátíðardagur. Þess utan spilar landbúnaður stóra rullu í stærra og víðara samhengi til lengri tíma. Þessir snertifletir, sem oft eru ólíkir, safnast saman í samspil fjölmargra þátta sem margir eru augljósir en aðrir lúmskari.

Maturinn er einn þessara augljósu þátta en hann er í hávegum hafður á okkar bestu stundum í lífinu. Það á ekki síst við núna þegar desember og aðventan er gengin í garð ásamt öllu því sem hún hefur upp á að bjóða. Fólk fylkist til að mynda saman á jólahlaðborðin sem svigna undan kræsingum sem oftar en ekki eiga það sameiginlegt að vera úr fyrsta flokks afurðum bænda. Það hefst allt með góðum bændum sem mánuðum og árum saman hafa lagt alúð í þessar afurðir sem fólk keppist við að hlaða á diskana sína og eiga góða stund og augnablik.

Atvinnuvegaráðherra boðaði nýverið til málþings um fæðuöryggi þar sem sóknarfæri innlends landbúnaðar komu bersýnilega fram í erindum og umræðum. Í þeim kristölluðust einmitt verkefni komandi missera sem þurfa að byggjast á fjárfestingum og uppbyggingu. Fæðuöryggi er hluti af varnarmálum þar sem slagorðið „þú tryggir ekki eftir á“ á vel við, enda veit enginn hvað framtíðin býður upp á þótt okkar fremstu sérfræðingum hafi tekist ágætlega til við að meta stöðuna og horfur eins og kostur er.

Það er til margra þátta að horfa af öllum þeim sem hafa áhrif á framtíð innlends landbúnaðar með ákvörðunum sínum beinum eða óbeinum, stórum sem litlum. Stjórnvöld, kjörnir fulltrúar og embættisfólk teflir með umhverfi og starfsskilyrði landbúnaðarins þar sem hægt er að leika góða leiki og slæma. Þannig má nefna af því sem er í deiglunni mögulega framlengingu á búvörusamningum, stuðning við orkusparandi og loftslagsvænar fjárfestingar í landbúnaði, álagningu vörugjalda, breytingar á erfðaskatti á landi, jörðum og hlunnindum, breytingar á tollum og búvörulögum, skipulagsmál, lög og regluverk og svo margt annað sem varðar starfsskilyrði landbúnaðarins á einn eða annan hátt.

Framtíðin ræðst samt líka af ákvörðunum starfandi bænda, hvernig bústjórn er háttað, fjárfestingar í byggingum, ræktun, tækjum og hverju því sem snýr að búrekstrinum því að þeim munu komandi kynslóðir búa. Bændur framtíðarinnar taka ákvarðanir um að sækja sér menntun til að standa síðar að framförum og þróun og þannig heldur keðjan áfram. Neytendur umlykja svo allt saman enda lykilaðilar í þessu samhengi þegar kemur í ljós með hvaða vörum þeir standa. Framtíðin ræðst af samansafni ákvarðana framangreindra aðila. Skrefin geta verið í rétta eða ranga átt. Það verður síðar saga þróunar í landbúnaði eftir því sem tíminn líður og vert að spyrja hvað þú, lesandi, hyggst leggja til málanna. Landbúnaður hefur hrærst og þróast hér í góð þúsund ár og þarf svo sannarlega að gera það um ókomna tíð.

Það er um að gera núna í desember, þar sem við öll gerum vel við okkur í mat og drykk í faðmi okkar nánustu, að njóta með virðingu og þakklæti fyrir að hafa nóg af góðum mat. Hugið að því sem skiptir ykkur raunverulegu máli, njótið aðventunnar til hins ítrasta og eigið hugljúfa jólahátíð.

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...