Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Kemst þótt hægt fari: Að sögn íslensku Hæglætishreyfingarinnar er ástæða til að efna til vitundarvakningar um gildi hæglætis, þannig að samfélaginu takist að hlúa betur að lýðheilsu, skapa betri og innihaldsríkari félagsleg tengsl og byggja á betri ákvörðunum, teknum í yfirvegun og af skynsemi.
Kemst þótt hægt fari: Að sögn íslensku Hæglætishreyfingarinnar er ástæða til að efna til vitundarvakningar um gildi hæglætis, þannig að samfélaginu takist að hlúa betur að lýðheilsu, skapa betri og innihaldsríkari félagsleg tengsl og byggja á betri ákvörðunum, teknum í yfirvegun og af skynsemi.
Mynd / The Slow Movement
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingarinnar, verður með fyrirlestur um miðjan desember á Íslandi um ávinning hæglætis.

Hæglætishreyfingin á Íslandi var stofnuð árið 2021 og er tilgangurinn að tala fyrir og fjalla um hæglæti, þ.e. líf í meðvitund og svar við hraða og streitu samfélagsins. Hreyfingin er kynningar- og umræðuvettvangur fyrir fólk sem hefur tileinkað sér eða hefur áhuga á að tileinka sér hæglæti (e. Slow Living). Formaður er Þóra Jónsdóttir.

Hinn 14. desember nk., kl. 13, stendur Hæglætishreyfingin fyrir viðburði í sal H-102 á Háskólatorgi, þar sem Carl Honoré, talsmaður hinnar alþjóðlegu Hæglætishreyfingar (e. The Slow Movement), kemur fram og flytur fyrirlestur um hugmyndafræði hennar.

Carl Honoré er kanadískur rithöfundur og blaðamaður og hefur verið nefndur rödd Hæglætishreyfingarinnar. Hann hefur skrifað nokkrar bækur um ávinning hæglætis, m.a. bókina Lifum lífinu hægar (e. In Praise of Slow) sem kom út árið 2004.

Carl hefur, að sögn Þóru, vakið heimsathygli fyrir boðskap sinn um ávinning hæglætis og hægara samfélags, hægari og betri ákvarðanatöku, gæði hægari samskipta og margt fleira. Carl er eftirsóttur fyrirlesari og vinnur mikið í Bandaríkjunum en einnig víða annars staðar í heiminum. Huffington Post hefur t.d. sagt hann hinn „óopinbera guðföður vaxandi menningarbreytingar í átt að hæglæti“.

Hægara líf hlaðborð af ávinningi

„Stöðug pressa um að gera allt hraðar hefur þau áhrif að við flýtum okkur í gegnum lífið í stað þess að lifa því í raun og veru,“ segir Carl. „Ef þú gírar þig niður, stígur á bremsuna, nærðu yfirsýn og allt raðast á sinn stað. Þú tengir betur, skapar meira, einbeitir þér betur og afkastar meiru. Þú einfaldlega lifir meira og betur,“ segir hann.

Hæglæti er heilt hlaðborð af ávinningi, að sögn Carls, og hann bendir á að við þurfum að búa okkur til heilbrigðara samband við tímann og klukkuna. Hæglæti leiði til betri heilsu, betri tengslamyndunar við annað fólk, og þar með minni einmanaleika, og geri okkur öflugri og meira skapandi, nákvæmari og auki samlíðan okkar, svo eitthvað sé nefnt. Hraðinn í lífinu geri það að verkum að við séum stöðugt að hlaupa frá einhverju en ekki að því.

Mjallhvít á sextíu sekúndum

„Við erum stöðugt að forðast sjálf okkur í miklum hraða,“ segir Carl. Hæglæti gefi manneskjum á hinn bóginn tækifæri til að tengjast sér sjálfum og skilja hverjar þær eru, skilja hvað þær vilji fyrir sig og beina lífinu þangað.

Hann hafi sjálfur verið mjög hraður A-týpu-persónuleiki á yngri árum. Það var ekki fyrr en hann var farinn að leita að æ knappari kvöldsögum fyrir börnin sín til að lesa fyrir þau, vegna tímaskorts, og var að hugsa um að kaupa 60 sekúndna útgáfu af Mjallhvíti og fá hana senda heim með dróna, að hann gerði sér ljóst að hann var á kolrangri leið. Í kjölfarið stakk hann niður fótum og fór að skoða tengsl fólks við hraða og takt og síðan, um tuttugu ára skeið, hefur hann haldið fyrirlestra víða um heim til að reyna að hjálpa fólki að hægja sig niður.

Carl segir að finna megi hæglæti og hraða í flestum nútímasamfélögum og tekur sem dæmi að Ítalir séu afar öflugir í hæglætis-fæðuhreyfingunni en allir þeir sem hafi ekið ítalskar hraðbrautir sjái þar snarpa andstæðu hæglætisins. Sitthvað megi læra af öllum þjóðum heims.

Hæglæti er víðtæk forvörn

„Hraði og streita eru einkennandi fyrir íslenskt samfélag og ástæða er til að efna til vitundarvakningar um að hægt sé að breyta því, þannig að samfélaginu takist að hlúa betur lýðheilsu þjóðarinnar, skapa betri og innihaldsríkari félagsleg tengsl og byggja á betri ákvörðunum, teknum í yfirvegun og af skynsemi,“ segir formaðurinn, Þóra Jónsdóttir.

Há tíðni kulnunar, neikvæð áhrif og áreiti vegna snjalltækjanotkunar, aukinn einmanaleiki og kvíði séu áskoranir samtímans sem hægt er að vinna gegn með því að auka meðvitund um að það er hægt að velja að lifa hægar og í betri tengslum.

„Hæglæti getur þannig verið víðtæk forvörn gegn uppbyggingu skaðlegrar streitu, hún getur skapað tækifæri og rými fyrir hamingju og heilbrigði,“ segir hún jafnframt.

Byrjaði með Slow Food

Hæglætishreyfingin á rætur sínar að rekja til Hæglætisfæðuhreyfingarinnar (e. Slow-food movement) sem varð til á Ítalíu á níunda áratug liðinnar aldar. Í dag hefur Slow-food breiðst út um allan heim og nýtur verðskuldaðrar hylli. Hæglætishreyfingin teygði sig svo smám saman í ýmsar áttir, m.a. í tískuheiminn með hæg-tísku, í ferðamannaiðnaðinn með hæg-ferðamennsku, í hæg-uppeldi og áfram mætti lengi telja. Hæglætishreyfingin á Íslandi heldur m.a. úti vef og hlaðvarpi.

Skylt efni: hæglætishreyfingin

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...