Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Jaruga-vatnsaflsvirkjunin í króatíska Krka-þjóðgarðinum stendur við hlið Skradinski Buk-fossanna og var fyrsta samþætta riðstraums-raforkukerfi Króatíu. Jaruga var upphaflega hönnuð til að knýja götuljósin í Dalmatíu-borginni Šibenik.
Jaruga-vatnsaflsvirkjunin í króatíska Krka-þjóðgarðinum stendur við hlið Skradinski Buk-fossanna og var fyrsta samþætta riðstraums-raforkukerfi Króatíu. Jaruga var upphaflega hönnuð til að knýja götuljósin í Dalmatíu-borginni Šibenik.
Mynd / Steinunn Ásmundsdóttir
Utan úr heimi 30. september 2025

Þjóðgarður og vatnsaflsvirkjanir í eina sæng

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Í Krka-þjóðgarðinum í Króatíu er að finna aðra elstu vatnsaflsvirkjun í heimi, sem raunar er aðeins 48 klukkustundum yngri en sú elsta, í Niagara-fossunum. Báðar voru hannaðar af Nikola Tesla.

Jaruga-vatnsaflsvirkjunin stendur við hlið Skradinski Buk-fossanna í Krka og var fyrsta samþætta riðstraums-raforkukerfi Króatíu. Skradinski Buk samanstendur af 17 fossum sem mynda stórt kalksteinsfossakerfi með 45,7 metra heildarhæð.

 Jaruga var upphaflega hönnuð til að knýja götuljósin í Dalmatíu-borginni Šibenik. Vegna þess er Šibenik nú þekkt sem fyrsta borgin í heiminum þar sem götuljósin voru knúin af fjölfasa riðstraumskerfi. Á tímum þar sem helstu höfuðborgir, eins og París og London, voru enn knúnar af einfasa straumi, var Šibenik þegar langt á undan.

Nikola Tesla var af serbneskum ættum og fæddist í smábænum Smiljan í Austurríki-Ungverjalandi (nú hluti af Króatíu) árið 1856. Tesla var uppfinningamaður, eðlisfræðingur, véla- og rafmagnsverkfræðingur. Uppfinningar hans og kennileg verk eru undirstaða riðstraumskerfa. Á meðal uppfinninga hans eru útvarpið, fjölfasaafldreifikerfið og riðstraumsmótorar sem stuðluðu að iðnbyltingunni síðari. SI-mælieining segulstyrks, tesla, er nefnd í höfuðið á honum.

Merkur þjóðgarður

Bygging Jaruga-virkjunar hófst árið 1894 og stóð í rúmt ár. Upprunalega virkjunin var þó byggð á öðrum stað, við Roški Slap-fossana í Krka, en sú endanlega byggð á núverandi stað við Skradinski Buk árið 1903. Þriggja kV flutningslínan frá Jaruga til Šibenik var 11 kílómetrar að lengd, strengd milli tréstaura, og spennistöðvar sex talsins.

Vatnsveita virkjunarinnar er drjúg. Krka-áin er um 56 kílómetra löng, frá upptökum að ósum í Adríahafi. Heildarvatnasvið árinnar nær yfir 2.427 ferkílómetra, þar af eru um 5% innan landamæra Krka-þjóðgarðsins, eins vinsælasta þjóðgarðs Króatíu.

Hann var stofnaður árið 1985 og nær yfir um 109 ferkílómetra svæði sem einkennist af stórum dalbotni árinnar og bröttum hæðum umhverfis. Gróskan er gríðarleg og ganga gestir um fjölbreytta stíga og göngubrýr í dalbotninum þar sem árvatnið er hvarvetna nálægt, ýmist kyrrlátt eða fossandi. Þjóðgarðurinn er heimkynni yfir 860 tegunda plantna og 222 fuglategunda. Þar eru einnig t.d. rústir frá rómverskum tíma, herstöð, klaustur frá 15. öld á eynni Visovac og vatnsmyllur sem notaðar voru til að mala korn, auk ævagamalla mannvistarleifa.​

Frá júní til september má sjá fjölda fólks baða sig í Krka-ánni og í hyljum undir Skradinski Buk- og Roški Slap-fossunum en starfandi vatnsaflsvirkjanir eru við bæði fossakerfin. Virkjanirnar hafa gert kleift að framleiða rafmagn sem styður við bæði iðnað og heimili í Króatíu, en rafmagnið frá þeim er einnig nýtt fyrir áveitu- og vatnsveitukerfi.

Heklað utan á mórberjatré

Í dalbotni í Krka-þjóðgarðsins vex afar sérstætt 400 ára gamalt mórberjatré (Morus alba L.) sem er í sérstöku dálæti meðal gesta. Svo miklu raunar að fólk kemur með lítil hekluð stykki og bætir í ört vaxandi manngerða skreytingu á trjástofninum. Ummál trésins í bringuhæð mælist 475 cm.

Hvíta mórberjatréð er lauftré af Moraceae-ætt. Það barst upphaflega frá norðurhluta Kína en hefur fest sig í sessi í hlýrri hlutum Evrópu og Mið-Asíu. Blöðin innihalda mjólkurkenndan safa sem nærir silkiorma og þaðan er heitið mórberjasilki komið. Mórberjatréð blómstrar í apríl og maí og ætur ávöxturinn er hvítur, bleikur eða dökkrauður og þroskast í júní og júlí.

Virkjun og verndun

Krka-þjóðgarðurinn er verndaður með löggjöf og reglugerðum sem eiga að takmarka áhrif vatnsaflsvirkjananna á vistkerfið. Þetta eru meðal annars takmarkanir á hámarksnotkun vatns og samkomulag við raforkufyrirtæki um hvernig virkjununum er stýrt til að vernda náttúruna. Stjórn Krka-þjóðgarðsins er sögð vinna í nánu samstarfi við stjórnvöld og vísindamenn til að tryggja sem eðlilegast náttúrulegt ferli árinnar þrátt fyrir virkjanirnar. Í dag er þó umtalsverður þrýstingur frá umhverfisverndarsamtökum og alþjóðasamfélaginu um að endurheimta náttúrulegt flæði Krka-fljótsins.

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur
Fréttir 5. desember 2025

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur

Breytingar á reglum um erfðabreyttar lífverur hafa verið kynntar til umsagnar í ...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f