Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Hítará á Snæfellsnesi.
Hítará á Snæfellsnesi.
Skoðun 16. júní 2020

Það er búið að lögfesta heimild til erfðablöndunar á villtum íslenskum laxastofnum

Höfundur: Valdimar Ingi Gunnarsson
Áhættumat erfðablöndunar felur í sér erfðablöndun á villtum íslenskum laxastofnum, sérstaklega í veiðiám á eldissvæðum. Í þessu samhengi má benda á athugasemd eins veiðiréttarhafa með fiskeldisfrumvarpinu: ,,Það er raunar með nokkrum ólíkindum að veitt sé lagaheimild fyrir því að erfðablanda megi villtan íslenskan lax.“ Ísland nýtur þeirrar vafasömu sérstöðu að virðist vera eina landið þar sem búið er að staðfesta í lögum samþykkt á Alþingi Íslendinga að heimila erfðablöndun á villtum laxi.
 
Ekkert viðmið
 
Valdimar Ingi Gunnarsson.
Hvorki er til staðar nothæft viðmið fyrir hlutfall eldislaxa í veiðivatni eða erfðablöndun. Viðmiðið, ákv. hlutfall eldislaxa í veiðivatni, er á undanhaldi þar sem talið er að það sýni ekki alltaf rétta mynd á mögulegri erfðablöndun. Þróunin hefur verið að fjarlæga eldislax úr veiðivatni fyrir hrygningu í staðinn fyrir að velta fyrir sér hve mikla erfðablöndun viðkomandi laxastofn þolir. Með Áhættumati erfðablöndunar er verið að fara þá leið á Íslandi sem í raun er búið að hafna í Noregi.
 
Aðferðir við að greina eldislax 
 
Það eru einkum tvær leiðir til að aðgreina eldislax frá villtum laxi:
 
Sjónmat: Metið út frá útliti og atferli fisksins í veiðiám. Þessi aðferð er notuð með góðum árangri í Noregi og er búið að gefa út sérstakan staðal. Einhverjar efasemdir er þó um notagildi sjónmats á Íslandi af óskiljanlegum ástæðum.  Þegar fiskurinn er veiddur er staðfest með hreistursaflesningu hvort um hafi verið að ræða eldislax.
Erfðarannsóknir: Taka sýni úr laxi eða seiðum í veiðiám og meta út frá erfðafræðilegum aðferðum hvort um sé að ræða eldislax.
 
Sjónmat er mun ódýrari og skilvirkari aðferð en erfðafræðilegar aðferðir sem jafnframt gefur möguleika á að koma í veg fyrir tjón, þ.e.a.s. erfðablöndun. 
 
Hvert er viðmiðið fyrir erfðablöndun?
 
Það er ekki þekking til staðar til að setja viðmið fyrir erfðablöndun sem byggir á vísindalegum grunni. Eða eins og Hafrannsóknastofnun lýsir stöðunni: ,,Enn er þol villtra stofna gagnvart erfðablöndun við eldisfisk ekki vel þekkt, né heldur hvernig blendingum reiðir af.“ Vandamálið er að ekki eru til nein viðmið fyrir ,,ásættanlega erfðablöndun“ og hljóta því ákvarðanir að byggjast á ,,geðþóttaákvörðunum“.  Ekki er fyrirséð að upplýsingar um ,,ásættanlega erfðablöndun“ liggi fyrir á næstu árum eða jafnvel áratugum. Það mun alltaf vera andstaða við erfðablöndun og óþarfi í raun að gera ráð fyrir henni þar sem hægt er að fjarlægja áhættuna, þ.e. eldislaxinn úr veiðivatninu fyrir hrygningu, og þannig koma í veg fyrir eða draga verulega úr líkum á erfðablöndun.
 
Fjögurra prósent viðmið varhugavert
 
Í Áhættumati erfðablöndunar er miðað við að hlutfall eldislaxa í veiðivötnum sé lægra en 4%.  Fjögurra prósenta viðmið getur þó verið varhugavert vegna þess að:
 
Þegar um er að ræða veikan laxastofn, með fáum villtum hrygningarfiskum, er tiltölulega auðvelt fyrir eldislaxinn að hrygna vegna lítillar samkeppni frá þeim villta. Er verið að ræða um 4% af sterkum laxastofni eða stofni sem er í mikilli lægð?
 
Eldislax er að öllu jöfnu stærri en villtur lax og þegar miðað er við lífmassahlutfall getur hlutfallið verið töluvert hærra en þegar miðað er við fjölda fiska, sérstaklega í tilfelli smálaxastofna eins og algengt er á Íslandi.
 
Hvað með núll-regluna?
 
Viðmiðið, ákv. hlutfall eldislaxa í veiðivatni, er á undanhaldi erlendis og í staðinn ætti að vera lögð áhersla á 0-regluna hér á landi, þ.e.a.s. fjarlægja eldislax úr veiðiám áður en hrygning á sér stað.  Í Noregi er hlutfall eldislaxa mælt í flestum veiðiám með náttúrulegum stofni laxa, einkum með því að kafa á haustin og telja fjölda villtra laxa og eldislaxa. Vöktun er aftur á móti þannig háttað í Áhættumati erfðablöndunar að ekki verður hægt að reikna út hlutfall eldislaxa í flestum veiðiám á Íslandi og þannig er viðmiðunin um ákveðið hlutfall eldislaxa marklaus. Fjallað verður nánar um þetta atriði í grein um vöktun. 
 
Úrelt vinnubrögð
 
Í Áhættumati erfðablöndunar er megináhersla lögð á að vakta erfðablöndun, þ.e.a.s. staðfesta að atburðurinn erfðablöndun hafi átt sér stað. Hér er ,,lokaafurð“ mæld og metin, aðferðafærði sem var lögð af í sjávarútvegi fyrir áratugum. Af hverju er verið að spá í hve mikil erfðablöndunin má vera? Látum náttúruna njóta vafans og leggjum alla áherslu á að koma í veg fyrir að norskættaður eldislax nái að hrygna í íslenskum veiðiám. Það er ekkert viðmið til staðar sem er stór áskorun fyrir Hafrannsóknastofnun þegar veita á ráðgjöf til stjórnvalda. Fjallað verður seinna um grundvöll ákvörðunartöku í grein um viðbrögð.
 
Valdimar Ingi Gunnarsson
Höfundur er sjávarútvegs­fræðingur og hefur m.a. unnið við ýmis mál tengd fiskeldi í rúm þrjátíu ár.
Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f