Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
„Hrafn minn var höfðingsmaður mestur, Ísleifur skartsmaður mestur en Þorsteinn minn heimsmaður mestur,“ sagði Þórunn Jónsdóttir á Grund um þrjá eiginmenn sína.
„Hrafn minn var höfðingsmaður mestur, Ísleifur skartsmaður mestur en Þorsteinn minn heimsmaður mestur,“ sagði Þórunn Jónsdóttir á Grund um þrjá eiginmenn sína.
Mynd / Myndin er af gömlu korti af Grund.
Líf og starf 9. október 2025

Þrír eiginmenn og einn elskhugi

Höfundur: Kristján B. Jónasson

Þórunn á Grund var augasteinn föður síns, Jóns Arasonar biskups. Þessi frægasta pabbastelpa Íslandssögunnar lifði þrjá eiginmenn og reyndi í ellinni að giftast kornungum elskhuga en þurfti að lúta í lægra haldi fyrir leiðinlegum frændum sem ekki skildu ástina.

Á heiðbjörtum vorkvöldum þegar veröldin ljómar í vestansól stendur skyggnishúfuklætt fólk jafnan með járn sín og kylfur á túnunum á Kirkjubóli í gamla Romshvalaneshreppi. Aldalöng glíma við að rækta upp landið við hrjóstruga Miðnesströnd, íburður mörg hundruð ára af mykju, heyrusli og fiskslori ber nú þann ávöxt að velsældarlegir golfarar geta slegið hvítar kúlur í 18 holur án þess að hafa áhyggjur af öðru en eigin skori.

Mitt þar inni á einum teigunum, ekki ýkja langt frá vallarhúsi Golfklúbbs Sandgerðis, rís myndarlegur hóll úr flatanum og gömul útihús þar á. Það er bæjarhóllinn á Kirkjubóli. Víkur nú sögunni þangað.

Hefndardráp

Þeir Hólafeðgar, Jón biskup Arason og synir hans, Ari og Björn, voru höggnir í Skálholti 7. nóvember 1550. Hafði Jón prestur Bjarnason, sem sagðist þó „fávísastur af yður öllum“, lagt til það snilldarráð að taka þá af lífi í von um að hægt yrði að ljúka streði siðaskiptanna í eitt skipti fyrir öll.

Samtímaheimildir segja að konungsmenn hafi þó fljótt fundið á sér að þeir myndu ekki sleppa léttilega frá þessu. Hvern einasta vetur gengu mörg hundruð norðlenskir vermenn úr sveitum sínum í Hólabiskupsdæmi suður og vestur að verstöðvunum við Faxaflóa og á Reykjanesi. Veturinn 1550–51 dvöldu hátt í 400 Norðlendingar suður með sjó, allt vaskir menn á besta aldri og upp til hópa í hefndarhug. Þeim til viðbótar var flokkur sextíu manna nú sendur gagngert suður til að hefna aftöku feðganna.

Umboðsmaður hirðstjórans, Lárentíusar Múla, sem Íslendingar nefndu svo, var Christian Schreiber, jafnan nefndur Kristján skrifari á okkar tungu. Hann bar sem æðsti embættismaður krúnunnar á landinu ábyrgð á aftökunni í Skálholti og því augljóst að hann myndi verða skotspónn hefnendanna. Um Pálsmessu, 25. janúar, 1551, var hann staddur með vopnuðum flokki sínum í embættiserindum á Kirkjubóli og gisti þar. Norðlendingarnir vissu af ferðum hans, komu þar að áliðnu kvöldi „og voru þeir allir með hettum og hökustalli“ eins og segir í heimild – eða upp á nútíðaríslensku „í hettupeysum með buff fyrir vitum“. Þeir umkringdu bæinn, brutu þekjuna (þó ekki fyrr en eftir að hafa spurt bóndann um leyfi!) og drápu síðan Bessastaðamenn.

Illa gekk þó að vinna á Christian „því hann var í treyju sem járnin bitu ekki á“ og komst hann út úr bænum. Gekk fram vaskur piltur, að sögn átján ára gamall, „og lagði fyrir neðan treyjuna og upp í smáþarmana á honum“ og segir jafnframt að þá hefði Christian „rekið upp hljóð“.

Herstjórinn á Grund

Pilturinn sem þarna var orðinn banamaður æðsta embættismanns Danakonungs hér á landi stakk umsvifalaust af. Hann hljóp á bak á hesti sem var í garði á Kirkjubóli, gráum klár sem Ari Jónsson hinn hálshöggni hafði átt en Christian gert upptækan. Reið pilturinn eins og af tók norður og leitaði ásjár hjá skipuleggjanda herferðarinnar, einnar svipmestu persónu þessara ára, Þórunnar Jónsdóttur Arasonar sem þá bjó stórbúi á Grund í Eyjafirði og er jafnan kennd við þann bæ.

Þórunn var fædd 1510 eða 11, dóttir Jóns Arasonar sem fyrr segir og fylgikonu hans, Helgu Sigurðardóttir. Öllum heimildum ber saman um að hún hafi verið sannkölluð pabbastelpa. Þegar Jón arfleiddi fjögur barna sinna og Helgu formlega að eignum sínum 1522 fékk Þórunn jafnan hlut á við bræður sína þrjá, þá Ara, Björn og Magnús, en ekki helmingshlut eins og venjan var með dætur. Jóni fannst lítið mál að gera upp á milli barna sinna því tvö þeirra fengu ekkert, þau Sigurður og Helga. Sagt er að þegar Jón var höggvinn hafi hann beðið að heilsa „Sigurði dóttur minni og Þórunni syni mínum“. Já, Þórunn var besta stelpa í heimi í augum pabba síns og hafði hjartalag sem hæfði hennar slekti: Mild og blíð við minni máttar, örlát svo af bar, en algerlega miskunnarlaus við óvini sína.

Eiginmaður númer eitt

Eins og títt var og er um konur af höfðingjaættum var Þórunn strax sem unglingur peð í tafli föður síns. Hann gifti hana 14 ára gamla „uppgangsmanninum“ Hrafni Brandssyni, prestssyni úr Vopnafirði sem var í senn gráðugur, slóttugur og stórlátur. Akkúrat sú týpa sem Jóni Arasyni líkaði að hafa í sínu liði. Saman hjóluðu þeir tengdafeðgar í einn valdamesta mann í Skagafirði og Húnavatnssýslum um þetta leyti, Teit Þorleifsson ríka, og tókst með bolabrögðum og tuddaskap að stía honum frá lögmannsembætti og síðan eignum með klassískum gambít íslenskra höfðingjastétta 15. og 16. aldar: að dæma hann sekan við krúnuna þannig að eigur hans yrðu konungseign, en kaupa síðan sömu eigur aftur af krúnunni á hrakvirði.

Hrafn settist síðan í ríki Teits í Glaumbæ í Skagafirði. Haustið 1529 sat hann þar að drykkju með mönnum sínum. Mökkblekaður rauk hann allt í einu upp og skoraði á hólm einn sveina sinna, Filippus að nafni. Þeir brugðu sér út á hlað, drógu upp sverð og skylmdust uns Filippus veitti Hrafni ljótt sár. Þau Hrafn og Þórunn höfðu frá því þau giftust búið á Hofi á Höfðaströnd og þangað lét Hrafn nú flytja sig helsærðan. Lá hann nokkra daga en dó svo á Hofi í örmum Þórunnar.

Eiginmaður númer tvö

Ekki gafst Þórunn þó upp á ástinni. Eftir að hafa fengið hjálp pabba gamla við að ná öllum eignum Hrafns undir sig að honum gengnum giftist hún Ísleifi Sigurðssyni, sýslumanni Eyfirðinga, 1533 og fluttist til hans norður á Grund. Hún var enn kornung, aðeins 23 ára, og þau hjón stóreignafólk og þess utan með góðan smekk. Þau kostuðu til að mynda gerð einna merkustu útskurðarmuna Íslandssögunnar, Grundarstólanna, sem nú eru varðveittir í Þjóðminjasöfnum Íslands og Danmerkur.

Þeim varð ekki barna auðið og Ísleifur var heldur ekki alveg nógu góður til heilsunnar. Hann hvarf héðan úr heimi 1549 og stjórnaði Þórunn þá veldi þeirra eiginmannslaus. Þegar bræður hennar og faðir voru gerðir höfðinu styttri varð hún forkólfur hinnar kaþólsku andspyrnu á Norðurlandi og virðist hafa skipulagt og kostað hefndarförina 1551.

Þriðji maðurinn

Allnokkru fyrr, líklegast um það leyti sem Þórunn var „milli manna“ upp úr 1530, kynntist hún Þorsteini Guðmundssyni „leikara“ frá Felli í Kollafirði á Ströndum sem þá var á Hólum í liði föður hennar. Eins og viðurnefnið bendir til var hann fjörugur náungi og svo mikill kvennamaður að sagnariturum hefur blöskrað, Páll Eggert Ólason segir að kvensemi hans „hafi verið sjúkdómur“. Þórunn á Grund var líka orðlögð fyrir að skirrast ekki við að kveða þá til hvílu sem henni leist vel á og því ekki úr vegi að þetta kynorkumikla fólk drægi sig saman, bæði hokin af reynslu í ástarmálum. Þau giftu sig, varð ekki barna auðið en sambúð þeirra var að allra heimilda dómi með miklum ágætum. Þau kunnu að „lifa og njóta“ eins og nú er sagt.

Svo dó Þorsteinn kvensami sem átti sex börn utan hjónabands en ekkert innan. Þórunn var hins vegar sem fyrr djarftæk til karla og sló sér nú upp með staðarprestinum á Grund, en á þeim var um fjörutíu ára aldursmunur. Vildi hún nýta nýjan sið til að giftast honum. Dúkkuðu þá upp frændur hennar sem ekki skildu ástina og komu með lagaþvargi í veg fyrir giftinguna. Tókst þessum fúlistum að lokum að dæma hana frá fjárforræði sökum meintra elliglapa. Allt í von um að halda arfinum eftir hana. Þaðan í frá var hún „ættingjum sínum erfið“. Var með kjaft og múður og sótti stöðugt í að ausa út fé, frændunum til ama.

Þórunn Jónsdóttir á Grund var komin yfir áttrætt þegar hún lést. Í einlægu viðtali á efri árum gaf hún eiginmönnum sínum þremur eftirfarandi einkunn: „Hrafn minn var höfðingsmaður mestur, Ísleifur skartsmaður mestur en Þorsteinn minn heimsmaður mestur.“

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...